2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hélt hún myndi deyja fertug

  Árum saman hefur Guðrún Bergmann leitað eigin leiða til að bæta heilsu sína. Hún varð fyrir alvarlegu áfalli í bernsku sem hafði gríðarleg áhrif á líkamlegt heilbrigði hennar. Í gegnum tíðina var henni ráðlagt að taka margskonar lyf en Guðrún vildi ekki bara slá á einkenni heldur fá fullan bata. Að lokum fann hún sína leið og er hraustari nú en fyrir tæpum þrjátíu árum.

  Margt af því sem hrjáði Guðrúnu á fullorðinsárum rekur hún til atvika í bernsku. „Ég var gróflega misnotuð þegar ég var tæpra sjö ára,“ segir Guðrún.

  „Þegar ég hugsa til baka tengi ég margt af þeim heilsufarsvandamálum sem ég hef þurft að takast á við, við það. Enginn fann út hvað var að mér. Þess vegna fór ég sjálf að leita svara eftir óhefðbundnum leiðum og gera ýmsar tilraunir, en án nokkurrar leiðsagnar og af frekar lítilli þekkingu til að byrja með. Svo var það tæknimaður á sjónvarpinu sem greindi mig með candida-sveppasýkingu, þegar ég var þrjátíu og fimm ára gömul. Þá byrjaði ég af alvöru að breyta mataræðinu.

  Ég get tekið inn öll heimsins bestu bætiefni en ef góð næring fylgir ekki með skila þau ekki árangri.

  Á þeim tíma var takmarkaðar upplýsingar að finna svo ég var í stöðugum tilraunaverkefnum. Tók mataræðið vel í gegn í einhvern tíma eða sinnti því ekki. Bætiefni tók ég svo af og til, en ekki skipulega eins og síðari ár. Ég hef komist að raun um að það virkar best að gera hvorttveggja í einu, taka inn bætiefni til að stuðla að styrkingu líkamans og velja vel matinn sem ég borða. Ég get tekið inn öll heimsins bestu bætiefni en ef góð næring fylgir ekki með skila þau ekki árangri.“

  Guðrún þagnar svolitla stund og heldur svo áfram. „Það var svo skrýtið að ég var alltaf viss um að ég myndi deyja þegar ég yrði fertug. Mjög oft sagði ég við Gulla heitinn að við yrðum að gera þetta eða hitt áður en ég yrði fertug því þá myndi ég deyja. „Hvaða rugl er í þér?“ var hann vanur að svara. Ég var alveg hörð á þessu en í raun hef ég áttað mig á því síðar að gamla sjálfið mitt dó og við tók nýtt. “

  AUGLÝSING


  Guðrún Bergmann prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar.

  Guðrún hefur haldið áfram að þróa sitt mataræði og skoðað vandlega hvað hentar henni, því hún er sannfærð um að allir þurfa að finna sitt mataræði, því ekkert eitt hentar öllum. Hún leggur mikla áherslu á bætiefni sem hún notar daglega með hreinum og góðum mat.

  Mikil lyfjanotkun, einkum verkjalyfja, hefur sömuleiðis eyðileggjandi áhrif á líkamann.

  „Fólk gerir sér ekki grein fyrir að í dag borðum við mikið af mat sem er í raun og veru baneitraður,“ segir hún. „Stærstur hluti t.d. af þeim maís sem ræktaður er í heiminum í dag er erfðabreyttur. Yfir alla akra og grænmetisgarða er úðað skordýraeitri og oft eftir uppskeruna líka, svona til að tryggja að ekkert kvikt sé með. Í því er glýfosfat sem skemmir þarmana í okkur. Þessi eiturefni við ræktun og mikil lyfjanotkun, einkum verkjalyfja, hefur sömuleiðis eyðileggjandi áhrif á líkamann.

  Þess vegna er að mínu mati mikilvægt að breyta um lífsstíl, borða eins mikið lífrænt ræktað og hægt er og nauðsynlegt að taka bætiefni samhliða matnum. Fólk spyr mig undrandi: „Tekur þú þetta alltaf?“ „Já,“ svara ég. „Ég fer líka alltaf í sturtu.“ Ég er með þessu að passa upp á innri hluta líkamans. Hallgrímur heitinn var oft beinskeyttur og hann sagði einhvern tímann við mig: „Við rotnum innan frá og út.“ Með því meinti hann að sjúkdómarnir byrja inni í líkamanum og koma svo út í gegnum verki og ýmis vandamál áður en eru þeir greindir.“

  Sagan þessarar merkilegu konu er rakin í nýjasta tölublaði Vikunnar en Guðrún er enn á fullu við vinnu og segir framkvæmdagleðina ekkert minnka með árunum.

  Myndir / Aldís Pálsdóttir
  Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is