Hormónaskortur og andleg vandamál

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Undanfarna áratugi hefur svokölluð hormóna- eða boðefnatæming vakið athygli vísindamanna og þeir kannað áhrif þessa á andlega líðan fólks. Í hættulegum aðstæðum eða við hræðileg áföll dæla innkirtlar líkamans hormónum út í blóðið til að hjálpa fólki að bregðast við og bjarga lífi sínu. Eftir á skapast ástand er kallast tæming. Svo mikið af boðefnum hafa verið framleidd að ekkert er eftir.

 

Afleiðingarnar eru mikil þreyta, depurð og vanlíðan. Það tekur langan tíma að vinna úr líkamlega þættinum ekki síður en hinum andlega. Einfaldasta dæmi um þetta er svokölluð „hangover blues“ eða timburmannadeyfð. Allir kannast við hafa drukkið einum eða tveimur drykkjum of mikið kvöldinu áður og finna fyrir leiða og eftirsjá daginn eftir. Tilfinningin situr stundum í mönnum í tvo til þrjá daga þrátt fyrir að þeir hafi litla eða enga ástæðu til að finna fyrir iðrun. Ástæða þessa er að áfengi örvar framleiðslu vellíðunarboðefna líkamans og ef farið er yfir strikið hafa menn tæmt kirtlana og þeir þurfa einfaldlega tíma til að ná sér.

Áfallastreituröskun er einnig skýrð að stórum hluta vegna þessa. Adrenalínflæði fer af stað í hættulegum aðstæðum og vegna viðvarandi ótta. Hið sama gildir um streituhormónið kortisól og einnig ýmis vellíðunarboðefni sem deyfa sársauka. Það er leið líkamans til að hjálpa fólki að takast á við hið óyfirstíganlega. Við höfum öll heyrt sögur af manneskjum sem öðlast nánast ofurmannlegan styrk, hermenn sem bera særða félaga langar leiðir, menn og konur sem lyfta ótrúlega þungum hlutum ofan af ástvinum sínum, litlar manneskjur sem brjótast út úr sökkvandi bílum eða synda langar leiðir til að bjarga sér frá drukknun og fólk sem stekkur á flótta frá mun stærri og sterkari manneskju eða hópi sem gerir sig líklegan til að ráðast á það. Sögurnar eru óteljandi en afleiðingarnar eru alltaf þær sömu.

Áfallastreita 

Í kjölfar ofbeldisárása eða annarra alvarlegra áfalla er auðvelt að þróa með sér áfallastreitu. Langvarandi óttaástand veldur tæmingu margvíslegra boðefna og það hefur bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar. Ekki er óalgengt að fólk finni fyrir verkjum í liðum, mikilli þreytu, depurð og kvíða. Sumir fá endurlit og upplifa aftur sömu tilfinningar og þá. Nýjar rannsóknir sýna að stór áföll og óttaviðbrögð er vara lengur en nokkrar mínútur valda sömu einkennum í dýrum og mönnum. Innspýting adrenalíns inn í taugakerfið veldur stundum líkamlegu magnleysi. Þetta er ástæða þess að svo margir frjósa þegar þeir verða fyrir alvarlegri árás eða áreiti.

Langvarandi óttaástand veldur tæmingu margvíslegra boðefna og það hefur bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar.

Í sumum tilfellum er fyrsta viðbragð manna að verja sig eða leggja á flótta. Þá kemur magnleysið eftir á. Tilfinningaleysi og minnkuð hæfni til að finna sársauka fylgir. Þarna er náttúran miskunnsöm og hjálpar einstaklingum að komast í gegnum alvarleg áföll. Eftir á koma hins vegar eðlilegar tilfinningar til baka og þá getur verið erfitt að takast á við líkamlega verki um leið sálrænar kvalir. Stundum varir þetta ástand lengi og manneskjur lýsa óskiljanlegri ró er kemur yfir þær í skelfilegum aðstæðum. Þær finna fyrir nánast ofurmannlegri hæfni til að einbeita sér og fá skýra yfirsýn yfir hlutina, vita eins og af eðlishvöt hvað eigi að gera næst og hvernig. Þegar streitan hættir að framkalla boðefnaflæðið fylgir oft ofurnæmi á allar aðstæður, erfiðleikar með að einbeita sér, skammtímaminni raskast og hæfni til að sefa sjálfan sig. Það veldur því að fólk á erfitt með að slaka á og hvílast þótt það sé þreytt og hvíldarþurfi.

Í kjölfar ofbeldisárása eða annarra alvarlegra áfalla er auðvelt að þróa með sér áfallastreitu.

