Hönnuðurinn sem elskar konur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Valentino er frægur fyrir glæsikjóla sína en ekki síður fyrir að vera sá fatahönnuður sem metur kvenleg form.

Valentino Garavani þráði það heitast af öllu þegar hann var barn að klæða fegurstu konur heims í falleg föt. Hann óx upp og draumurinn rættist. Valentino er frægur fyrir glæsikjóla sína en ekki síður fyrir að vera sá fatahönnuður sem metur kvenleg form og hannar með þau í huga.

Valentino með Gwyneth Paltrow en þau eru góðir vinir.

Í gegnum tíðina eignaðist hann vináttu margra glæsikvenna. Það nægir að telja upp nöfn eins og Audrey Hepburn, Elizabeth Taylor, Jacqueline Kennedy, Jennifer Aniston, Gwyneth Paltrow og Elizabeth Hurley en fyrir allar þessar konur skóp hann glæsikjóla sem þær skörtuðu á rauða dreglinum. Ritstjórar tískutímarita hafa enda oft lýst því yfir að sú sem klæðist Valentino á Golden Globe, Óskarnum eða öðrum stórum Hollywood-samkomum lendi aldrei á lista yfir þær verst klæddu.

Hann er ekki hvað síst þekktur fyrir hárauðan lit sem á síðum tískublaðanna er gjarnan kallaður Valentino-rauður. Kjólarnir eru einnig iðulega dásamlega skreyttir útsaumi, pallíettum, perlum og öðrum fíneríi sem auðvitað er handsaumað á. Valentino er rómatískur og það endurspegla fötin hans sannarlega. Hann kunni einnig að meta glæsileg módel og meðal þeirra sem fengu fyrst að njóta sín á sýningarpöllunum hjá honum voru Naomi Campbell, Claudia Schiffer og Eva Herzigova. Þær héldu allar tryggð við hann allan starfsferil sinn og gengu á síðustu sýningu hans árið 2007 í Musée Rodin in Paris.

Valentino Clemente Ludovico Garavani fæddist 11. maí árið 1932 í Voghera í Lombardi-héraði á Ítalíu. Hann hóf ungur störf í tískuiðnaðnum og lærði af ýmsum hönnuðum sem unnu í nágrenninu en þar á meðal var frænka hans Rosa. Hann hóf formlega menntun í École des Beaux-Arts og Chambre Syndicale de la Couture Parisienne á sjötta áratugnum.

Hér gefur að líta brot af því úrvali glæsikjóla sem Valentino hefur hannað. Í miðjunni sést leikkonan Kate Bosworth í einstaklega fallegum Valentino-kjól.

Hann hélt aftur heim til Ítalíu árið 1959 og á göngu eftir Via Veneto ári síðar hitti hann Giancarlo Giammetti. Eftir það voru þeir óaðskiljanlegir og arkitektinn Giancarlo aðstoðaði mann sinn oftar en ekki við störf sín. Valentino fékk Neiman Marcus-tískuverðlaunin árið 1967. Hann og Giancarlo ráku fyrirtæki sitt allt til ársins 1998 þegar þeir seldu það fyrir um það bil 300 milljónir dollara. Síðan hafa þeir ferðast um heiminn milli þess sem þeir hvíla sig á einu af fimm heimilum sínum sem staðsett eru í jafnmörgum löndum eða sigla um á snekkju sinni.

Aðalmynd: Valentino með Anne Hathaway en hún er mikill aðdáandi hans og klæðist gjarnan kjólum hans þegar hún mætir á stóra viðburði.
Texti / Steingerður Steinarsdóttir

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira