Hvernig geta letihaugar brennt meira?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Allir vita að hreyfing er góð fyrir líkamann og nauðsynleg til að halda heilsu. En sumir hafa enga ánægju af líkamlegri áreynslu og reyna að forðast hana eftir bestu getu. Hér eru nokkur góð ráð fyrir letihauga til brenna meiru með sem minnstri fyrirhöfn.

Stattu í stað þess að sitja

Í mannslíkamanum eru um það bil 300 liðamót og um 800 vöðvar. Þegar við sitjum í stól er hryggurinn læstur í óeðlilegri stöðu. Hann er boginn í stað þess að vera beinn, svona svipað og þegar gamalt fólk hallar sér fram á við til að skapa meira jafnvægi. Þess vegna verður meira álag á vöðvana í hálsinum og herðunum. Vöðvabólga og verkir frá stoðkerfi eru þess vegna einna verstu kvillar sem hrjá meðalmanninn nú á dögum. En með því að standa upp reglulega og standa við vinnuna hluta úr degi er bæði komið í veg fyrir stóran hluta þess vanda og einnig aukin brennsla líkamans. Standandi maður brennir 15% meiri orku en sitjandi. Næst þegar þið eruð á fundi eða komið á mannamót gæti verið skynsamlegra að velja að standa í stað þess að stefna að næsta stól eins og þyrstur maður að uppsprettulind.

Gerðu hnébeygjur

Það er merkilegt að fylgjast með börnum. Þau hafa innbyggða tilfinningu fyrir því sem kemur líkama þeirra best. Takið eftir hversu oft þau beygja sig í hnjánum og gera hnébeygjur. Prófið að leika þetta eftir. Þau sitja einnig oft á hækjum sér á gólfinu við leik og það er einnig hollt. Ekkert er betra til að viðhalda liðleika í mjöðmum og hnjám en einmitt þessi hreyfing. Því miður hættum við flest hér á Vesturlöndum að gera þetta ósjálfrátt um fjögurra ára aldur. Það er vegna þess að þá er ætlast til að við sitjum á stól með fjölskyldu okkar við matarborðið og annars staðar þar sem hún kemur saman. Rannsóknir á frumstæðum samfélögum sýna okkur hins vegar að það að sitja á hækjum sér er eðlilegasta hvíldarstaða mannsins. Við töpum hæfninni til að nota hana allt of snemma. Með því að gera hnébeygjur reglulega yfir daginn og sitha á hækjum sér í þrjár mínútur á dag er hægt að auka liðleika og örva þarmahreyfingarnar til muna. Það eykur brennslu líkamans og bætir meltinguna til muna. Prófið að setjast með hæla í gólf, hnén vel í sundur og rassinn nánast í gólfið. Reynið svo að halda þessari stöðu í þrjár mínútur.

Njóttu útiloftsins

Í kringum 75 ára aldur munu tveir þriðju okkar glíma við króníska kvilla af einhverju tagi og þurfa að taka inn lyf við þeim. Hægt væri að koma í veg fyrir stóran hluta þeirra með aukinni hreyfingu og með því að passa sig að halda kjörþyngd. Eitt af því sem eykur brennsluna og heldur fólki í góðu formi er útivera. Að anda að sér hreinu lofti er líka mjög gott fyrir andlega líðan. Einsettu þér því að verja að minnsta kosti fimmtán mínútum á dag utandyra. Gönguferðir eru góð leið til þess og þá má gjarnan nota þau útiæfingatæki sem víða má finna við útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Það má líka fara út að leika með börnunum, eltingaleikir, kubbar, krokket, sund og fleira er sömuleiðis mjög skemmtileg leið til að tryggja sér sinn skammt af útilofti.

Vertu liðtæk í bólinu 

Rannsóknir sýna að vellíðunarboðefnin sem streyma um líkamann þegar hann fær kynferðislega fullnægingu auka framleiðslu á fitubrennsluensímum. Það getur því verið gott ráð að stunda kynlíf oftar og af meiri krafti en áður. Í stað þess að halda sig við sömu gömlu rútínuna gæti verið gott ráð að prófa nýjar stellingar, lengja forleikinn með ýmsum skemmtilegum æfingum með maka þínum. Það má líka nýta kynlífið til að teygja vel og vandlega á ýmsum vöðvum.  Varla hægt að hugsa sér betri leið til að hreyfa sig og auka liðleika en einmitt þessa.

Horfðu á sjónvarpið

Hingað til hefur sjónvarpsgláp ekki flokkast undir holla hreyfingu en hvað ef í stað þess að liggja uppi í sófa með fjarstýringuna í höndunum liggir þú á gólfinu, t.d. á maganum með olnbogana undir fremri hluta líkamans. Þetta er hálfplanki, haltu þeirri stöðu eins lengi og þú getur. Prófaðu svo að planka meðan þú horfir. Bara það að liggja á gólfinu og teygja úr sér eykur brennsluna og bætir líkamsstöðuna til muna. Í stað þess að þrengja að lungunum eins og gjarnan gerist þegar fólk situr eða liggur hálft út af í sófanum geta þau fyllt sig til fulls og við hvern djúpan andardrátt streymir súrefni um líkamann og brennslan eykst. Ef menn vilja er líka hægt að gera þægilegar teygjuæfingar í þessari stöðu.

Reyndu líka eftirfarandi:

Sittu með krosslagðar fætur á gólfinu. Þessi klassíska jógastelling er eitthvað sem allir gera þegar þeir eru börn. Skiptu reglulega um þann fót sem liggur ofan á.  

Pönnukökubeygjan, hún byrjar sitjandi á gólfinu, teygðu síðan fæturna frá þér og hafðu eins langt bil á milli þeirra og þú getur. Beygðu þig svo fram eins langt og þú kemst. Gerðu þetta reglulega og þú eykur verulega liðleika í mjöðmum.

Lyftu þér upp. Liggðu á maganum og lyftu þér síðan upp eins hátt og þú getur með lófana í gólf. Þetta er kóbrastaðan í jóga.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira