2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Heiðnar rætur jólahalds

  Í hugum flestra eru jólin fyrst og fremst kristin hátíð þótt ýmsar vísbendingar séu um að þau eigi rætur í heiðnum helgisiðum.

  Þar á meðal er sú venja að bera sígræn tré og greinar inn í hús til að tryggja gott árferði og uppskeru. Margt fleira tengt jólum er óskiljanlegt út frá helgisögum Biblíunnar en einnig skringilega ótengt heiðni. Hvaðan koma til að mynda jólakúlurnar?

  Sumir telja að piparkökur í laginu eins og börn eða sætabrauðsdrengir hafi verið hugsað sem frjósemistákn sem notað var til að heita á guðina.

  Ein vinsælasta sagan um uppruna jólaskrauts er sú að munkur nokkur hafi komið til Þýskalands á sjöundu öld til að predika. Sumir segja að þetta hafi verið sankti Boniface, einn af þjóðardýrlingum Þjóðverja. Sagt er að hann hafi fyrstur bent almenningi á sígrænt tré á torgi og sagt fólkinu að skreyta það. Hann á að hafa sagt að þríhyrningslag þess ætti að minna það á heilaga þrenningu. Fyrsta skreytingin á trénu voru hvít kerti til að minnast jólastjörnunnar sem leiddi vitringana til barnsins í jötunni. Í Lettlandi var það skreytt rósum til heiðurs Maríu guðsmóður. Árið 1605 hófu íbúar Strasborgar að höggva niður furutré og færa inn í hús. Þeir skreyttu þau með pappírsblómum, kertum, kexkökum, hnetum og brjóstsykurstöfum.

  Þar með var brotið blað í skreytingu trésins því um leið og tréð var komið inn úr kuldanum opnuðust ótal nýjar leiðir til að skreyta það. Hver fjölskylda skapaði eigin hefðir og margvíslegt skraut varð til.

  „Epli, hnetur og smákökur héldu áfram að vera vinsælt skraut en smátt og smátt breiddist hefðin út um Evrópu og barst þaðan til Ameríku.“

  AUGLÝSING


  Fljótlega hentu þýskir glerframleiðendur þetta á lofti og hófu að framleiða litlar glerkúlur, stjörnur og fleira til að skreyta tréð. Á það voru einnig hengdar glitrandi silfurlengjur og handsaumuð snjókorn. Litlar gjafir héngu einnig gjarnan milli greinanna svo og sætabrauðsdrengir og piparkökur.

  Jólaskrautsframleiðsla verður iðnaður

  Í dag er framleiðsla jólaskrauts og -sælgætis arðbær iðnaður.

  Epli, hnetur og smákökur héldu áfram að vera vinsælt skraut en smátt og smátt breiddist hefðin út um Evrópu og barst þaðan til Ameríku. Þar stukku menn beint út í djúpu laugina og gömul sögn af dýrlingi sem færði börnum gjafir var færð í nýjan búning. Það var hins vegar ekki fyrr en í kringum árið 1880 að jólaskrautið hætti að vera heimilisiðnaður og færðist inn í verksmiðjur. Handblásið gler var algengast til að byrja með en einnig litlir fiskar, fuglar og önnur dýr í björtum litum búin til úr tré. Í dag er framleiðsla jólaskrauts arðbær iðnaður. Stjörnur, englar, könglar, jólasveinar og ótalmargt fleira hangir á trénu og skapar töfrana.

  Þessi saga er falleg en sumir sagnfræðingar segja að saga jólaskrauts sé mun eldri. Tréð hafi verið skreytt mat og öðrum gæðum til að minna guðina á þörfina fyrir frjósemi og gott veður. Þegar engir ávextir voru til var tilbúnum kúlum komið fyrir í staðinn, enda minnti lag þeirra á epli, ber og appelsínur. Piparkökur í laginu eins og börn eða sætabrauðsdrengir hafi enn og aftur verið frjósemistákn og nokkuð sem notað var til að heita á guðina. En hvort sem kúlurnar og karlarnir eiga uppruna sinn aftur í grárri forneskju eða fylgdu kristnum biskupum í trúboði þá njótum við þess að skreyta tré á hverju ári og dáumst að afrakstrinum.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is