Hvað er til ráða við grindarverkjum á meðgöngu og eftir fæðingu?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Einkaþjálfarinn Sigrún María Hákonardóttir hefur sérhæft sig í meðgöngu- og mömmuþjálfun. Á næstunni ætlum við að fá hana til að svara nokkrum algengum spurningum sem snúa að þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu.

 

Sigrún segir algengt að konur finni fyrir grindarverkjum á meðgöngu og eftir fæðingu. Sigrún gefur hér góð ráð hvernig má draga úr verkjum.

Hvað er til ráða við grindarverkjum á meðgöngu og eftir fæðingu?

Konur geta fundið fyrir mismiklum grindarverkjum á meðgöngu og eftir fæðingu. Algengast er að konur finni fyrir lífbeinsverkjum eða verkjum hjá spjaldhrygg, annað hvort öðru megin eða báðu megin. Grindarverkir stafa af relaxin hormóni sem líkaminn framleiðir á meðgöngunni til þess að undirbúa hann fyrir fæðingu.

Þetta hormón getur haft áhrif í nokkrar vikur, jafnvel mánuði eftir fæðingu og geta konur því fundið fyrir grindarverkjum nokkrum vikum eða mánuðum eftir fæðingu. Sumar jafnvel í nokkur ár eftir fæðingu og er þá mikilvægt að leita ráða hjá t.d. sjúkraþjálfara sem hefur sérhæft sig í slíkri endurhæfingu.

Ef kona finnur fyrir grindarverkjum er skynsamlegast að draga úr ýmsum æfingum sem setja ójafnvægi á grindina, eins framstig/afturstig og uppstig. Einnig gæti hjálpað að fara ekki neðar en 90 gráður í hnébeygju og ef um lífbeinsverki er að ræða að sleppa æfingum sem reyna á innanverða lærisvöðva því slíkar æfingar geta leitt upp til lífbeins og gert verkina verri.

Þá er gott að hafa nokkra þætti í huga til þess að draga úr verkjum og það er að hafa mjaðmir alltaf í beinni línu, þannig ekki krossleggja fætur eða standa með þungann í öðrum fæti. Einnig að nýta rassvöðvana, styrkja þann vöðvahóp og vinna í því að halda tengingu við rassvöðvana og finna fyrir þeim vöðvahóp í æfingum.

Einnig getur hjálpað að taka styttri skref, sofa með kodda á milli fóta, rúlla innanverða lærisvöðva, rassvöðva og spjaldhrygg til að losa um spennu og nýta sér lyftur þegar þær eru í boði svo dæmi séu nefnd.

Fylgstu með í næstu viku á man.is, þá mun Sigrún svara annarri spurningu sem hún fær reglulega í tengslum við þjálfun á meðgöngu og þjálfun eftir fæðingu.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira