Miðvikudagur 6. desember, 2023
1.1 C
Reykjavik

Hollráð úr eldhúsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hér koma nokkur góð ráð varðandi eldamennsku og þrif.

 

Geymsla á ávöxtum og grænmeti

Sumir geyma allt grænmeti og alla ávexti í ísskápnum en það er ekki ráðlegt. Mun sniðugra er að geyma t.d. banana og tómata á eldhúsborðinu við stofuhita, þeim líður best í um tíu stiga hita. Mangó og avókadó eru líka dæmi um ávexti sem vaxa á hlýjum slóðum og ættu ekki að vera í kulda.

Illa lyktandi bretti

Lauklykt á það til að setjast í skurðarbretti. Best er að nota sérstakt bretti fyrir lauk og hvítlauk en annars má skera sítrónu í tvennt og nudda helmingunum ofan í bretti sem lyktar illa og láta það svo liggja yfir nótt í vaskinum. Skolið brettið að morgni og þá ætti lyktin að vera farin.

Sítrónur eyða vondri lykt.

Örbylgjuofninn þrifinn

- Auglýsing -

Ekki gleyma að þrífa örbylgjuofninn. Gott er að setja sítrónusneiðar í vatn og stilla á háan hita í nokkrar mínútur. Strjúka svo með rökum klút eftir veggjum ofnsins og eftir situr bara góð og fersk lykt.

Nýtið það sem til fellur

Þegar kartöflur eru skrældar fellur til heilmikið hýði sem er algjör óþarfi að henda í ruslið. Prófið að velta því upp úr ólífu- eða sólblómaolíu, salti og góðu kryddi og grilla það svo í ofni í um hálfa klukkustund á háum hita. Úr verður mjög gott og óvenjuhollt snakk. Þegar kjöt er steikt á pönnu eða í ofnskúffu er svo tilvalið að bæta smá vatni saman við vökvann sem rennur af því, hella því í pott með sósukrafti og meira vatni auk rjóma og sósujafnara og þá er komin úrvalssósa út á kjötið.

- Auglýsing -

Burt með kekkina

Ef sósan er kekkjótt hefur hún sennilega verið hrærð við of háan hita eða að ekki hafi verið hrært nóg í henni á meðan hún var að hitna. Ef kekkir koma er gott að nota pískara og þeyta sósuna vel eða hreinlega setja hana í blandara í nokkrar sekúndur. Sumir nota bara sigti en þá er hætta á að kekkirnir festist í möskvunum og stífli rennslið. Ef sósa (eða súpa) er síðan geymd í ísskáp og hvít skán kemur ofan á hana, er hún samt ekki ónýt! Fitan hefur bara farið upp á yfirborðið og þar sem um harða fitu er að ræða þá skilur hún sig frá öðrum vökva og harðnar. Skafið skánina bara af og hitið sósuna eða súpuna eins og venjulega.

Skælt við skurðinn

Kannast þú við að vera útgrátin(n) þegar gestir mæta í matarboð eftir átakamikla baráttu við laukinn? Skemmtilega lausnin er auðvitað að nota sund- eða skíðagleraugu til að verja sig gegn þessum skaðvaldi og best er að gera það þegar gestirnir eru mættir, þá er komið fínasta skemmtiatriði! Annars má skera laukinn í tvennt og skola sárin með köldu vatni því uppgufunin af lauknum verður aðallega þar. Best er að vera fljótur að skera og nota beittan hníf en svo eru til sérstök laukskurðarbox þar sem lauknum er stungið ofan í boxið og svo er hann saxaður í lokuðu ílátinu.

Brauð í púðursykurinn

Stundum virka gömlu húsráðin best! Ef púðursykurinn er harður þarf bara að setja brauðsneið í krukkuna. Púðursykurinn dregur í sig rakann úr brauðinu og gerir sykurinn mjúkan og fínan aftur.

Illa lyktandi ísskápur?

Ef ísskápurinn lyktar illa er það álíka sóðalegt og óaðlaðandi og gamlar matarleyfar í vaskinum; svo er ekkert girnilegt að borða mat úr ísskáp með óþef. Ef hann lyktar er gott ráð að setja edik í skál og láta hana standa í ísskápnum yfir nótt.

Blettina úr bollunum

Til að ná brúnum blettum eftir te eða kaffi úr bollum má láta þá liggja í klór yfir nótt. Gott hefur líka reynst að skrúbba þá upp úr óblönduðum matarsóda.

Matarsódi getur komið sér vel í þrifum.

Óhreint burstað stál

Það getur verið erfitt að þrífa burstað stál en best er að nota klút sem búið er að bleyta með sódavatni eða óhreinsuðu ediki og strjúka yfir það. Best er að strjúka í sömu átt og stálið „liggur“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -