Hvernig fæ ég barnið til að borða hollan mat?

Deila

- Auglýsing -

Margir foreldrar þekkja hversu erfitt getur reynst að fá sum börn til að borða venjulegan heimilismat. Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félagsráðgjafi hjá Félagsráðgjafanum ehf. í Garðabæ, hefur mörg góð ráð í pokahorninu varðandi þetta.

Í upphafi skal endinn skoða

Mataruppeldi hefst um leið og börn byrja að borða fasta fæðu.

Mataruppeldi hefst um leið og börn byrja að borða fasta fæðu. Í upphafi skal endinn skoða og byrja strax að bjóða börnum upp á það sem við viljum að þau venjist á að borða. Ef ungbarn fær bara sætan barnamat, eins og ávaxtamauk, eru allar líkur á að barnið sæki í sætan mat. Ef ungbarn er hins vegar vanið strax á að borða grænmeti og kartöflur eru góðar líkur á að það velji áfram slíkt fæði og þyki það gott.

Sama á við um drykkjarvörur, við veljum fyrir börnin okkar og þau venjast á það sem við bjóðum þeim upp á. Barn sem fær alla tíð vatn, venst á að drekka það og mörg börn eru mjög dugleg við vatnsdrykkju í dag. Þau kjósa mörg frekar vatn fram yfir gosdrykki og þar skipta venjur fjölskyldunnar miklu máli. Foreldrar eru alltaf fyrirmynd og börnin læra af þeim, hvort sem við ætlumst til þess eða ekki. Ef mamma og pabbi drekka gos með mat eru allar líkur á því að börnin þeirra muni líka venjast á gosdrykkju. Það dugar oft skammt að bera vatnið á borð fyrir börnin ef það er ekki nógu gott fyrir alla.

Leyfa börnunum að taka þátt í eldamennskunni

Ef börn eru matvönd er um að gera að fá þau til að koma meira að eldamennskunni. Leikskólabarn sem á þátt í því að elda matinn er oft tilbúnara að smakka á öllu sem í boði er af því að það átti sinn hlut í eldamennskunni. Á meðan er eldað er hægt að smakka á hinum ýmsu hráefnum og taka tillit til óska barnsins. Ef barnið vill til dæmis alls ekki sveppi en borðar papriku með bestu lyst er hægt að segja: „Við skulum hafa bara lítið af sveppum en mikið af papriku, því þér finnast hún svo góð!“

Foreldrar bera ábyrgð á hvað er í boði á heimilinu en gott er að venja börnin á samstarf, þ.e. þau hafa eitthvað um málið að segja innan ákveðins ramma.

Börn eru oft vön að smakka í leikskólanum og foreldrar geta hjálpað þeim að yfirfæra þá færni inn á heimilið. Smakka smávegis í hverri máltíð. Gott samstarf heimilis og skóla getur hjálpað heilmikið til þegar börn eru matvönd, borða of lítið eða of mikið. Stundum er hægt að dulbúa grænmetið með því að nota hakkara og mauka það þannig að það sjáist varla en er samt í matnum! Setja rúsínur eða uppáhaldsávextina út á hafragrautinn og jafnvel raða þeim skemmtilega upp til að gera matinn skemmtilegri og girnilegri.

Láta börnin aðstoða við gerð matseðils

Foreldrar hafa oft mikil áhrif með því að tala upphátt um sinn uppáhaldsmat. Foreldri sem segir með bros á vör að fiskur sé sinn uppáhaldsmatur er að leggja inn gott orð um fiskinn hjá barninu sínu. Máttur endurtekningarinnar er mikill hjá börnum og smám saman fer barninu ef til vill að finnast fiskur bara líka sinn uppáhaldsmatur.

Stálpuð börn geta hjálpað til að gera matseðil fyrir vikuna og þá eru það foreldrarnir sem setja grunnreglurnar. Grunnreglurnar eru mismunandi eftir áherslum foreldra. Á einu heimili þarf til dæmis að vera fiskur tvisvar sinnum í viku, kjöt einu sinni yfir helgi og hafragrautur þrisvar sinnum í viku í morgunmat meðan á öðru heimili er engin regla um morgunmat, en það þarf að borða kjöt tvisvar sinnum og fisk þrisvar sinnum, grænmetisrétt tvisvar sinnum og unnar kjötvörur eru ekki í boði. Með því að taka þátt í að ákveða hvað á að vera í matinn og velja uppskriftir eru börn, og líka matvönd börn, líklegri til að borða matinn.

Færa matmálstíma framar

Ef börn borða lítið á matmálstíma eða vilja alls ekki borða er nauðsynlegt að skoða nákvæmlega hvenær barnið borðar og hvað það borðar. Hugsanlega gæti hentað að færa matmálstímann framar eða koma í veg fyrir að barnið borði 1-2 tímum fyrir mat eða skoða vel hvað er verið að borða.

Ekki er óalgengt að börn vilji fá sér smábita síðdegis en það skiptir máli hvort barnið borðar ávöxt eða kex og brauð og eins í hvaða magni.

Foreldrar eru alltaf fyrirmynd og börnin læra af þeim, hvort sem við ætlumst til þess eða ekki. Ef mamma og pabbi drekka gos með mat eða borða mikið af sætindum eru allar líkur á því að börnin þeirra muni venjast á það sama. Mynd/Pexels.com

Þolinmæði og endurteknar útskýringar

Aldrei að missa stjórn á skapi sínu við barn sem vill ekki borða, þolinmæði er það hráefni sem foreldrar þurfa að birgja sig upp af. Oft þarf að útskýra sömu hlutina aftur og aftur. Foreldrar þurfa líka að standa við það sem þeir segja. Ef þeir segja að það verði enginn eftirmatur verða þeir að fylgja því eftir.

Huga þarf vel að skammtastærðum og setja ekki meira á diskinn en raunhæft er að barnið borði. Börn þurfa oft að finna sitt magamál og betra er að kenna þeim að fá sér lítið í einu en frekar fá sér aðeins meira ef þau eru enn þá svöng.

Foreldrar bera ábyrgð á hvað er í boði á heimilinu en gott er að venja börnin á samstarf, þ.e. þau hafa eitthvað um málið að segja innan ákveðins ramma. Börn þurfa líka að vita hvaða mat þau mega ganga í og fá sér og hvaða mat þau þurfa að spyrja sérstaklega um.

- Advertisement -

Athugasemdir