Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Hitaði upp fyrir Jessie J

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngkonan Karitas Harpa bar sigur úr býtum í sjónvarpsþáttaröðinni The Voice Ísland 2017. Síðan þá hefur hún komið víða við en fyrsta sólóplata hennar er væntanleg innan skamms.

Hún segir síðastliðið ár hafa verið ævintýri líkast en nú síðast hitaði Karitas upp fyrir stórsöngkonuna Jessie J. „Ég vissi að Jessie hefði verið dómari í The Voice Britian og sendi í einhverri óskhyggju skilaboð á tónleikahaldarana hér á landi með von um að stækka samfélagsmiðlanetið mitt en átti ekki von á miklum viðbrögðum.”

„Þeir tóku lygilega vel í hugmyndir mínar og örskotstund síðar var ég fengin í viðtal og spurð hvort ég gæti hitað upp fyrir hana á tónleikunum hér heima.”

„Ég hreint út sagt hrópaði upp yfir mig og hringdi samstundis í vinkonu mína sem er álíka mikill aðdáandi, hennar fyrstu orð voru að þrátt fyrir að samgleðjast mér í einu og öllu yrði hún að viðurkenna að nú fyndi hún líka ögn af afbrýðisemi, svo hlógum við saman í algjörri geðshræringu. Lengi á eftir var ég þó fullviss um að þetta myndi detta upp fyrir því íslensku tónleikahaldararnir þurftu staðfestingu frá aðilum úti en þrátt fyrir að vilyrði frá þeim væri í höfn var tilfinningin samt óraunveruleg. Ég trúi þessu varla enn þá.”

Óhætt er að segja Karitas hafa verið iðna við kolann því á innan við ári hefur hún komið víða fram, meðal annars sem meðlimur sönghópsins Fókus og nú síðast sem hluti af GRL PWR hópnum sem hélt fyrstu íslensku tónleikana tileinkaða bresku hljómsveitinni Spice Girls á dögunum. Hún vinnur hörðum höndum að sinni fyrstu sólóplötu auk þess að sinna nýju starfi í útvarpi en hennar fyrsta lag All the things you said, er þegar komið í útvarpið.

„Mér fannst vera kominn tími til að gefa út eigin tónlist, finna minn stíl og láta loksins verða af þessu.”

„Fyrsta ákvörðunin var hvort ég vildi hafa efnið á íslensku eða ensku en hingað til hef ég gefið út tónlist á íslensku. Ég ólst upp í Bandaríkjunum sem barn og því er enskan mér líka eðlislæg, þess vegna ákvað ég að breyta til og snúa mér að enskunni. Ég setti mig í samband við strákana í Stop Wait Go og saman gerðum við tvö lög. Það var skemmtileg upplifun enda eru þeir klárir í sínu fagi. Fyrsta lagið mitt má túlka á ýmsa vegu en það er það sem ég elska við tónlist, hvernig hver og einn getur túlkað hlutina út frá sínum upplifunum. Lagið fjallar á vissan hátt um það hvernig ég hef lært að segja skilið við gamla fjötra og fundið sátt í sjálfri mér.”

Ítarlegt viðtal við Karitas má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -