„Hekla er fyrirmynd okkar allra“

Deila

- Auglýsing -

Þegar Hekla Björk Hólmarsdóttir fæddist, sjö mínútum á undan tvíburasystur sinni Kötlu, og fjórum vikum fyrir tímann, töldu læknar að hún þyrfti bara að stækka og þyngjast. Annað kom á daginn þegar hún greindist með Goldenhar-heilkennið og alvarlegan hjartagalla. Smám saman kom svo í ljós fleira sem háði Heklu. Þessi síbrosandi og jákvæða unga stúlka keppti í nútímafimleikum á Special Olympics fyrr á árinu og lætur engan segja sér að það sé eitthvað sem hún geti ekki gert.

 

Tvíburasysturnar Hekla og Katla voru ekki stórar þegar þær fæddust tólfta maí árið 2000; Hekla rétt um fjórar merkur og Katla sex. Til að byrja með voru þær settar á aðra af tveimur vökudeildum Landspítalans í hitakassa en síðar voru systurnar færðar niður á hina vökudeildina til að stækka og dafna. Sigríður segist þó hafa séð strax að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera.

„Þær voru ekki fyrstu börn; við áttum þrjú börn fyrir, og ég hafði bara einhverja tilfinningu fyrir því að eitthvað væri að. Þegar sá Hróðmar hjartalækni koma gangandi eftir ganginum áttaði ég mig undir eins á því að hann væri að koma að tala við mig. Ég sá það á honum að fréttirnar væru alvarlegar.“

Hekla komið mörgum á óvart
Í ljós hafði komið að Hekla var með alvarlegan hjartagalla og henni var vart hugað líf. Ljóst var að hún þyrfti að fara sem fyrst til Boston í stóra opna hjartaðaðgerð en hún var of lítil og veikburða til að geta farið strax þótt lægi á.

„Hekla var með þrönga fósturæð og stór göt á milli hjartahólfanna,“ segir Sigríður. „Auk þess var hún með yfir hundrað göt í hjartabotninum, sem kallast svissneskur ostur. Það hafði þau áhrif að blóðflæðið var of mikið og það olli miklu álagi á hjartað og lungun. Þegar Hekla var aðeins þriggja mánaða gömul var flogið með hana til Boston þar sem hún fór í opna hjartaaðgerð. Í þeirri aðgerð var sett band á lungnaslagæðina til minnka blóðflæðið og koma á jafnvægi. Þetta var gert til að vinna tíma svo Hekla hefði tækifæri til að þyngjast og stækka áður en hún þyrfti að fara í fleiri stærri hjartaaðgerðir. Það var ljóst að þetta yrði ekki eina aðgerðin en læknarnir vonuðust til að geta beðið sem lengst með þá næstu.“

Þegar Hekla var tveggja ára fór hún aftur til Boston þar sem nokkrar aðgerðir voru gerðar. Fyrst var bandið fjarlægt og stærstu götunum á milli hjartahólfanna lokað. Henni var haldið sofandi á milli aðgerðanna sem voru gerðar í tvennu lagi. Í þeirri seinni fékk Hekla sérstakan hjartabúnað sem Sigríður segir að hafi verið tilraunaverkefni á þeim tíma; búnaðinum mætti helst líkja við regnhlíf og Hekla hafi fengið tvær slíkar hlífar til að hylja sem mest af götunum í hjartabotninum, síðan hafi myndast örvefur yfir.

„Hekla hefur sýnt það og sannað að hún getur flest ef ekki allt sem hún ætlar sér.“

„Hekla var með fyrstu hundrað einstaklingunum í heiminum sem fengu þennan búnað og ég þurfti að skrifa undir óteljandi pappíra og kvitta upp á að ég myndi ekki fara í mál við læknana ef illa færi því búnaðurinn væri á tilraunastigi og ósamþykktur. En sem betur fer gekk þetta allt upp. Hefði Hekla fæðst einu eða tveimur árum fyrr hefði þurft að fara í gegnum allan hjartavöðvann sem hefði verið gífurlega áhættusamt og hún svo lítil og veik að þeir hefðu varla treyst sér til þess. Svo hún væri einfaldlega ekki á lífi í dag ef hún hefði ekki fengið þennan hjartabúnað á þessum tíma.“

Mynd/Hallur Karlsson

Auk hjartagallans er Hekla með Goldenhar-heilkenni og þroskaskerðingu. „Hún sér eiginlega ekkert með vinstra auga og það er algjörlega lokað inn í vinstra eyra. Hún er búin að vera í ýmiss konar þjálfun frá fæðingu, sjúkraþjálfun og talþjálfun, og hefur oft verið mjög mikið veik,“ segir Sigríður. „Hekla er með fjölþætta sjúkdómsgreiningu sem nær yfir nokkrar blaðsíður. En við erum í raun og veru löngu hætt að segja að hún sé með Goldenhar. Hekla er bara Hekla. Hún er einstök. Og það segja læknarnir sömuleiðis,“ segir Sigríður og lítur brosandi á dóttur sína sem brosir á móti.

„Ég held líka að maður eigi ekkert að setja einhvern stimpil á börnin sín. Hekla hefur komið mörgum á óvart og gerir alls konar hluti sem var talið ólíklegt að hún gæti gert. Til dæmis var talið ólíklegt að hún myndi ganga og þegar hún var fimm ára var okkur tjáð af fagaðila að hún sýndi mjög litlar framfarir í tali og það myndi teljast gott ef hennar nánustu myndu skilja hana þegar hún væri orðin fullorðin. En Hekla hefur sýnt það og sannað að hún getur flest ef ekki allt sem hún ætlar sér.“

„Er það svona sem þið tyggið matinn ykkar?“
Alls hefur Hekla farið í yfir tuttugu aðgerðir erlendis. Auk hjartaaðgerðanna hefur hún meðal annars farið í aðgerð þar sem hún fékk svokallað baha-heyrnartæki, sem fest er með skrúfu utan á höfuðkúpuna aftan við vinstra eyra, en hún er einnig með venjulegt heyrnartæki á því hægra. „Ég er alveg heyrnarlaus ef ég tek bæði heyrnartækin af mér, sem er viss kostur ef það er verið að tuða í manni. Stundum lækkaði ég í þeim þegar ég var í grunnskóla ef það var mikill hávaði,“ segir Hekla brosandi.

Þá hafa fjölmargar aðgerðir verið gerðar á andliti Heklu, að sögn Sigríðar. „Vöntun var á kjálkabeini og það þurfti að taka part af rifbeini til að byggja upp kjálka vinstra megin. Í framhaldinu fór svo Hekla meðal annars í tvær kjálkalengingar og fleiri stórar aðgerðir.“

Hefur þetta ekki verið sársaukafullt ferli?
„Nei, nei, ekki svo. Ég er bara búin að venjast þessu. Það er aldrei neitt svo erfitt og ég er aldrei við það að gefast upp,“ segir Hekla brosandi.

„Ég læt ekkert stoppa mig. Það er alltaf gott alla vega að prófa og sjá hvort maður geti ekki örugglega gert hlutina.“

„Hekla er ótrúlegur nagli,“ segir Sigríður. „Gott dæmi um það hvað hún er hörð af sér er að eftir síðustu aðgerð, sem var gerð í ágúst síðastliðnum á Barnaspítala Fíladelfíu í Bandaríkjunum, lá hún sárkvalin og bólgin á vöknun og átti að stjórna morfíngjöfinni sjálf. Það er þannig þarna úti og gert frá því börnin eru pínulítil, en þau geta aldrei tekið of mikið magn; ákveðinn skammtur er hámark og það er vel fylgst með þessu öllu saman og hversu mikið af skammtinum sjúklingurinn er búinn að nota. Það var búið að fara mörgum sinnum yfir þetta allt saman með okkur og Heklu líka svo hún kunni vel á það hvernig hún ætti að ýta á takka til að fá meira morfín í æð. Svo voru læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir alltaf að spyrja hvort hún vissi ekki örugglega hvernig hún ætti að skammta sér morfínið því hún notaði það ekki. Þeir spurðu jafnvel hvort við borguðum þetta sjálf, því þeir héldu að við værum kannski að spara, því þetta er auðvitað gríðarlega dýrt. En nei, nei, þá fannst Heklu bara engin þörf á að nota morfínið. Og hún tók ekki einn einasta skammt. Hún tók bara venjulega verkjatöflu. Læknarnir áttu ekki til aukatekið orð. En ég sagði þeim að dóttir mín væri auðvitað ekki með neinn venjulegan verkjastuðul; hún er alveg mögnuð.“

„Þetta var bara sami sári verkurinn sem ég hafði verið með alltaf áður,“ segir Hekla. „En núna er hann farinn. Og ég er líka ekki alltaf með hausverk.“ Sigríður bætir við að Hekla hafi verið með stöðugan höfuðverk þar sem bitið hjá henni var svo skakkt. „Það var svo mikill munur á hægri og vinstri hluta sem náðist ekki að laga í tannréttingum hér heima. Það þurfti þessa stóru aðgerð til þess.“

Aðgerðin tók sjö klukkutíma og segir Sigríður að hún hafi í raun verið til þess fallin að lengja verulega efri og neðri kjálka hjá Heklu. „Bitið hjá henni var svo slæmt að hún átti mjög erfitt með að tyggja mat almennilega og hann stóð oft í henni. Auk þess var hún með stöðugan höfuðverk seinnipart dags því hún var svo þreytt eftir að borða.“ Sigríður segir læknana því hafa sagt aðgerðina mikilvæga; hún myndi verða til þess að Hekla fengi eðlilegt bit og gæti tuggið með öllum tönnunum. Þeir hafi lýst aðgerðinni og það hafi verið auðheyrt á þeim að hún væri mjög stór og erfið. Þau hjónin hafi ákveðið að leggja það í hendurnar á Heklu að ákveða hvort hún vildi fara strax í hana. „Það er auðvitað svo mikið álag fyrir hana að fara aftur og aftur í aðgerðir en hún var ákveðin í því að fara.“

„Ég er með 48 skrúfur í andlitinu núna,“ segir Hekla brosandi og sýnir blaðamanni röntgenmynd sem tekin var eftir aðgerðina. Þar sjást allar skrúfurnar greinilega. „Ég er ennþá svolítið dofin en annars bara góð.“

„Það tekur tíma fyrir dofann að hverfa alveg,“ segir Sigríður. „Þetta var enn stærri aðgerð en við áttum von á en ávinningurinn fyrir Heklu er ofboðslega mikill. Það hefur breytt öllu fyrir hana að geta lokað munninum almennilega og tuggið. Hún er í rauninni að læra að tyggja núna og að skilja hvernig það virkar, sem er eitthvað sem manni finnst alveg sjálfsagður og einfaldur hlutur að gera.“ Fjórum vikum eftir aðgerðina var Hekla að borða og spurði okkur: „Er það svona sem þið tyggið matinn ykkar?“ Henni fannst þetta svo skrýtið. Hún er alsæl og hefur ekki fengið höfuðverk síðan og útlitslega er einnig gífurlega mikil breyting sem hún er ekki síður ánægð með.“

Var eins og lítill páfagaukur
Sem fyrr segir er Hekla mikið heyrnarskert en það kom þó ekki í ljós strax. „Fyrst var talið að hún væri bara heyrnarskert á vinstra eyra en svo kom í ljós að hún var það líka á því hægra,“ segir Sigríður. „Hekla var alltaf mjög óskýr og fáir skildu hana; Katla tvíburasystir hennar var alltaf sótt til að túlka fyrir hana. Hún talaði líka ekkert fyrst til að byrja með og þá talaði Katla fyrir hana og sagði hvað hún vildi. Svo hermdi Hekla bara eftir því sem hún heyrði; var eins og lítill páfagaukur og sagði það sama og hún hafði heyrt. Þess vegna áttaði fólk sig ekki á því fyrstu árin að hún væri með þroskaskerðingu. Svo flæktist málið þegar Hekla var spurð nánar út í það sem hún var að segja, þá gat hún ekki útskýrt hvað hún ætti við. Sagði bara að hún vissi það ekki eða við ættum að spyrja Kötlu.“

Mynd/Hallur Karlsson

Sigríður segir Heklu hafa byrjað að nota tákn með tali í leikskóla en svo hafi verið tekin ákvörðun um að hún lærði táknmál heyrnarlausra. „Við fórum á námskeið í því og fengum frábæran kennara, Margréti Gígju, heim til okkar. Þegar Hekla var fimm ára tjáði fagaðili okkur að ólíklegt væri að neinn, nema hennar nánustu, kæmi til með að skilja hana. Við leituðum því til Bryndísar Guðmundsdóttur, talmeinafræðings, sem er einstök. Hún kynnti sér heilkenni Heklu til hlítar og sinnir henni alveg ofboðslega vel. Hekla hefur verið hjá henni í talþjálfun frá því hún var fimm ára, stundum allt að þrisvar í viku, og svo var hún í strangri talþjálfun heima líka. Hjá Bryndísi fór Hekla loks að taka framförum.“

Sigríður segir að kjálkalengingin, og sérstaklega síðasta aðgerð, hafi líka haft sitt að segja því hljóðmyndunin sé orðin mun betri. „Hekla nær líka að tala hærra og skýrar. Áður þurfti maður oft að biðja hana um að hækka röddina því hún áttaði sig ekki á að hún talaði lágt og svo náði maður ekki alltaf öllu sem hún sagði. En þetta er orðið allt annað í dag. Hún hefur þó notað táknmálið þegar hún hefur farið í aðgerðirnar.“

Skóli án aðgreiningar hentar ekki öllum
Hekla gekk í almennan grunnskóla og segir Sigríður að hún hafi alltaf fengið góðan stuðning í skólanum og verið með frábæra kennara. Það hefði þó verið betra fyrir hana að fá að vera í sérskóla til að fá tækifæri til að eignast vini. „Hekla hefði notið þess meira að vera í skólanum hefði hún fengið tækifæri til þess að vera í sérskóla. Skóli án aðgreiningar er fallegt hugtak en að mínu mati hentar það oftast mjög illa þeim börnum sem eru með mikla þroskaskerðingu eða einhverf. Hekla var með stuðning inni í bekk en á unglingastigi var hún í námsveri. Ýmsir nemendur komu í námsverið en voru kannski bara nokkra tíma í viku á meðan Hekla og tveir strákar voru þar alla daga.“

„Hekla er fyrirmynd okkar allra, mikil fyrirmynd fyrir systkini sín og ég veit líka að hún er það fyrir skólasystkini sín á starfsbrautinni í FB.“

Sigríður segir að þau hjónin hefðu viljað sjá sterkan hverfisskóla sem væri með sérdeild. Öll þjónusta, eins og til dæmis talþjálfun, myndi nýtast mun betur og það myndi einnig gefa börnum meiri möguleika á að eignast vini og upplifa sig ekki sem tapara. „Það er erfitt að vera alltaf taparinn í bekknum í stað þess að að eignast vini sem eru í sömu sporum, eða svipuðum. Allir vilja fá félagslega tengingu í því sem þeir eru að fást við og á sama hátt vilja þessir krakkar eignast vini. Hekla eignaðist ekki vinkonu fyrr en hún fór á starfsbrautina í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, FB, og þar á hún eina mjög góða vinkonu. Hekla er ekki sterk félagslega, meðal annars á hún mjög erfitt með samtöl. Síðastliðin ár höfum við verið að reyna að aðstoða hana við að æfa sig í því að tala við aðra; hún skilur til dæmis ekki þegar hún er spurð að því hvernig henni líður. Hún vill gjarnan frekar nota ensku til að útskýra en hún er nokkuð sterk í ensku og hefur náð að klára tvo áfanga í almennu deildinni í FB með stuðningi. Hekla er auðvitað heppin að eiga Kötlu að en það þarf líka að passa upp á að Katla fá dálítið rými fyrir sjálfa sig.“

Eins og oft vill vera með eineggja tvíbura eru þær Hekla og Katla mjög nánar og þótt þær rífist eins og venjuleg systkini að sögn Heklu eru þær mjög tengdar og miklar vinkonur. „Ég veit að Hekla væri ekki á þeim stað sem hún er á í dag ef ekki væri fyrir Kötlu,“ segir Sigríður. „Katla er hennar allra besti þjálfari og mesta fyrirmynd. Hekla hefur alltaf viljað gera allt eins og Katla, jafnvel þótt hennar aðstæður byðu kannski ekki alltaf alveg upp á það. Og þær eru ofboðslega tengdar. Katla fer ávallt með Heklu í allar aðgerðir og er henni ómetanlegur styrkur. Við foreldrarnir létum þær vera hvora á sinni deildinni í leikskóla og hvora í sínum bekk í grunnskóla, því við töldum það best fyrir Kötlu að fá smávegis rými fyrir sig. En hún passaði alltaf upp á systur sína og athugaði með hana; hljóp yfir til hennar hvenær sem tækifæri gafst. Hekla er ótrúlega dugleg; hún syngur til dæmis eins og engill og elskar að syngja. Hún hefur verið dugleg að taka þátt í hæfileikakeppninni á starfsbrautinni í FB og varð í fyrsta sæti í síðustu keppni þar sem hún söng og Nína vinkona hennar spilaði undir á píanó. Svo er hún snillingur að prjóna og er til dæmis búin að prjóna nokkrar lopapeysur.“

Hekla sýnir blaðamanni myndir af peysum sem hún hefur prjónað og stoppar við mynd af sjálfri sér í afar fallegri peysu sem tók hana aðeins tvo daga að prjóna. „Hún var að fara í norrænar sumarbúðir á vegum Neistans og sagðist vanta peysu svo hún dreif bara í að prjóna hana,“ segir móðir hennar stolt.

Langþráður draumur rættist
Undanfarin ár hefur Hekla æft fimleika. Hún byrjaði í fimleikadeild Gerplu þar sem hún æfði fimleika fatlaðra og varð margfaldur Íslandsmeistari í greininni. Síðustu þrjú ár hefur hún æft nútímafimleika undir dyggri handleiðslu Sigurlínar Jónu Baldursdóttur, íþróttakennara hjá Ösp, íþróttafélagi fatlaðra, auk þess sem hún þjálfar yngri hópa. Í mars síðastliðnum rættist langþráður draumur hjá Heklu þegar hún keppti fyrir Íslands hönd í nútímafimleikum á Special Olympics sem haldnir voru í Abú Dabí. Þar rakaði hún inn verðlaunum og stóð sig frábærlega, líkt og Arna Dís Ólafsdóttir sem einnig keppti á leikunum. Hekla keppti í sterkum hópi og vakti mikla athygli fyrir árangur sinn.

„Það var geggjað að vera í Abú Dabí,“ segir Hekla. „Við vorum þar í tvær vikur og ég kynntist mörgum á leikunum. Það var svo gaman að hitta aðrar manneskjur sem eru með mismunandi þroska og svoleiðis. Og líka að keppa við aðra. Ég eignaðist vini sem ég er með á Facebook. Mér fannst gaman að kynnast öðrum sem eru í sömu sporum og ég.“ Aðspurð hvaða grein sé í mestu uppáhaldi í nútímafimleikunum svarar Hekla að það séu borðarnir. Í hefðbundnu fimleikunum hafi hún haldið mest upp á jafnvægisslána.

„Katla fer ávallt með Heklu í allar aðgerðir og er henni ómetanlegur styrkur.“

Mynd/Daníel Þór Ágústsson

„Þegar hún gerði æfingar á jafnvægisslánni náði hún að fá mömmu sína og sjúkraþjálfarann til að tárast,“ segir Sigríður. „Ég hélt að jafnvægissláin myndi aldrei ganga upp fyrir hana af því að hún er með svo lélegt jafnvægisskyn en svo rúllaði hún því bara upp. Mér leið eins og hún hefði orðið heimsmeistari; ég var svo stolt. Annars eru nútímafimleikarnir ein allra besta íþróttin fyrir fatlaða. Ég held að það sé algengt að foreldrar fatlaðra barna hugsi að þau eigi aldrei eftir að geta stundað neinar íþróttir og ég viðurkenni að ég var pínulítið þar sjálf. Ég hefði aldrei ímyndað mér að fimleikar ættu eftir að liggja vel fyrir Heklu út af lélegu jafnvægisskyninu og þar sem hún er með mjög litla vöðvaspennu. En vinkona mín hvatti mig til að leyfa Heklu að prófa og ég er ofboðslega þakklát fyrir það í dag. Fimleikarnir hafa gert henni rosalega gott. Það var ólýsanleg upplifun að fara á Special Olympics og fylgjast með öllum keppendunum og sjá alla umgjörðina í kringum þetta. Ég held reyndar að það hafi ekki látið neinn ósnortinn að fylgjast með keppendum. Gleðin er svo fölskvalaus og þau hvetja hvert annað áfram og fagna svo innilega fyrir hverjum og einum. Sorglegast var samt að þetta voru stærstu heimsleikarnir sem voru haldnir í ár og lítið fjallað um það í fjölmiðlum. Steinunn og Katrín gerðu það reyndar mjög vel í þættinum Með okkar augum. En við hefðum gjarnan viljað að sýnt yrði frá mótinu í íþróttafréttunum.“

Sigríður segir fatlaða íþróttamenn ekki fá mörg tækifæri til að keppa erlendis. „Ég held að stærsti hluti ástæðunnar sé í raun sá að það vantar meira fjármagn. Það er dapurlegt því það er afar mikilvægt að fatlaðir fái fleiri tækifæri til að keppa á mótum. Tækifæri til þess gefast ekki hér heima þar sem keppendur eru svo fáir og oft hafa fatlaðir kannski ekki einu sinni neinn til að keppa við.“

Ekki nóg með það að Hekla hafi keppt á leikunum heldur hélt hún líka fyrirlestur ásamt Örnu Dís fyrir fullum sal.

Varstu ekkert feimin við það?
„Nei, ég var búin að æfa ræðuna mína með Bryndísi (talmeinafræðingi, innsk. blm.) og við vorum búnar að fara vel yfir þetta. Ég titraði samt svolítið í hnjánum en hélt bara áfram og lét það ekkert stoppa mig,“ segir Hekla og brosir.

Stefnir á að taka bílpróf
Hekla stundar nám á starfsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og segir að sig langi að verða bókasafnsfræðingur; sér finnist gaman að lesa og bækurnar um Nancy Drew séu í uppáhaldi. Svo stefnir hún á að fá bílpróf. „Ég byrjaði smávegis í ökunámi í sumar en ætla bara að taka það rólega. Í skólanum er boðið upp á ökunám á starfsbrautinni og þar lærum við um öll merkin og hvernig er að taka prófið og svona. Það hafa margir tekið bílpróf eftir að hafa verið á starfsbrautinni.“

„Hekla er alsæl í skólanum og henni finnast kennarnir frábærir,“ segir Sigríður. „Í vor útskrifast hún og fer þá í útskriftarferð með skólanum sem hún hlakkar mikið til. Svo vonast hún til að komast svo sem fyrst í háskólann en því miður komast aðeins tólf fatlaðir nemendur að á tveggja ára fresti.“

Síðustu tvö sumur hefur Hekla unnið á bókasafninu í Kópavogi og segir að það hafi verið rosalega gaman. Hún verður að vinna þar um jólin og segir að það hafi verið draumurinn svo hún sé að vonum ánægð.

„Það er auðvitað svolítið erfitt fyrir Heklu að geta ekki unnið hvar sem er,“ segir Sigríður. „Hún gæti til dæmis aldrei unnið í leikskóla vegna hávaðans en oft er það með því eina sem býðst þeim sem eru í svipuðum sporum og hún.“

Það er komið að því að slá botninn í viðtalið eftir langt og skemmtilegt spjall við þær mæðgur. En það er ekki hægt að kveðja þær án þess að spyrja hvort þær séu alltaf svona brosandi og jákvæðar eins og þær hafa verið allan tímann sem viðtalið stóð yfir. Þær líta hvor á aðra og brosa, auðvitað. „Já, það þýðir ekkert annað,“ segir Sigríður. „Og Hekla er fyrirmyndin með sínu jákvæða viðhorfi, hún er alltaf í góðu skapi og vaknar brosandi á hverjum morgni og brosir þar til hún fer að sofa. Hekla er fyrirmynd okkar allra, mikil fyrirmynd fyrir systkini sín og ég veit líka að hún er það fyrir skólasystkini sín á starfsbrautinni í FB. Við áttum ekkert endilega von á því að hún gæti gert neitt af því sem hún er búin að afreka í dag en hún er aldeilis búin að sýna okkur fram á annað.“

„Mér finnst auðvelt að halda í góða skapið,“ segir Hekla. „Og ég læt ekkert stoppa mig. Það er alltaf gott alla vega að prófa og sjá hvort maður geti ekki örugglega gert hlutina.“

Myndir // Hallur Karlsson
Förðun // Hildur Emils

- Advertisement -

Athugasemdir