2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hugsaðu vel um húðina

  Að mörgu þarf að huga þegar snyrtivörur eru valdar.

  Það er líka tilvalið að skella sér í gott andlitsbað.

  Hver og einn verður að vita hvernig húðgerð hans er og velja í samræmi við það. Til dæmis þurfa þeir sem eru með þurra húð snyrtivörur sem gefa raka og þeir sem hafa feita húð mega ekki velja vörur með mikilli fitu. Einnig þarf að taka tillit til utanaðkomandi áhrifa eins og mengunar, reykinga, kulda, hita, mataræðis og fleira. Hér á eftir fara nokkrar gagnlegar ábendingar um húðumhirðu.

  Drekktu vatn
  Eftir áramót erum við flest uppfull af áformum um betri lífsstíl og ætlum svo sannarlega að hreinsa til í lífi okkar. Við reynum að fara að hreyfa okkur og laga mataræðið. Þá er mjög mikilvægt þegar litið er til húðumhirðu að drekka mikið af vatni. Gott er að minnka sæta drykki eins og gosdrykki. Forfallnir gosfíklar ættu að reyna að skipta gosinu út fyrir sódavatn.

  Húðumhirða fyrir karlmenn
  Karlmenn eru með öðruvísi húð en konur að því leyti að þeir eru með grófan hárvöxt í andlitinu og hársekki sem geta sýkst. Þeir raka sig flestir daglega eða annan hvern dag og það þurrkar húðina. Þurrkurinn eykur líkurnar á að hársekkirnir stíflist og leið hársins upp á yfirborðið. Stundum fá menn því inngróin hár og bólur myndast í andliti þeirra eftir rakstur.

  AUGLÝSING


  Gott er að nota rakagefandi krem eftir rakstur og alls ekki setja rakspíra á húðina strax því þá er húðin opin og viðkvæm. Til eru ýmiss konar rakakrem og snyrtivörur fyrir karlmenn sem henta vel eftir rakstur. Einnig eru til serum, augnkrem, maskar og kornakrem sem ætluð eru fyrir karlmenn og óhætt að hvetja þá til að hugsa um húðina.

  Húðin hreinsuð fyrir ræktina
  Áður en haldið er í ræktina er mjög gott að hreinsa húðina og taka af allan andlitsfarða því við átak opnast svitaholurnar og þá ekki gott að farði sitji ofan á þeim. Hægt er að fá ýmiss konar froðu eða mildar húðsápur í umbúðum sem henta vel í íþróttatöskuna, einnig andlitsvatn sem hægt er að setja í bómull og strjúka yfir húðina áður en farið er að hamast.

  Reykingar flýta fyrir öldrum húðarinnar.

  Reykingar
  Reykingar setja líka sitt mark á húðina með því að flýta fyrir öldrun hennar og oftast koma svipbrigðalínur og hrukkur í kringum munnvik, augu og munn mun fyrr hjá þeim sem reykja en þeim sem reykja ekki. Einnig verður húðin í andliti reykingamanna oft grárri og glærari en hjá hinum. Sígarettur eru auk þess fullar af eiturefnum sem hafa slæm áhrif á húðina og alla okkar líkamsstarfsemi.

  Mengun og utanaðkomandi áhrif
  Borgarbúar búa ekki við fullkomin loftgæði. Mengun á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mikið og svifryk liggur stundum yfir borginni í dökkum skýjum en það hefur mikil áhrif á húðina. Þess vegna er mikilvægt fyrir borgarbúa að huga sérstaklega vel að hreinsun og umhirðu húðar og þegar mikið svifryk er yfir borginni ætti að verja húðina með góðum kremum. Kulda- og hitabreytingar hafa líka sín áhrif en í miklum kulda er mikilvægt að nota góð rakakrem sem verja húðina fyrir frosti og ekki nota hreinsivörur sem þurrka húðina. Góð kuldakrem sem innihalda sink mynda verndarfilmu yfir húðina.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is