Heimagerðir maskar

Það jafnast fátt á við að dekra aðeins við sjálfa sig og lífga upp á útlitið.

Í eldhússkápunum leynist ýmislegt sem nota má í maska, skrúbba og aðrar meðferðir;

Við eigum flestar einn eða tvo eða fleiri maska og aðrar húðmeðferðir í baðherbergisskápnum sem er gott að grípa í. Stundum langar mann samt að prófa eitthvað nýtt og þá er engin ástæða til að rjúka strax út í búð heldur tilvalið að kíkja í eldhússkápana. Þar leynist nefnilega ýmislegt sem nota má í maska, skrúbba og aðrar meðferðir; hér koma nokkrar góðar uppskriftir.

Bananamaski
Bananar eru mjög næringarríkir og eru því frábærir í maska. Hunangið í maskanum er einnig bakteríudrepandi og úr appelsínusafanum fæst C-vítamín. Þessi suðræni maski gefur húðinni heilbrigðan ljóma og hentar öllum húðgerðum.

 1. Stappið hálfan banana
 2. Blandið 1 msk. af appelsínusafa og 1 msk. af hunangi saman við.
 3. Berið á andlitið og leyfið blöndunni að vera á húðinni í 15 mínútur.
 4. Skolið af með volgu vatni og berið rakakrem á húðina.

Morgunverðarmaski
Prótín- og trefjaríkur maski sem hentar vel fyrir blandaða húð því hann veitir raka og styrkir húðina.

 1. Blandið saman einni eggjarauðu, 1 msk. af hunangi, 1 msk. af ólífuolíu og dl af höfrum.
 2. Berið maskann á og hafið á andlitinu í 15-20 mínútur.
 3. Gott er að fjarlægja meirihlutann af maskanum og setja í ruslið eftir notkun, svo hann fari ekki í niðurfallið í vaskinum. Skolið svo af með volgu vatni.
AUGLÝSING


Sítrus- og hunangsmaski
Sítrussafi er mjög hreinsandi fyrir húðina. Hann inniheldur sýrur sem eru mjög góðar til að fjarlægja dauðar húðfrumur. Hins vegar getur safinn verið aðeins of sterkur til að nota á andlitið og því er mjög gott og róandi fyrir húðina að blanda honum saman við hunang.

 1. Blandið saman 3 msk. af appelsínusafa og dl af hunangi.
 2. Berið á andlitið og leyfið maskanum að liggja á húðinni í 20-30 mínútur.
 3. Skolið af með volgu vatni, síðan með köldu vatni og berið rakakrem á húðina.

Rauðvínsmaski
Resveratrol er öflugt andoxunarefni sem finnst aðallega í rauðvíni. Andoxunarefni geta spornað gegn öldrun húðar og þau draga úr áhrifum mengunar og umhverfisþátta á húðina. Leirinn í maskanum fæst í heilsuvöruverslunum og dregur óhreinindi úr húðholum á meðan olían veitir húðinni næringu og hafrarnir skrúbba húðina örlítið.

 1. Blandið saman 4 msk. af rauðvíni, 4 msk. kaolin-leir, 2 msk. grapeseed-olíu og 1 msk. af haframjöli.
 2. Berið á andlit, niður háls og jafnvel á bringuna og leyfið maskanum að vera á húðinni í um 10 mínútur.
 3. Skolið af með volgu vatni og berið góða húðolíu á húðina á eftir.

Texti /Hildur Friðriksdóttir

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is