„Hugur minn stoppar aldrei“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hulda Hákonardóttir, jógakennari hjá Sólum jógastöð, er með puttann á púlsinum hvað umræðu um ofþreytu, streitu og kulnun varðar. Hún þekkir sjálf gildi þess að hvílast og segir að ofurkonur klessi alltaf fyrr eða síðar á vegg. Nýlega dró hún verulega úr vinnuálagi og er nú nær því en nokkru sinni fyrr að finna hið gullna jafnvægi milli vinnu, áhugamála og einkalífs. Það má margt læra af Huldu og viðhorfum hennar til lífsins.

 

Hulda kennir jóga í vinsælum tímum hjá Sólum. En hver er bakgrunnur hennar og menntun? „Ég hef verið í verslunarrekstri frá því að ég var rúmlega tvítug að aldri,“ segir hún. „Það má því segja að ég hafi lifað og hrærst í þeim heimi í yfir tuttugu ár. Ég er ferðamálafræðingur að mennt og hélt að köllun mín frá unglingsaldri væri að ferðast um heiminn og kunna yfir tuttugu tungumál þegar ég yrði nægilega stór til þess.

Lífið fer nú oft á annan veg og lengst af var ég í sölu og rekstri enda búin að vera í þeim bransa ansi lengi og hef fylgst vel með öllu því sem fylgir þeim heimi. Síðasta haust ákvað ég að skrá mig í MBA-nám við Háskóla Íslands og sé aldeilis ekki eftir því. Það er aldrei of seint að mennta sig og eftir því sem ég hef þroskast og lært að meta lífið með öllu því sem fylgir læt ég æ færra stoppa mig. Með aldrinum hef ég náð að njóta alls svo miklu betur.“

Með athyglisbrest og ofvirkni

Hulda hefur lengi stundað jóga og kennir auk þess öðrum að nýta sér þá hreyfingu og slökun. Hvað kveikti áhuga þinn á jóga? „Ég fór í fyrsta skipti í jóga hjá Guðjóni Bergmann og það var svona fullrólegt fyrir mig en hins vegar ansi eftirminnilegt þar sem ég fór með manninum mínum og hann er líklega stirðasti maður sem fæðst hefur og ég endaði með að skella upp úr í miðjum tíma. Það var ekki alveg málið. Fannst þetta samt áhugavert en líklega hef ég bara verið aðeins of ung.

Ég átti börnin mín fjögur á fjórum árum og þegar ég hugsa til baka þá var það dásamlegur en einnig ansi kröfuharður tími. Ég þurfti að finna einhverja hugarró, eitthvað sem ég vissi að myndi styrkja mig andlega og líkamlega. Hugur minn stoppar nefnilega aldrei, ég er greind með athyglisbrest og ofvirkni og hef þar að leiðandi mjög mikla orku, get vaðið úr einu í annað. Ég hef alla tíð verið mikið í íþróttum og stundað sund allt frá barnsaldri. Fyrir ellefu árum fór ég svo að stunda hot-jóga, það byrjaði allt saman í tímum hjá Lönu Vogestad. Hún er bandarísk og hefur komið hingað til lands reglulega, algjörlega dásamleg. Ég heillaðist strax og hugur minn var heltekinn, ég fann hvað þetta gerði mér gott og var hjálplegt fyrir manneskju með mína greiningu. Ég gjörsamlega heillaðist af jógafræðunum og þeirri tilfinningu sem ég upplifði í tímanum og eftir hann.

„Ég átti börnin mín fjögur á fjórum árum og þegar ég hugsa til baka að þá var það dásamlegur en einnig ansi kröfuharður tími.“

Heilsa mín hefur einnig alla tíð skipt mig miklu máli og það átt hug minn að finna leiðir til að hugsa vel um hana. Ég hef alltaf þurft að hafa gríðarlega mikið að gera, kannski of mikið og þar af leiðandi hugsanlega ekki náð að sinna neinu eins almennilega og ég vil. Núna er ég að venjast því að vera heima í stað þess að þurfa að rjúka í vinnu eldsnemma alla daga og koma ekki til baka fyrr en klukkan sjö öll kvöld. Þetta er skrítið en eitthvað sem ég þarf rosalega mikið á að halda.“

Ætlaði aldrei að kenna

Hvenær fórstu að kenna jóga? „Fyrir þremur árum kom jógakennarinn Jimmy Barkan frá Bandaríkjunum til landsins og bauð upp á kennaranám í jóga,“ segir Hulda. „Hann kenndi það í Sólum jógastöð. Hann er einmitt sami kennari og Lana hafði lært hjá. Ég lærði hjá honum Barkan method hot-jóga og sé ekki eftir því. Ég var staðráðin í að fara aldrei að kenna, ætlaði bara að gera þetta fyrir mig en var fljót að skipta um skoðun þegar ég fann hvað kennslan var gefandi, í raun meira en að fara sjálf í tíma. Að kenna í Sólum er ómetanlegt, stöðin er einskonar griðastaður fyrir alla jógaunnendur þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  Ég endurmenntaði mig í fræðunum og fór aftur út ásamt hóp til Jimmy núna í sumar. Þú ert aldrei fullmenntaður kennari í jóga, það er endalaust hægt að bæta við sig sem gerir starfið enn meira spennandi og gefandi. Ég bætti við mig meiri þekkingu í hugleiðslu og Kriya-jóga sem er töluverð andstæða við það sem ég hef kennt áður en þar er meira verið að nota öndun og handahreyfingar í þeim stöðum sem verið er að taka.“

„Það er vísindalega sannað að hreyfing, hversu lítil sem hún er, hefur jákvæð áhrif á hug og sál. Svo er svefn einnig alveg gífurlega mikilvægur,“ segir Hulda.

Allir vita að jóga eykur liðleika og gefur styrk. Sumir telja það bestu líkamsrækt í heimi. Hvers vegna er jóga svona góð líkamsrækt að þínu mati? „Jógafræðin eru yfir 6000 ára gömul og hugmyndafræðin á bak við nafnið „jóga“ er að tengja eða binda, finna hugarró, tengingu fólks við sjálft sig og hvert annað, tengingu við alheiminn og við Guð. Mjög margar gerðir eru til af jóga og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég kenni hot-jóga og einnig grunnjóga. Hot-jóga á sinn uppruna í hatha-jóga sem er meiri líkamleg áreynsla þar sem er verið að vekja orku líkamans með líkamsstöðunum og öndunaræfingunum. Líkaminn er notaður til þess að fullkomna orkuna. Þessi tegund jóga, hatha-jóga er frekar nýleg í jógaheiminum eða um 1000 ára gömul.

Sú tegund sem ég kenni er þróuð af indverskum manni, Bishnu Gosh. Hann var mikill íþróttamaður, stundaði glímu og lyftingar og þróaði þennan stíl af jógastöðum til þess að heila, styrkja og endurræsa líkamann, ef svo má að orði komast. Upphaflega kemur jóga frá Indlandi, mjög heitu landi og við kennum því suma tíma í heitum sal. Að vera í heitum sal hentar mörgum gríðarlega vel, þar sem hver og einn nær góðri líkamlegri æfingu út úr tímanum ásamt því að næra hugann. Einstaklingurinn kemur blóðflæðinu af stað út í öll líffæri og vöðva, eykur hjartslátt, örvar brennslu þannig að frumur endurnýjast og orkuflæðið eykst. Líkaminn losar sig við óþarfa efni út úr líkamanum með svita. Hitinn hefur einnig þau áhrif að þú nærð að einbeita þér að núinu, vera hér og nú. Þú gjörsamlega endurnærir huga, líkama og sál. En í grunninn snýst jóga um innri tengingu, þar sem líkaminn og hugurinn finna frið og innri ró.“

Aldrei að gleyma sjálfum sér

Kulnun er mikið í umræðunni í dag og þú hefur kynnt þér einkenni hennar. Hvað ráðleggur þú fólki að gera til að forðast að streitan taki öll völd? „Aðalmálið er að gleyma aldrei sjálfum sér,“ segir Hulda ákveðin. „Gefa sér einhverja stund á hverjum degi til þess að endurnýja orkuna, komast í núvitund þar sem athyglinni er beint að líðandi stund án þess að dæma, vera með opinn hug gagnvart öllum þeim tilfinningum sem koma og taka á móti þeim með vinsemd og friði. Hugleiðsla er góð leið til þess að slaka á og endurnærast. Og svo auðvitað jóga.

Í nútímasamfélagi er mikill hraði og ætlast er til mikils af öllum í vinnu og líka í einkalífi. Fólk vinnur mikið og gerir miklar kröfur til sjálf síns. Fullkomnunarárátta einkennir marga og ég held að það sé að einhverju leyti séríslenskt fyrirbæri, því á heilsan til með að gleymast en hún skiptir öllu máli. Hættulegt er að keyra sig út líkamlega og andlega, fólk einfaldlega brennur út á endanum og fær þá dæmigerða kulnun. Sumir koma aldrei fyllilega til baka aftur út á vinnumarkaðinn eða ná alveg fyrri hreysti. Margir vinnuveitendur og fyrirtæki eru sem betur fer farin að átta sig á vandamálinu og bjóða starfsmönnum upp á ýmsa kosti til að sporna við þessum mikla vanda. Í Finnlandi eru t.d. margir vinnustaðir sem slökkva á pósthólfi starfsmanna eftir vinnutíma og aðrar þjóðir fylgja eftir. Mörg fyrirtæki hérlendis bjóða upp á líkamsræktaraðstöðu fyrir sína starfsmenn sem er frábært fordæmi. Vinnustundir hérlendis eru líka oft of langar og það að stytta vinnutímann er frábær hugmynd því það er margsannað að fólk áorkar meiru ef athyglin er til staðar og hún getur aldrei verið til staðar í meira en 6-8 klukkustundir í einu.

Það er einnig gríðarlega mikilvægt að fólki líði vel á vinnustaðnum sínum, það getur ýtt undir vanlíðan og streituástand ef fólki líður illa. Þar eiga yfirmenn í fyrirtækjum að vera með lausnir og hafa vitneskju um hvernig er hægt að hafa vinnustaðinn þannig að öllum líði vel.

Mynd / Atli Freyr Júlíusson

Mér finnst þetta gríðarlega áhugavert og mikið umhugsunarefni, þessi staða sem margir lenda í á miðjum aldri. Mig langar t.d. að gera lokaverkefnið mitt í MBA-náminu um þetta efni og jafnvel horfa til kvenna með því hugarfari. Ég er sjálf fjörutíu og fjögurra ára og stend á vissum tímamótum með sjálfa mig og mér finnst ótrúlega margar konur í kringum mig upplifa einhverskonar tilfinningalega þreytu og vissa örmögnun á þessum aldri. Einhvern veginn klessa á vegg. Hvað það er sem veldur því og hvað er hægt að gera til þess að sporna við því er áhugaverð pæling sem mig langar að skoða miklu betur.“

Hver og einn þarf að finna sína leið

En hver eru helstu einkenni kulnunar og varnaðarmerki líkamans? „Helstu einkenni kulnunar eru síþreyta, gleymska, áhugaleysi, þunglyndi, erfiðleikar með svefn og skapbrestir,“ segir hún. „Fólk endar í tilfinningalegri örmögnun að öllu leyti. Þau verkefni sem fólk stendur frammi fyrir í daglegu lífi geta virst óyfirstíganleg. Ástandið verður vítahringur sem fólk nær sér ekki úr nema leita til sérfræðinga. Langvarandi álag á öllum vígstöðvum orsakar þessi einkenni því skiptir regluleg hreyfing og hugarró hjartans máli fyrir alla.“

Mælir þú með einhverju sérstöku verði fólk vart við slík einkenni hjá sjálfu sér?

„Hver og einn þarf að finna það sem hentar honum/henni og það getur verið mismunandi. Ég myndi náttúrlega alltaf mæla með jóga þar sem það er svo endurnærandi að öllu leyti. Einnig hefur jóga þann eiginleika að stöðurnar sem verið er að taka hafa allar tilgang, bæði andlega og líkamlega og það eru vissar stöður sem vinna betur á stressi og kvíða og hjálpa til við að núllstilla hugann. Að hugleiða, gefa sjálfum sér tíma á hverjum degi til þess að endurnæra hug og sál. Einnig er mikilvægt að hreyfa sig hvort sem það eru gönguferðir, skokk, hlaup, sund, að lyfta eða að hjóla. Hvað sem hentar hverjum.

Mynd / Hallur Karlsson

Það er vísindalega sannað að hreyfing, hversu lítil sem hún er hefur jákvæð áhrif á huga og sál. Svo er svefn einnig alveg gífurlega mikilvægur. Í gegnum tíðina hef ég yfirleitt sofið lítið, fimm til sex tíma og stærði mig af því … svona týpískt íslenskt fyrirbæri líka. Ég get allt; sef lítið, á fjögur börn, er í 100% vinnu … eins sorglegt og það er nú. Í dag hef ég t.d. reynt að tileinka mér að sofa helst sjö til átta tíma og að horfa ekki á sjónvarp eða vera í síma einn til tvo tíma fyrir svefninn. Ég var oft liggjandi fram eftir horfandi á einhverja þætti og svo heillengi að sofna eftir það. Í dag finnst mér einstaklega gott að setja gott podcast á eða hlusta á góða sögu fyrir svefninn. Og þarna er ég líka að reyna að sýna gott fordæmi fyrir börnin mín þar sem að heimurinn snýst oft ansi mikið um síma og iPada hjá þeim. Ég grínast stundum með það að ég sé að verða 100 ára, hlustandi á útvarpssögur eins og amma mín gerði. En það er bara staðreynd að með allar þessar tækniframfarir að þá er stundum gott að bakka aðeins.

Ef fólk lendir í kulnun þá getur það verið háalvarlegt mál. Og staðan er bara þannig í dag að þróunin er svo hröð að öllu leyti að ef fólk ætlar að fylgjast með þá finnst því það þurfa að vera alltaf með í öllu. Sem er í raun fáránlegt því að sjálfsögðu erum við alltaf samt bara manneskjur, sömu manneskjurnar í grunninn, þó að það komi nýr iPhone eða nýtt eitthvað. Við verðum ekki vélrænni þó að heimurinn sé að verða það tæknilega séð. Það sem við þurfum að muna er að við þurfum alltaf að hlúa að okkur, það gerir það nefnilega enginn annar betur en við sjálf,“ segir Hulda að lokum og sannarlega vert að huga vel að þessum boðskap.

Myndir / Hallur Karlsson og Atli Freyr Júlíusson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira