Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Hvað var eftirminnilegast 2020? Þjóðþekktir Íslendingar gera upp árið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Grímur, bláir hanskar og spritt eru hlutir sem viðmælendur Vikunnar segjast ekki munu sakna þegar horft er um öxl og árið 2020 er rifjað upp. En hvað skyldi eiginlega hafa staðið upp úr á árinu sem er að líða?

||
Ævar Þór Benediktsson.

Gaf út fjórar bækur og frumsýndi nýtt leikverk

„Eftirminnilegast á árinu var auðvitað COVID og kosningarnar í Bandaríkjunum – en ef allt fer eftir áætlun eru það tveir atburðir sem við ættum ekki að þurfa að stressa okkur á árið 2021. Þjóðleikhúsið frumsýndi leikverk eftir mig í febrúar sem var mikil upplifun og auk þess gaf ég út fjórar bækur í bland við það að ég var með daglega upplestra á netinu þegar sem flestir voru í sóttkví.“

– Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur, leikari og rithöfundur.

Svanhildur Hólm Valsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Gerði hluti sem hún hélt að hún myndi aldrei gera

„Það er ýmislegt sem ég á eftir að minnast frá 2020. Fjartí og félagsfirð eru til dæmis orð sem ég vissi ekki um síðustu áramót að ég myndi nota ítrekað á þessu ári. Ég gerði líka hluti sem ég hélt að ég myndi aldrei gera, eins og að kaupa hlaupabretti í kjallarann. Það er mögulega afleiðing þess að hafa ekki passað í buxurnar sínar eftir fyrstu bylgju.

- Auglýsing -

Fólk með bláa hanska í búðinni, sprittlykt alls staðar, smitnoja og grímuskylda er eitthvað sem ég mun ekki sakna. Sérstaklega þetta síðastnefnda. Grímur flækja nefnilega lífið verulega hjá mjög ómannglöggu fólki eins og mér.

Annars er, held ég, ein eftirminnilegasta stundin að vera í Austurstrætinu í vor, klukkan tvö á laugardagskvöldi, í algjörri þögn og ekki hræða í bænum. Og svo að telja alltaf viðskiptavini á Kaffi Vest áður en maður stígur inn fyrir þröskuldinn. Og síðast en ekki síst skipti ég um vinnu. Það er óneitanlega dálítið eftirminnilegt.“

– Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

- Auglýsing -
Doktor Gunni. Mynd / Txell Bonet

Þeyttist um allt land til að grotna ekki niður

„Það eftirminnilegasta er að maður komst ekkert af skerinu, sem þó hefur verið árviss nauðsynleg aðgerð til að grotna ekki niður og komast aðeins úr eigin nafla. Í staðinn var þeyst um allt land, hringurinn, Vestfirðir, Þórsmörk. Ég fór í fyrsta skipti á ævinni í þyrlu en það var því miður stutt ferð, bara upp á Úlfarsfell. Svo má ég til með að minnast á opnun ísbúðarinnar Gaeta, en þar er undursamlega æðislegur ís á boðstólum.“

– Gunnar Lárus Hjálmarson, tónlistarmaður. A.k.a. Doktor Gunni.

||
Lilja Sigurðardóttir. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lét drauminn rætast

„Þetta ár hefur verið sérstakt hjá mér fyrir þær sakir að eftir nokkurra ára stöðug ferðalög um heiminn út af bókunum mínum hef ég verið heima hjá mér síðan í apríl út af COVID. Svo ég ákvað að láta drauminn rætast og fékk mér hænur og sé ekki eftir því. Ég hlæ að þeim á hverjum degi því þetta eru stórfyndin og mannelsk dýr og svo spillir ekki að fá glæný, lífræn hamingjuegg á borð. En það sem stendur upp úr á árinu er að konan mín varð langamma því elsta barnabarnið eignaðist litla stúlku, Adeline Brynju, sem nú er þriggja mánaða ofurkrútt sem gleður okkur innilega.“

– Lilja Sigurðardóttir rithöfundur.

Fagnaði sigri Liverpool á spítala

„Eftirminnilegast var að fylgjast með Liverpool hampa Englandsmeistaratitlinum, liggjandi á spítala í Kaupmannahöfn eftir botnlangauppskurð. Annað jákvætt var að Los Angeles Lakers vann NBA-deildina, en neikvætt að Diego Maradona dó.“

– Kjartan Guðmundsson kennari.

Sigurganga Hildar hápunktur ársins

Atli Fannar Bjarkason.

„Pínu skrýtið að það þurfi að velta fyrir sér hvað stóð upp úr á árinu enda kemur bara eitt til greina: Sigurganga Hildar Guðnadóttur. Hún mátti varla tölta rauða dregilinn á einhverri risaverðlaunahátíð án þess að yfirgefa svæðið með verðlaunastyttu í höndunum.

Hildur vann Óskar fyrir Jóker og Grammy fyrir Tjernóbíl. Í báðum tilvikum var tónlistin að sjálfstæðum karakter í verkinu, svo stórkostleg var hún. Tónlist Hildar teymdi Jókerinn áfram í stigvaxandi geðveikinni og gerði myndina miklu betri. Og í Tjérnóbíl kraumaði tónlistin undir niðri og studdi við þessa mögnuðu frásögn af hræðilegum viðburði.

Húrra fyrir Hildi! Þú færð mig ekki til að tala um kóvid í þessum dálki.“

– Atli Fannar Bjarkason samfélagsmiðlastóri RÚV.

Vigdís Hauksdóttir.

Átti eftirminnilega viku í sögulegri borg
„Eftirminnilegast á árinu var alveg mögnuð og skemmtileg vikuferð til Berlínar með góðu fólki. Ég mæli eindregið með þessari borg vegna sögu og arkitektúrs.“

– Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík.

 

Sjálfsagðir hlutir urðu að munaði

Tryggvi Gunnarsson. Mynd / Sunna Ben

„Ætli eftirminnilegast sé ekki það sem flest önnur ár teldist algjörlega óeftirtektavert. Eins og að knúsa fólkið mitt aftur eftir fyrstu bylgjuna. Ferðast milli landshluta án samviskubits. Hitta bræður mína í Bartónum og fá að syngja. Kynna menningarhefðina „að fara í heimsókn“ fyrir tveggja ára stráknum mínum. Allt hlutir sem fram til ársins 2020 þóttu sjálfsagðir en urðu að munaði í ár.

Ef ég ætti að tína eitthvað sérstaklega til er síðan tvennt sem stendur upp úr. Annars vegar að vera einn, aleinn á Þingvöllum. Og hins vegar að byrja aftur æfingar á næstu sýningu minni, Lokasýningunni, þar sem við þurftum að leita álits landlæknis hvort við einfaldlega mættum mæta eða værum orðin ólöglegir pólitískir listamenn, hundelt af yfirvöldum.“

– Tryggvi Gunnarsson, leikari og leikstjóri.

Gaman að geta glatt fólk

„Að flytja í fokhelda íbúð í byrjun árs og hvað það var kósí. Öll fjölskyldan í einu herbergi.

Að sjá þróun sóttvarnarráðstafana og hve samtaka þjóðin hefur verið.

Að sjá Þingspilið verða að veruleika og hve mikið fólk hlær þegar það spilar.“

– Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.

Jón Þór Ólafsson.

Stundirnar með fjölskyldu og vinum standa upp úr

Maríanna Clara Lúthersdóttir.

„Eftirminnilegast er auðvitað allt sem ég gerði ekki vegna COVID; húsaskipti í Frakklandi sem við fórum ekki í, öll matarboðin, afmælin, leiksýningarnar, tónleikarnir og fjölskylduboðin sem ég fór ekki í. Og fast á hæla þess fylgir allt sem ég gerði vegna COVID; sóttkví (í fullri vinnu með tveimur ungum börnum), púslin, legóið, spilin, heimabaksturinn (þó ekki súrdeigs), hanskar, grímur, spritt og tveir metrar.

En ef ég reyni (af veikum mætti) að líta fram hjá COVID er mér efst í huga langþráða gróðurhúsið okkar sem við fengum þó ekki í maí þegar það var keypt heldur í septemberlok – vegna – jújú – COVID. Ég hef því ekki gert mikið annað við það en skreyta það jólaseríum.

Svo þýddi ég mína fyrstu bók fyrir Angústúru bókaforlag – sem var mjög skemmtilegt og svo hóf ég störf sem dramatúrg (listrænn ráðunautur) við Borgarleikhúsið – sem er líka mjög skemmtilegt. Eftirminnilegastar eru þó bara hversdagslegar stundir með eiginmanni og börnunum mínum; dóttir mín að læra að standa á höndum, sonur minn og ég að lesa saman allar sjö Harry Potter-bækurnar, þegar við fórum á Snæfellsnes og sáum (því miður) ekki örn. Og stundirnar með vinum og fjölskyldu sem urðu þeim mun dýrmætari af því þær voru færri en ella.“

– Maríanna Clara Lúthersdóttir, leikkona, dramatúrg og þýðandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -