Arna Atladóttir gifti sig í júlí síðastliðnum og hannaði brúðarkjólinn sinn sjálf en lét ekki þar við sitja heldur saumaði hún hann líka og það mestmegnis í höndunum.
Arna hafði unnið sem flugfreyja hjá WOW Air þegar það fór í gjaldþrot fyrr á þessu ári. Hún segist hafa elskað flugfreyjustarfið og fundist gaman að vinna með mismunandi fólki og ólíku.
En hún sat þó ekki auðum höndum eftir að hafa misst vinnuna hjá WOW. Arna og maður hennar, Árni Þorvaldsson, giftu sig í byrjun júlí síðastliðins og Arna hannaði og saumaði brúðarkjólinn sjálf. Hún segir að þetta hafi vissulega verið hálfgerð geggjun á tímabili.
„Upphaflega hugmyndin var að ég myndi hanna kjólinn, auðvitað, og sjá svo bara um perluvinnuna. En af því að ég missti vinnuna ákvað ég að ráða ekki klæðskera heldur sauma kjólinn sjálf. Og þetta var auðvitað rosaleg vinna; um það bil tólf tímar á dag í tvo mánuði. Og það fór líka heilmikill tími í að hanna kjólinn, því maður er svo gagnrýninn á sjálfan sig og það eru allir með einhverja komplexa.“
Arna hafði áður saumað tvo brúðarkjóla fyrir aðrar brúðir en hún segir að það sé öðruvísi að hanna á sjálfa sig.
„Maður sér sig ekki eins og aðrir sjá mann. Ég var alltaf að breyta einhverju og hefði örugglega getað gert þrjá kjóla á þessu tímabili. Svo var ég líka ein að máta og mæla og næla. Ég reyndar kenndi Árna að setja títuprjónana í svo ég sæi hvar þyrfti að þrengja og svona. Og það var bara æðislegt að hafa hann með mér í þessu. En það var dálítið áhættuatriði fyrir fólk að koma í heimsókn á þessu tímabili því það vissi aldrei nema það fengi kannski títuprjón í rassinn þegar það fékk sér sæti á sófanum,“ segir Arna hlæjandi.
„Heimilið var náttúrlega undirlagt af vinnunni í kringum brúðarkjólinn en vinnan var svo sannarlega þess virði.“
Lestu viðtalið við Örnu í fullri lengd í 36. tölublaði Vikunnar. Nú hver hver að verða síðastur að næla sér í eintak en nýtt tölublað kemur í verslanir á morgun.
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun
Myndir / Unnur Magna