Heilsulind í baðherberginu

Deila

- Auglýsing -

Baðherbergi eru ekki lengur litlir skápar þar sem varla kemst fleira fyrir en klósett, vaskur og baðker.

Í nútímahúsum eru þetta rúmgóð herbergi, enda er þeim ekki eingöngu ætlað að þjóna þeim tilgangi að fólk geti þrifið sig og sinnt frumþörfum líkamans. Flestir reyna núorðið að skapa sér spa eða heilsulind á þessum stað. Þá er gaman að skapa stemningu allt um kring.

Í nútímahúsum eru baðherbergi rúmgóð og flestir reyna núorðið að skapa sér þar spa eða heilsulind. Mynd/Pexels.com

Reglulega ætti að fara í gegnum allt í baðherberginu. Taka út allt sem þar er og flokka eftir því hvort það er notað, í lagi enn þá eða eitthvað sem ekki hentar lengur af einhverjum ástæðum.

Jafnvel þótt rúmgóðir skápar séu í baðherberginu er ótrúlegt hversu fljótir þeir eru að fyllast. Það er vegna þess að fólki hættir til að bæta við nýjum kremum, sjampóflöskum, olíum og sápum án þess að fara í gegnum það sem fyrir er. Þá safnast oft upp gamlar snyrtivörur sem ekki hafa verið notaðar lengi.

Þess vegna er gott að fara reglulega í gegnum vörurnar þar og henda því sem er orðið gamalt eða er aldrei notað.

Í baðskápum ætti bara að geyma nauðsynlegustu snyrtivörur. Ef keypt er inn til heimilisins í mjög stórum einingum er betra að geyma þær annars staðar en á baðinu en fylla á minni ílát með reglulegu millibili.

Eftirsóknarverð spa-stemning

Sumir kjósa að kaupa fallegar flöskur, krukkur og diska og koma fyrir í þeim öllum helstu hreinlætisvörum. Sápur, bómull, sjampó, hárnæring og body lotion fara þá vel í hillum á baðinu eða meðfram baðkarinu.

Inni í sturtunni eða við baðkarið ætti þó aldrei að koma fyrir glervöru. Ef eitthvað brotnar getur það skapað mikla slysahættu.

Ilmvatnsglös eru falleg og ilmurinn sem hver og einn velur segir oft mikið um hann. Það er gaman að stilla upp ilmvatninu sínu á bakka í baðherberginu.

Baðvörur á borð við baðkúlur, olíur, baðbombur og freyðibað eru tilvaldar til að skapa þessa eftirsóknarverðu spa-stemningu. Auk þess að vera notalegar eru þessar vörur góðar fyrir heilsuna. Olían mýkir og nærir húðina, ilmurinn hefur góð áhrif á andlega líðan og slökun eflir ónæmiskerfið.

Mikil prýði er ævinlega að fallegum handklæðum og á baðinu þarf að hafa nóg af þeim. Ef skápapláss er lítið er hægt að koma fyrir nokkrum á handklæðaofni eða í litlum stiga sem reisa má upp við vegg eða við baðkarið.

Margir kjósa að hafa handklæðin sín til sýnis í opnum hillum eða kössum. Þau má einnig brjóta vel saman og raða ofan á trékoll.

Kertaljós og ilmvatnsglös

Kertaljós er einstaklega hlýlegt og margir kjósa að nýta sér þá eiginleika þegar slakað er á í baði. Kerti má nota á ýmsa vegu í baðherbergjum. Ilmkerti skapa andrúmsloft og eyða lykt en teljós í fallega litum glösum eru til mikillar prýði.

Ilmvatnsglös eru falleg og ilmurinn sem hver og einn velur segir oft mikið um hann. Það er gaman að stilla upp ilmvatninu sínu á bakka í baðherberginu. Þess þarf þó að gæta að glasið standi ekki í of mikilli birtu því sólarljós getur breytt ilminum.

Kerti má nota á ýmsa vegu í baðherbergjum. Mynd/Pexels.com

Öryggisráðstafanir

Þar sem börn eru á heimili þarf að gera sérstakar öryggisráðstafanir í baðherberginu.

Komið fyrir skemli fyrir börnin að standa á þegar þau nota vaskinn.

Passið að öll blöndunartæki séu þannig stillt að sérstaklega þurfi að breyta þeim til að vatnið verði meira en 37° C heitt.

Geymið hreinsiefni þannig að börn geti örugglega ekki opnað ílátin.

Gætið þess að glerílát og annað brothætt sé ekki þar sem börn ná til.

Komið öllum sápuefnum þannig fyrir að barnið geti ekki skammtað sér sjálft úr ílátunum.

Nauðsynlegt er að hafa hreinsivörur inni á baði því baðkar, klósett og vaska þarf stundum að þvo daglega.

Þessu er gott að koma fyrir inni í skáp þar sem ekki sést í það en ef það er ekki mögulegt er víða í húsgagnaverslunum hægt að fá skemmtilega kassa, körfur eða litlar frístandandi hillur þar sem hægt er að raða þessu smekklega.

Hillunni er hægt að koma fyrir á lítið áberandi stað eða þannig að hreinsivörurnar sjáist sem minnst.

Höfundur / Steingerður Stefánsdóttir

Aðalmynd / Pexels.com

- Advertisement -

Athugasemdir