Hvaða grindarbotnsæfingar er hægt að gera?

Deila

- Auglýsing -

Meðgöngu- og mömmuþjálfarinn Sigrún María Hákonardóttir svarar hér einni algengri spurningu sem hún fær um þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu: Hvaða grindarbotnsæfingar er hægt að gera?

„Það er í raun hægt að gera grindarbotnsæfingar í flest öllum æfingum. Þegar unnið er með grindarbotnsvöðva er mikilvægt að hafa skilning á þessum vöðvahóp og að það sé verið að virkja og slaka á vöðvunum með jöfnum hætti þannig að það myndist ekki misspenntur grindarbotn. Síðan getur verið einstaklingsbundið hvort konur þurfa að æfa sig meira í að slaka á vöðvunum eða virkja þá. Konur sem æfa mikið eru gjarnari á að spenna grindarbotnsvöðvana og gætu því verið líklegri til þess að fá ofspenntan grindarbotn ef þær eru ekki að slaka markvisst á móti.

Gullna reglan sem ég kenni í þjálfun er að virkja vöðvana með því að telja upp á 5 og síðan slaka á þeim jafn lengi á móti. Ég kenni grindarbotnsæfingar með sérstakri öndunartækni þar sem vöðvarnir eru virkjaðir í útöndun og slakað er á þeim í innöndun. Ég fer mjög ítarlega í þessa öndun í fjarþjálfuninni sem ég er með í boði, á fræðslunámskeiðum og í einkatímum. Það er mikilvægt að það sé andað rétt og vöðvunum beitt rétt og því gott að leita til þjálfara eða sjúkraþjálfara sem hefur þekkingu á þessu og getur leiðbeint.Síðan er hægt að nota allskonar tæki/tól til þess að ná að vinna enn betur með grindarbotnsvöðvana, má þar nefna langa æfingateygju sem er í uppáhaldi hjá mér. Það borgar sig að læra inn á líkamann sinn og hvernig á virkja vöðvana rétt til að fyrirbyggja vandamál.

Í þessu samhengi vil ég taka fram að tilgangurinn með að virkja þennan vöðvahóp er m.a. til að fyrirbyggja þvagleka, hægðaleka og legsig. Þvagleki og hægðaleki getur verið eðlilegur fyrstu dagana eftir fæðingu en er ekki eðlilegur í æfingum eða mörgum vikum, mánuðum eða árum eftir fæðingu.

Ef það á sér stað er gott að leita ráða hjá lækni eða sjúkraþjálfara sem sérhæfir sig í slíku. Ef einhver æfing veldur þvagleka er það merki um að hún er ótímabær og að það þurfi að þjálfa grindarbotnsvöðvana betur.“

- Advertisement -

Athugasemdir