Þessi aukna þekking á líkamlegum viðbrögðum við áföllum og afleiðingum þeirra geta í framtíðinni ekki bara hjálpað heilbrigðisstarfsfólki að bregðast við vanda fólks með áfallastreitu heldur einnig aflað nýrra sönnunargagna fyrir rétti. Með því að mæla stöðu margvíslegra streitutengdra hormóna er mögulegt að sýna fram á að þessi einstaklingur hafi vissulega orðið fyrir alvarlegu áfalli og talið sig í lífshættu. Sé þetta gert skömmu eftir atburðinn færði það sönnur á upplifun hans og gerandi gæti þess vegna ekki haldið fram að allt sem fór fram hafi verið með fullu samþykki og engu ofbeldi beitt. Að sama skapi er svo mögulegt að hægt sé að þróa lyf eða meðferðarleiðir sem bæta mönnum upp skortinn á boðefnum og þá verði hægt að draga úr einkennum áfallastreitu og koma í veg fyrir langtímaáhrif hennar á líf fólks. En hingað til hefur verið erfitt að lækna áfallastreitu og manneskjur glímt við líkamlega kvilla oft árum saman og alvarleg andleg vandamál.

Fæðingarþunglyndi og prógesterón

Nú er komið í ljós að boðefnatæming hefur áhrif á mun fleira en áður var haldið. Til dæmis er fæðingarþunglyndi afleiðing af langvarandi hormónabreytingum á meðgöngu. Nýjar rannsóknir sína að prógesterón og kortisól eru í mun meira magni í munnvatni kvenna sem þjást af fæðingarþunglyndi en hinna. Sérstaklega átti þetta við þegar prógesterón var mjög hátt síðustu daga fyrir fæðingu. Talið er að um 30% nýbakaðra mæðra þjáist að deyfð í allt að tíu daga eftir að þær fæða. Hjá ákveðnum hópi þróast þetta yfir í alvarlegri depurð og jafnvel þunglyndi.

Margt bendir til að tæming eða fall í prógesterónframleiðslu eftir að barnið kemur í heiminn sé um að kenna. Vegna þess að meira magn en alla jafna var sent út dagana áður. Nú velta menn fyrir sér hvort hugsanlega sé hægt að vinna gegn fæðingarþunglyndi og hjálpa mæðrum með því að gefa þeim prógesterón.

Skjaldkirtillinn og skapsveiflurnar

Skjaldkirtilsvandamál eru sífellt að verða algengari á Vesturlöndum og margir vilja kenna um minnkandi neyslu á sjávarfangi og þar með joði. Vanvirkni í kirtlinum er tíðari en ofvirkni og aðallega meðal kvenna. Meðal afleiðinga eru aukin þreytutilfinning, doði, andleg vanlíðan, liðverkir og einbeitingarskortur. Ofvirkni eykur hins vegar brennslu, liðverki, skapsveiflur verða miklar og svefntruflanir. Þetta getur leitt til vandmála er minna á ADHD. Einstaklingur sveiflast frá að vera orkumikill og ánægður yfir í algjöra örmögnun og depurð. Þeir sem glíma við vanvirkni tala hins vegar um tilfinningadoða, finna hvorki fyrir gleði né hugarvíli. Þeir fari í gegnum daginn í einhvers konar þoku og fátt nái að snerta við þeim. Einbeitingarskortur og erfiðleikar með að halda athygli nægilega lengi til að klára flókin verkefni eru sameiginleg einkenni beggja sjúkdómanna.

Í flestum tilfellum er hægt að laga ástandið með því að gefa fólki skjaldkirtilshormón í réttu magni. Stundum tekur einhvern tíma að finna út hver hann er en mataræði getur hjálpað og selen, sink og joð eru góð næringarefni að neyta sé kirtillinn vanvirkur. Þau er að finna í hnetum, nauta-, kjúklinga- og sojakjöti og fiski. Að auki eru margvíslegir ávextir og grænmeti æskileg. Þjáist menn af ofvirkni í skjaldkirtli ættu menn hins vegar að forðast sojabaunir og sojakjöt en auka trefjaneyslu.

Þekking á gildi og hlutverki boðefna í líkamanum hefur verið að byggjast upp og ljóst er að enn er langt í land með að menn skilji fyllilega mikilvægi þeirra. Hvernig síðan verður svo hægt að bregðast við til að hjálpa fólki til að ná aftur jafnvægi er sömuleiðis ókannað og þótt mörg lyf hafi litið dagsins ljós til að bæta mönnum upp hormónaskort, insúlín, skjaldkirtilslyf og töflur til að draga úr einkennum á breytingaskeiði kvenna, vantar víðtækari tegundir lyfja sem taka á öðrum vandamálum. Framtíðin mun skera úr um hvert þessi þekking leiðir en áhugaverð er hún.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira