2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hvað gerist eftir að sambandinu lýkur?

  Karlar og konur bregðast mismunandi við ástarsorg. Því hefur verið haldið fram að karlar eigi erfiðara en konur eftir sambandslit og þeir vinni mun verr úr sínum málum en þær. Sumir telja það vera vegna þeirrar staðreyndar að konur fái fremur að sýna tilfinningar en karlarnir. Þær eigi líka auðveldara með að líta í eigin barm og reyna að þroskast af erfiðleikunum. Karlarnir leiti huggunar í öðrum samböndum eða flöskunni. Skoðum málið.

  Samkvæmt rannsóknum eru karlmenn mun líklegri en konur til að stofna til nýs sambands skömmu eftir að upp úr því fyrra slitnar. Svo virðist að karlmenn telji það eitt besta ráðið til að komast yfir sorgina að leita huggunar í örmum annarrar konu. Þetta er hins vegar tvíeggjað sverð því sambönd sem stofnað er til skömmu eftir skilnað endast í flestum tilfellum ekki og eru yfirleitt stormasöm. Saga Daníels ber vott um það.

  „Ástarsamband mitt og Stínu var mjög erfitt. Við slitum sambandinu margoft en tókum alltaf saman aftur. Ég var óskaplega ástfanginn af henni en ég held að hún hafi ekki verið eins hrifin, af mér a.m.k. hafði ég á tilfinningunni að allan tímann sem við vorum saman hefði hún verið að leita að einhverjum öðrum áhugaverðari. Eftir þrjú ár af „haltu mér, slepptu mér“ sambandi sleit hún því endanlega.“

  Komin í sambúð eftir fáeinar vikur

  „Þegar ég gerði mér grein fyrir að í þetta sinn ætlaði hún að halda þessu til streitu leið mér skelfilega. Ég gekk á eftir Stínu í nokkrar vikur en hún var alveg ákveðin í að gefa mér ekkert færi á að tala sig til. Ég hellti mér þá út í djammið og drakk frá mér vit og rænu nokkrar helgar í röð. Í eitt af þeim skiptum kynntist ég Hönnu og var fluttur inn til hennar örskömmu síðar. Ég var skotinn í Hönnu en get ekki sagt að ég hafi verið yfir mig ástfanginn. Ég ætlaði þó virkilega að reyna að láta sambandið ganga. Hanna átti stálpaðan dreng sem ekki tók mér vel og það skapaði óneitanlega togstreitu í samskiptum okkar.

  „Ég hellti mér þá út í djammið og drakk frá mér vit og rænu nokkrar helgar í röð.“

  AUGLÝSING


  Við reyndum þó heillengi að láta sambandið ganga en rúmu ári síðar gafst ég upp og flutti út. Ég var þá farinn að finna fyrir straumum milli mín og samstarfskonu minnar og ég vildi ekki standa í framhjáhaldi. Það samband byrjaði hins vegar mjög hægt því henni leist ekki alls kostar á gripinn í byrjun. Maður með tvö misheppnuð sambönd að baki á þetta stuttum tíma hljómar ekki traustvekjandi í eyrum skynsamrar konu. Hún vildi svigrúm og við gáfum okkur góðan tíma til að kynnast áður en nokkuð meira varð úr. Að þessu sinni er ég viss um að sambandið mun ganga upp. Ég viðurkenni þó að það var hún en ekki ég sem vildi taka því rólega.“

  Fannst hann niðurlægður og svikinn

  Sennilega hefði verið ákjósanlegra fyrir Daníel að gefa sér tíma til að jafna sig betur og átta sig á hvað það var sem hann raunverulega vildi. En hann er ekki einn um að vera tvístígandi.

  „Konan mín bað um skilnað fyrir nokkrum árum,“ segir Bjarni. „Hún sagði að sér fyndist ég yfirþyrmandi og stjórnsamur svona alla jafna og að þess á milli hunsaði ég hana. Mér fannst þetta mjög orðum aukið en var tilbúinn að reyna að bæta mig. Í hennar huga kom ekkert annað til greina en skilnaður. Seinna komst ég að því að hún hafði átt í sambandi við annan mann og hann flutti inn fljótlega eftir að ég flutti út.

  Mér leið skelfilega eftir að ég komst að framhjáhaldinu. Mér fannst ég niðurlægður og svikinn og það að hún gat ekki sagt sannleikann strax í upphafi gerði mig mjög reiðan. Í marga mánuði var ég ekki með sjálfum mér. Viðbrögð fólks í kringum mig voru ekki til að bæta líðan mína því mér fannst flestir ætlast til þess að ég tæki þessu létt. Menn sögðu: „Hún er ekki þess virði að syrgja hana. Taktu þér tak og rífðu þig upp úr þessu.“ En ég gat ekki rifið mig upp úr þessu, eins og menn orðuðu það svo smekklega. Ég hætti að geta sofið og á tímabili snerist allt um að fá einhverja skýringu á því sem hafði hent mig.“

  Falskur tónn í öllu sem gert var

  „Ég reyndi oft að tala við konuna mína fyrrverandi um þetta en samtölin enduðu ævinlega með rifrildi. Hún kenndi mér um allt saman og fullyrti meira að segja einu sinni að ég hefði hrakið hana í fangið á öðrum manni. Ég leið hreinlega vítiskvalir á þessum tíma. Ég átti erfitt með að einbeita mér, var gleyminn og utan við mig og þegar ég var með börnunum mínum fannst mér ég eins og ókunnugur maður gagnvart þeim. Ég vissi ekki hvernig ég átti að snúa mér í að byggja eitthvað upp að nýju. Ég drakk mikið þá og mikil óregla var á öllu líferni mínu.

  Það var erfitt að finna íbúð og setja saman heimili. Lengi var íbúðin bókstaflega nærri tóm. Ég hafði ekki löngun til að leita að húsgögnum eða hengja myndir upp á veggi. Í stofunni voru tveir gamlir stólar frá foreldrum mínum, í svefnherberginu rúm og eitt borð og fjórir stólar í eldhúsinu. Þar með var innbúið eiginlega upp talið.

  „Ég varð síðar að játa mig sigraðan því mér leið aldrei vel í sambandinu eftir þetta.“

  Samband konunnar minnar fyrrverandi við hinn manninn entist ekki mjög lengi og svo undarlega bar við að þegar hann hafði sagt henni upp vildi hún leita huggunar hjá mér. Ég féllst á að reyna aftur, enda trúði ég að ef maður bara reyndi nóg og ynni nóg í sínum málum væri allt hægt.

  Ég varð síðar að játa mig sigraðan því mér leið aldrei vel í sambandinu eftir þetta. Það var eitthvert óbragð í munninum á mér og mér fannst falskur hljómur í öllum okkar samskiptum. Ég flutti aftur að heiman tveimur árum síðar og síðan hef ég búið einn. Í dag lít ég svo á að ef einhver kona kæmi inn í líf mitt sem mér líkaði við og ég gæti hugsað mér að hefja sambúð með væri það gott en ef ekki er ég sáttur við að vera einn.“

  Of reiður til að hlusta á hana

  Bjarni og konan hans fyrrverandi reyndu aftur eins og reyndar þriðjungur allra para sem skilja gerir. Slíkt gengur sárasjaldan upp og oftast nær þurfa þeir sem reyna aftur eftir sambandsslit mikla hjálp og ráðgjöf. Í þeim tilfellum sem slíkt gengur án aðstoðar hefur parið oftast verið aðskilið í mjög stuttan tíma. Sú staðreynd að annar aðilinn hafnaði hinum er erfiður biti að kyngja fyrir hinn forsmáða. Einhver trúnaður hefur brostið og mikil viðkvæmni verður í öllum samskiptum.

  „Kærastan mín sagði mér upp eftir átján mánaða samband,“ segir Hinrik. „Hún gaf enga skýringu á því hvers vegna hún vildi slíta þessu, heldur tautaði bara eitthvað um að hún væri ekki hamingjusöm. Mjög fljótlega eftir að hún sagði mér upp hringdi hún og vildi ræða málin. Við settumst niður og þá hafði hún allt í einu heilmargar skýringar á reiðum höndum. Ástæðurnar voru hins vegar allar tengdar mér og því hversu ómögulegur ég var. Ég fann því fljótlega að ég var of sár og reiður til að kæra mig um að reyna að tjónka við hana og ég fór. Hún hefur hringt í mig nokkrum sinnum eftir þetta en ég hef ekki viljað svara henni. Ég sakna hennar oft en reiðin kraumar enn undir niðri.“

  „Ástæðurnar voru hins vegar allar tengdar mér og því hversu ómögulegur ég var.“

  „Samband mitt við konuna mína var frá upphafi stormasamt,“ segir Halldór. „Við rifumst heiftarlega út af ólíklegustu smáatriðum og oft var skellt hurðum á heimilinu. Fyrir nokkrum mánuðum sagðist konan mín vera orðin dauðþreytt á þessu ástandi og vilja skilnað. Ég reiddist og samþykkti eins og skot. Sama kvöld flutti ég út en ég var ekki búinn að vera lengi einn þegar ég fann að ég elskaði hana og vildi ekki eyða ævinni með nokkurri annarri konu. Ég hringdi strax í hana og við höfum nú leitað til ráðgjafa sem vonandi getur hjálpað okkur til að finna leiðir til að leysa málin án rifrildis.“

  „Sama kvöld flutti ég út en ég var ekki búinn að vera lengi einn þegar ég fann að ég elskaði hana og vildi ekki eyða ævinni með nokkurri annarri konu.“

  Ekkert er einhlítt í samskiptum fólks og engin ein lausn hentar öllum. Það virðist þó alveg ljóst að karlmenn taka sambandsslit ekki síður nærri sér en konur og þeir upplifa einnig mikla reiði og sorg. Kannski þarf að kenna öllum að þótt einstaklingur verði fyrir höfnun þýðir það ekki að viðkomandi sé einskis verður eða að líf hans sé eyðilagt til frambúðar.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is