Hvetur fólk til að hrósa ástvinum sínum áður en það er um seinan – „Nokkur orð geta gert mikið“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Inga María Hlíðar Thorsteinson hvetur fólk til hrósa sínum nánustu á meðan tækifærið gefst. Hún segir margt fólk bíða lengi eftir réttu stundinni til að segja ástvinum sínum hvernig þeim er innanbrjósts, bíða alveg þar til það er orðið of seint. Sjálf fékk hún áminningu um að lífið er óútreiknanlegt þegar afi hennar hneig niður nýlega, þá áttaði hún sig á að það var margt sem hún átti eftir að segja honum.

„Þegar ég frétti að afi minn hefði hnigið niður, alveg fyrirvaralaust, þá hugsaði ég að hann mætti ekki fara strax. Mig langaði að hann vissi hvað mér þykir vænt um hann og þakka fyrir ákveðnar stundir sem við höfum átt saman. Ég áttaði mig á að ég hef ekki verið nógu dugleg að láta hann vita,“ segir Inga María sem skrifaði nýlega pistil um málið undir yfirskriftinni Orð í tæka tíð. Í honum hvetur hún fólk til að senda ástvinum sínum einhver vel valin orð.

Inga María segir það hafa verið áfall að fá þessar fréttir af afa sínum, hún hafi orðið hrædd en það fór betur en á horfðist.

„Hann fór í rannsóknir og allt lítur vel út núna en þetta fékk mig til að hugsa um pistil sem ég skrifað árið 2018. Hann fjallaði um minningargreinar. Íslendingar skrifa svo persónulegar minningargreinar, oft eru þær skrifaðar í annarri persónu og hljóma eins og sendibréf eða skilaboð sem viðkomandi hefði viljað senda þeim látna áður en það varð um seinan,“ segir Inga María.

„Mér leið eins og það væri orðinn raunhæfur möguleiki að ég væri að fara að skrifa minningargrein um afa en ég fann að auðvitað myndi ég frekar vilja segja þetta við hann í stað þess að skrifa um hann í blöðin.“

Mynd / Hákon Davíð

Inga María minnir fólk á að lífið er hverfult og að við ættum að nýta tímann á meðan við höfum hann. „Það er vont að átta sig á að maður átti eitthvað eftir ósagt við ástvin eftir að hann fellur frá.“

„Það er einhvern veginn auðveldara að skrifa þessar hugsanir niður í stað þess að segja þær upphátt.“

Inga María hvetur fólk til að vera óhrætt við að hrósa fólkinu sínu og þakka fyrir góðar stundir. Ef fólk er að bíða eftir réttu stundinni og staðnum þá eru jólin ef til vill hinn fullkomni tími.

Hún tekur fram að ef fólki þykir erfitt að opna sig og hrósa, augnliti til augnlitis, þá er tilvalið að skrifa hugsanir sínar niður á blað, til dæmis í jólakort. „Það er einhvern veginn auðveldara að skrifa þessar hugsanir niður í stað þess að segja þær upphátt, en orðin hafa alveg sama gildi fyrir þann sem les bréfið,“ segir Inga María.

Um jólakortin segir hún: „Það kannist flestir við að fá bunka af jólakortum í kringum hátíðarnar, þá er fólk gjarnan að segja frá því sem það hefur verið að gera síðastliðið ár og telja upp einhver afrek í fjölskyldunni. En mér finnst alveg tilvalið að nota tækifærið og þakka fyrir góðar stundir, hrósa og segja hvað manni þykir vænt um fólkið sitt í jólakortum. Þarf ekkert að vera voðalega mikið, nokkur orð geta gert mikið.“

Sendi afa sínum skilaboð í gegnum Messenger á Facebook

Inga María segir upplagt að gleðja ástvini sína með vel völdum orðum á þessum skrítnu tímum sem við lifum á, þegar sem kórónuveirufaraldurinn hefur svo mikil áhrif á okkar daglega líf.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skrítið. Ég hef til dæmis reynt að vera dugleg að heimsækja ömmu og afa í gegnum árin en núna hefur það eiginlega ekki verið hægt vegna veirunnar. Margir eru í þessari sömu stöðu, fólk vill heimsækja sína nánustu en getur það ekki vegna veirunnar,“ útskýrir Inga María.

Inga María hvetur fólk til hrósa sínum nánustu á meðan tækifæri gefst. Mynd / Hákon Davíð

„Þess vegna held ég að þetta sé rétti tíminn til að skrifa eitthvað fallegt til ástvina. Ég held að þetta gæti verið skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum jólakortum.“

Spurð út í hvort hún sé búin að segja afa sínum það sem henni lá á hjarta segir Inga: „Já, um leið og ég frétti þetta þá sendi ég honum skilaboð. Hann er svo tæknivæddur þannig að ég sendi honum bara í gegnum Messenger og hann sá það strax. Ég hafði ömmu með í spjallinu og það var ótrúlega gott,“ segir Inga María. Hún kveðst vera þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að senda honum nokkur vel valin orð.

„Um leið og ég frétti þetta þá sendi ég honum skilaboð. Hann er svo tæknivæddur þannig að ég sendi honum bara í gegnum Messenger.“

„Afi minn er auðvitað orðinn fullorðinn, 87 ára, og hann hefur alltaf verið partur af lífi mínu. Maður venst svolítið þeirri hugmynd og líður eins og fólkið manns verði bara alltaf til staðar þó maður viti vissulega innst inni að staðreyndin er ekki sú. Í dag er líka orðið svolítið tabú að tala um dauðann, fólk hræðist að velta honum fyrir sér og tala um hann og við látum gjarnan eins og hann sé ekki óumflýjanlegur. Það er kannski einhver sjálfsbjargarviðleitni. En ég er allavega fegin að vera vakin til umhugsunar,“ segir Inga María.

„Ég held að þessi jól séu fínn tími til að setja hugsanir sínar niður á blað og senda ástvinum nokkur vel valin orð.“

Pistil Ingu Maríu má lesa í heild sinni hérna

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Sex sekúndur sem geta breytt sambandinu

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.Gefðu ást og umhyggju á aðventu.Við könnumst...

Farsóttarþreyta og heimavinna

Höfundur / María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi og sáttamiðlari hjá SamskiptastöðinniDaglegt líf fólks hefur tekið miklum breytingum vegna heimsfaraldurs...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -