Hver er drengurinn Danny?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Líklega hafa flestir einhvern tíma tekð hraustlega undir í útilegum þegar byrjað er að glamra Oh Danny Boy á gítarinn. Þetta áleitna og sorglega lag passar ótrúlega vel við textann og allir sjá fyrir sér konu að kveðja heitelskaðan mann. Danny er kallaður burtu af pípunum og algjörlega óvíst að hann komi til baka. En svo kemur snúningur á fléttuna því þótt hann sé á leið út í heim er hún ekki viss um að lifa heimkomudaginn hans. Fari svo illa biður hún hann að vitja leiðis síns og veita kaldri gröfinni yl með ástarorðum.

Lagið er írskt og ber sterkan keim af þarlendum þjóðlögum og maður heldur að þarna sé um að ræða ungan Íra á leið í stríð við Breta en svo er ekki. Lagið varð til í bænum Limavady í Londonderry á Norður-Írlandi. Jane Ross sat inni í húsi sínu og heyrði þá fiðlara spila á götunni fyrir utan. Það var markaðsdagur og hann farandsali með einhverjar vörur til sölu og vakti athygli á sér með þessum fallegu tónum. Hún hljóp út til að spyrja hvort hún mætti ekki skrifa niður nóturnar til að senda þær til vinar síns George Petrie. Hann var þá farinn að safna írskum þjóðlögum líkt og séra Bjarni Þorsteinsson gerði með okkar hér.

Til að gera söguna ögn dramatískari var fiðlarinn blindur að sögn Jane. Henni láðist að fá nafn hans svo enginn veit meira um hvaðan hann kom eða hvert hann hélt eftir þetta. George skráði lagið undir heitinu In Londonderry Air og það var sungið við nokkra texta, meðal annars fallegt ástarljóð, Would God I were the tender apple blossom og tvo sálma.

Frægir söngvarar flutt sína útgáfu

Lagið barst hins vegar í hendur enska lögfræðingsins og lagasmiðsins Frederic Weatherly árið 1913. Sagan segir að Margaret, mágkona hans í Bandaríkjunum, hafi sent honum það. Hann hafði þá nýlega skrifað textann um drenginn Danny og viðskilnað hans við ástvinu sína. Þegar hann fór að spila lagið áttaði hann sig á því að það féll mun betur að textanum en hans tónlist. Frederic sendi lagið og textann til óperusöngkonunnar Elsie Griffin og hún flutti það á tónleikum. Síðan þá hafa ótal söngvarar og söngkonur spreytt sig á því og gefið út mismunandi vinsælar útgáfur. Nefna má Mahaliu Jackson, Judy Garland, Bing Crosby, Elvis Presley, Joan Baez og Sinead O‘Connor en þau hafa öll sett sinn svip á lagið.

Margir hafa viljað túlka textann sem boðskap gegn stríði og telja að hér sé móðir að kveðja son sinn eftir að hann hafi verið kvaddur í herinn. Hún er tekin að reskjast og það skýri hvers vegna hún er ekki viss um að lifa það að taka á móti honum. Hvort það var hugsunin hjá Frederic Weathly er ólíklegt því vitað er að hann lét fylgja nótunum útgáfu af textanum fyrir karla og þá var sungið um Elly Dear. Augljóst er að boðskapurinn er sár aðskilnaður og söknuður. En hvort pípurnar vísi til herútkalls er ómögulegt að segja. Vissulega voru sekkjarpípur notaðar til að kalla unga írska og skoska menn í stríð en Frederic var Englendingur.

„Margir hafa viljað túlka textann sem boðskap gegn stríði og telja að hér sé móðir að kveðja son sinn. Hún er tekin að reskjast og það skýri hvers vegna hún sé ekki viss um að lifa það að taka á móti honum.“

Hann hefur þess vegna verið mjög ólíklegur til að geta sett sig inn í hugarheim skoskra og írskra kvenna og ímynda sér líðan þeirra þegar þær sáu að baki manna sinna í stríð. Í hans huga voru þeir ungu menn nefnilega óvinir, enda bardagar Íra og Skota oftast gegn Englendingum. Pípurnar gætu verið útþráin sem svellur í brjósti ungs fólks eða einfaldlega bjöllurnar í námunum að kalla menn til vinnu. Textinn segir okkur að það sé haust og blómin öll að deyja og konan sem eftir situr virðist nokkuð viss um að Danny komi heim. Hann er meira að segja líklegur til að ganga niður í dalinn þegar rósirnar eru aftur teknar að blómstra. Geti hún ekki gengið á móti honum og sé horfin úr þessum heimi þarfnast hún þess engu að síður að mæta honum. Hún biður hann því lengstra orða að krjúpa þá á gröf sinni biðja fyrir sér og játa ást sína. Er ekki sagt að sönn ást teygi sig út yfir gröf og dauða?

Því miður getur enginn í dag gefið óyggjandi svör um hver sé höfundur þessa lags og hvað Frederic ætlaði sér með textanum. Hins vegar er staðreynd að lagið er einstaklega fallegt og textinn hefur lag á að smeygja sér inn í hjörtu áheyrenda og vekja samúð.

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Kardemommubærinn loksins frumsýndur-Leikarar hafa vaxið upp úr skóstærðum

Kardemommubærinn verður loks frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins á laugardag. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins hefur frumsýningu verið frestað...