Hvað rættist hjá völvu Vikunnar?

Eitt það skemmtilegasta við völvuspána er að skoða hana eftir á og velta fyrir sér hvað hafi ræst. Völva Vikunnar er fjarskyggn og stundum koma spádómar hennar fram heldur seinna. En rýnum í orð hennar frá síðasta ári.

Völvan talaði um ákveðinn ótta hvað fjármál varðaði og að staðan væri erfið hjá mörgum. Nú á haustdögum hefur mikið verið rætt um líf láglaunafólks og hversu illa er búið að öldruðum og öryrkjum í landinu. Þetta hefur ekki hvað síst komið upp í tengslum við komandi kjarasamninga.

Árið 2016 sá völvan þau Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktsson saman og varð því ekki hissa þegar þau mynduðu stjórn. Hún sá fyrir þá samheldni sem hefur ríkt innan stjórnarinnar og að meiri friður myndi ríkja innan þings en áður var og má til sanns vegar færa að minna hefur verið um hnútukast úr ræðustóli á Alþingi nú en var fyrir síðustu kosningar. Hún talaði hins vegar um að enn væru einhver þyngsli yfir Bjarna Benediktssyni.+

Nýlega féll dómur í Lögbannsmálinu svokallaða en bæði héraðsdómur og landsdómur felldu úr gildi lögbann Glitnis á birtingu Stundarinnar á fréttum unnum upp úr skjölum fyrirtækisins um viðskipti Bjarna Benedikssonar og fjölskyldu hans. Sú vofa er ekki enn fyllilega niður kveðin.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

AUGLÝSING


Erfið mál á borð heilbrigðisráðherra

Hún sá að Svandís Svavarsdóttir yrði að takast á við tvö mál sem yrðu henni mjög erfið. Hart var sótt að heilbrigðisráðherranum vegna viðvarandi álags á bráðamóttöku Landspítalans. Það mál var reglulega rifjað upp allt árið og nú síðast þegar birtar voru myndir af rúmlega níræðri konu er lá inni á klósetti vegna plássleysis.

Svandís svaraði þessu og benti á aukin framlög ríkistjórnarinnar til heilbrigðismála og sagði að verið væri að reyna að bæta ástandið. Án efa er þetta annað málið sem völvan vísar til. Hitt málið snerist um að nýir sérfræðilæknar kröfðust þess að fá aðild rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands og því var neitað. Upp frá því var hart sótt að heilbrigðisráðherra. Hún var sökuð um að vilja færa alla starfsemi sérfræðinga inn á göngudeildir eða heilsugæsluna og á það bent að það væri dýrara úrræði.

Auk þess var tíundað að biðlistar væru langir og læknar sem væru tilbúnir að sinna sjúklingum fengju ekki færi á því. Ráðherra svaraði fyrir málið í Kastljósi og kvaðst vilja gera breytingar á kerfinu öllu og bæta þjónustuna við sjúklinga.

Rifist um umdeilda byggingu

Hún sagði erfiða hluti koma upp hjá borginni er kölluðu á uppstokkanir frá gólfi og upp í loft og bæði braggamálið og málefni Orkuveitunnar skóku Ráðhúsið rækilega. Hún sá að rifist væri um umdeilda byggingu. Dagur hvarf af vettvangi um tíma eins og völvan sá fyrir og enn er ekki útséð um hvaða áhrif þessi mál munu hafa á stjórn borgarinnar.

Að sögn völvunnar þrengir að ýmsum iðnaði og sjávarútvegi. Nú í lok árs hafa verið fjöldauppsagnir hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og Útgerðarfélagi Reykjavíkur. Hún sá einnig fyrir að hægja myndi á ferðmannaiðnaðinum. Staða tölvuleikja fyrirtækisins CCP var tvísýn þegar völvan settist niður í fyrra en hún sá að það myndi rétta úr kútnum og í september bárust fregnir af því að fyrirtækið hefði verið selt til Suður-Kóreu en starfsemi þess yrði óbreytt hér á landi og ekki kæmi til neinna uppsagna.

Völvan talaði um mikinn vöxt og fólksfjölgun í nágrannabæjum Reykjavíkur og það hefur gengið eftir. Ungt fólk kýs að flytja þangað og kaupa ódýrara húsnæði en fæst á höfuðborgarsvæðinu.

Íslenskir leikarar gera það gott

Hún sá fyrir velgengni Ólafs Darra og Ingvars E. Sigurðssonar á erlendum vettvangi en báðir hafa leikið mikið í erlendum bíómyndum á þessu ári. Mikill kraftur birtist völvunni í kringum Heru Hilmarsdóttur en stúlkan sú var nýlega viðstödd frumsýningu stórmyndar sem hún lék aðalhlutverkið í. Völvan talaði einnig um að Þorvaldur Davíð færi í stórt verkefni utanlands en hann hefur söðlað um og er farinn í nám í Oxford.

Hjá Auði Jónsdóttur voru að sögn völvunnar breytingar og Auður að færast yfir á nýjan vettvang og í kringum Gerði Kristnýju voru jákvæðir straumar en báðar þessar konur voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Auður fyrir fræðibók en hún hefur hingað til skrifað skáldskap og þetta því nýtt hvað hana varðar.

Hin glöggskyggna völva sá líka velgengni í íslenskri kvikmyndagerð og mörg verkefni þar sem myndu ganga mjög vel. Benedikt Erlingsson hampaði kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs og margar íslenskar myndir hafa hlotið verðlaun á kvikmyndahátíðum erlendis.

Spáði nýjum hneykslismálum

Í kjölfar #Metoo sá hún aukinn kraft hjá konum. Ný hneykslismál kæmu upp bæði hér á landi og erlendis og konur hefðu frekar kjark nú til að standa upp og leita réttar síns en áður var. Mun minna umburðarlyndi væri fyrir ofbeldi en áður var. Það hefur sannarlega gengið eftir.

Hún reyndist sannspá hvað varðar gengi íslenska liðsins á HM í knattspyrnu því hún sagði að Íslendingar kæmust ekki upp úr riðlinum. Margt fleira úr spánni í fyrra var áhugavert en sumt tengist einkalífi þeirra sem um var rætt og ekki alltaf hægt að ganga úr skugga um að það sé rétt.

Nú tekur hins vegar við nýtt ár og gaman að fylgjast með spádómum völvunnar.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílísering / Hildur Friðriksdóttir
Módel / Auður Ragnarsdóttir frá Dóttir Management
Förðun / Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir með Urban Decay
Hár / Hrefna Rut Kjerúlf með Moroccan Oil

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is