„Hefði náð góðum árangri í hvaða íþróttagrein sem er ef íþróttaskór væru með háum hælum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Vilborg Gunnarsdóttir, löggiltur fasteignasali, segist geta ímyndað sér að það sé leiðinlegt að máta sundboli og þess vegna kaupi hún bara bikiní. Að mati blaðamanns er Vilborg með glæsilegri konum landsins og það var því gleðiefni þegar Vikan fékk að kíkja í fataskápinn hennar.

Vilborg segist vera með frekar afslappaðan fatastíl en það fari eftir tilefninu í hvaða fötum henni líði best. „Þegar ég er í fríi er það afslappaður fatnaður; stuttbuxur og bolur eða léttir kjólar. Annars eru það gallabuxur, fallegar peysur og flottir hælar eða fallegir lágbotna skór sem er frekar nýtt fyrir mér. Ég hef alltaf elskað háa hæla og fólk hefur sagt í gríni að ég hefði náð góðum árangri í hvaða íþróttagrein sem er ef íþróttaskór væru með háum hælum,“ segir hún og skellir upp úr.

„Þessi er frá Hildi Yeoman sem er að gera spennandi hluti. Mér finnst mjög gaman að kíkja til hennar á Skólavörðustígnum.“ Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Vilborg starfar sem fasteignasali hjá Domusnova en hún starfaði áður í fjármálageiranum í mörg ár og segir þá reynslu nýtast sér vel í dag. Annars er greinilegt að hún nýtur starfsins í botn. „Já, starfið gefur mér mikið; maður verður partur af lífi fólks og kynnist því oft vel. Margir eru að taka stærstu og mikilvægustu ákvarðanir lífsins og ég er mjög þakklát fyrir að fá að taka þátt í því, mér finnst líka mikilvægt að allir gangi sáttir frá borði. Svo er mjög gefandi að fylgjast með og aðstoða ungt fólk sem er að festa kaup á sinni fyrstu eign,“ segir Vilborg og brosir. „Það er alltaf gaman í vinnunni og allir hafa mikinn metnað til að gera sitt allra besta.“

„Buxurnar keypti ég í versluninni Hjá Hrafnhildi, jakkann í Comma en toppinn í Companys. Ég skoða víða þegar ég er í stuði.“ Mynd/Anna María Írisardóttir

Hún segist ekki vera dugleg að kaupa föt og fylgihluti á Netinu. „Ég er svolítið hands on – þarf að snerta. Hér heima var ég að uppgötva verslunina Evuklæði í Kópavogi og finnst ótrúlega gaman að kíkja þar inn. Ég fylgist líka með Kultur, Evu, Spakmannsspjörum, Hjá Hrafnhildi og Maia en ég skoða víða þegar ég er í stuði.“

„Þessi kjóll frá Alexander Mcqueen er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er að hluta til úr leðri en bakhliðin er úr teygjanlegu, mjúku efni.“ Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Aðspurð hvað sér finnist skemmtilegast að kaupa svarar Vilborg að það fari eftir því í hvernig skapi hún er. En hvaða flík skyldi henni finnast leiðinlegast að máta? „Ég get ímyndað mér að það sé leiðinlegt að máta sundboli, þess vegna kaupi ég bara bikiní,“ segir hún og hlær.

„Skyrtuna og buxurnar keypti ég í Zara en toppinn í Kultur. Mér finnst gaman að kíkja í Zara, núna er mikið af sumarlegum fötum þar.“ Mynd/Anna María Írisardóttir

Í hnotskurn

Fullt nafn: Vilborg Gunnarsdóttir.
Starfsheiti: Löggiltur fasteignasali og viðskiptafræðingur með meistaragráðu í alþjóðafjármálum og bankastarfsemi.
Aldur: 58 ára.
Áhugamál: Þau eru margvísleg. Ég elska starfið mitt sem tengist áhuga mínum á arkitektúr, hvort sem er innan- eða utanhúss. Mér þykir gaman að gera heimilið mitt hlýlegt og nýt þess að fá góða gesti í mat. Ég er í skemmtilegum hópi laxveiðikvenna þar sem markmiðið er að fara að minnsta kosti í eina góða laxveiði á ári. Þá er öll hreyfing góð – að hjóla, fara í sund, golf eða góðar göngur, hvort sem er á Úlfarsfell, Esjuna eða bara góðan göngutúr í Fossvoginum. Við erum heppin á Íslandi að eiga allar þessar dásamlegu sundlaugar þar hægt er að slaka á og njóta. Þá þykir mér ekki leiðinlegt að komast á hestbak af og til en íslenski hesturinn er dásamlegur.
Fallegasti fataliturinn? Það fer eftir tilefninu og veðrinu. Yfir veturinn ræður sá svarti oft ríkjum en ég flyt mig yfir í ljósari liti yfir sumarið. Minn uppáhalds er græni liturinn, eins og á kjólnum frá Svövu Gríms í Evuklæðum sem sjá má á mynd, ásamt fölbleikum og ljósbláum. Karrígulur er líka góður.
Besta lykt í heimi? Af ný slegnu grasi og íslensku vori.
Besta í lífinu? Dætur mínar þrjár. Þær eru dásamlegar og allar að gera góða hluti í lífinu. Ég hef vonandi kennt þeim eitthvað en ég hef ekki síður lært margt af þeim.

„Ég held mikið upp á þennan leðurjakka sem ég keypti í Spakmannsspjörum.“ Mynd/Hákon Davíð Björnsson

„Þessi dásamlegi kjóll er eftir hönnuðinn Svövu Grímsdóttur. Ég keypti hann í versluninni Evuklæði sem ég er nýbúin að uppgötva og finnst æðisleg.“ Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Íslendingar á forsíðu ELLE

Íslenska fyrirsætan Liv Benediktsdóttir prýðir forsíðu ELLE í Þýskalandi en Kári Sverrisson ljósmyndari tók myndina.Sigrún Ásta Jörgensen...