2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hvítara en hvítt

  Ekkert lát er á vinsældum mínimalísks stíls þar sem hvítt er ríkjandi.

  Á undanförnum árum hafa straumar og stefnur í innanhússhönnun verið í átt að mínimalískum formum, einföldum húsgögnum og hvítur verið ríkjandi litur. Þótt hreinn hvítur sé algengastur eru margvíslegar tónar einnig vinsælir og gráu, gulu, bláu og rauðu blandað í þann hvíta til að fá fram hlýlegri afbrigði.

  Blæbrigði hvíta litarins eru ótalmörg og öll falleg. Hann hefur þó alltaf þann kost að vera tær, hlutlaus og róandi. Í raun inniheldur hvítt alla liti litrófsins en við sjáum þá ekki því þeir endurkastast ekki. Húsgögn og húsbúnaður fara þess vegna vel við hvíta litinn og auðvelt að skapa áhugaverð rými þar sem hann er ríkjandi. Hvít baðherbergi og eldhús hafa þann kost að vera hreinleg. Óhreinindi sjást vel á björtu yfirborðinu og auðveldar mönnum að þrífa og halda öllu bakteríulausu.

  Hvítur hefur þó alltaf þann kost að vera tær, hlutlaus og róandi.

  Með áhugaverðum tækjum eða skrautmunum í lit verður rýmið sérstaklega aðlaðandi. Hann endurkastar ljósinu og hentar þess vegna vel til að stækka herbergi og gefa þá tilfinningu að hátt sé til lofts. Hvítt er raunar sá litur sem oftast er valinn á loft í íbúðarhúsum.

  AUGLÝSING


  Mjög margir innanhússhönnuðir kjósa að byrja alla sína vinnu út frá hvítum flötum, til að mynda veggjum, gluggum, lofti eða gólfi. Flestir sjá fyrir sér að alhvítt herbergi sé líkt og auður strigi fyrir málara að vinna með en það er ekki svo einfalt.

  Þegar aðrir tónar eru blandaðir við þann hvíta þarf að stíga varlega til jarðar því ofurlítill bleikrauður eða grár blær getur breytt miklu þegar kemur að vali á öðrum litum. Gulur litur gefur hvítum hlýlegri undirtón en grár eða blár skapa kaldari birtu. Þess vegna er ekki heppilegt að velja þá í hvíta litinn á baðherbergi eða í eldhúsi því sterk vinnuljós í þannig rýmum draga fram þau áhrif og rýmið getur orðið fráhrindandi. Rauðleitur blær dýpkar þann hvíta og gefur yl í hann sem á sérlega vel við í svefnherbergjum og á göngum.

  Það skapar ævinlega skemmtilega mótsögn við hvíta veggi húsa að mála glugga í bláu, rauðu, svörtu eða öðrum afgerandi litum.

  En það er ævinlega gott að byrja á stærstu flötunum, velja liti á þá og bæta síðan fleiri litbrigðum við og þannig unnið hægt og hægt að heildarsvip sem virkar. Sumir kjósa að mála herbergi í fleiri en einum hvítum litatóni og ná þar með fram þessu tæra endurkasti sem gráu og bláu litirnir gefa en draga úr kuldanum með gulu eða rauðleitu tónunum.

  Dramatískar andstæður

  Þegar valin eru húsgögn og húsbúnaður inn í hvítt rými er gott að byrja á jarðlitum á borð við brúnt, grænt og rautt. Sé um tæra hvíta liti að ræða er gaman að nota skæra liti eins og gult, neongrænt, bleikt og appelsínugult. Þessir litir draga úr kuldalegum áhrifum þeirra. Ekki þykir heppilegt að vera of litaglaður. Það er gott að velja tvo liti og ef þörf er fyrir meiri fjölbreytni að bæta þá nokkrum mismunandi tónum þeirra við í stað þess að velja einhvern sem er algjörlega á hinum enda litapallettunnar.

  Húsgögn og húsbúnaður fara þess vegna vel við hvíta litinn og auðvelt að skapa áhugaverð rými þar sem hann er ríkjandi.

  Svart er algjör andstæða þess hvíta. Þess vegna verða áhrifin svo dramatísk þegar þeir tveir eru paraðir saman. Hvít og svört tíglagólf, hvítir veggir og svartar innréttingar og svo framvegis.
  Blátt og hvítt vinna einnig mjög vel saman og nefna má að sú litasamsetning er alvinsælust þegar kemur að leirtaui. Þetta er mjög klassískt litaþema og mjög líklegt til að endast vel.

  Rannsóknir benda til að menn fái síður leið á þeim tveimur saman en öðrum samsetningum lita. Gult og hvítt gefa mikla birtu og yl og eiga ákaflega vel við í sumarbústöðum, strandhýsum og barnaherbergjum.
  Listaverk njóta sín sérlega vel á hvítum grunni og þá er engin hætta á að bakgrunnurinn dragi athyglina frá því sem listamaðurinn vill koma á framfæri.

  Hvítur litur er sömuleiðis mjög vinsæll utanhúss og steinsteypt hús njóta sín mjög vel í þeim lit. Auðvelt er að velja lit á móti þeim hvíta vilji menn lífga upp á húsið því allt gengur með honum. Það skapar ævinlega skemmtilega mótsögn við hvíta veggi húsa að mála glugga í bláu, rauðu, svörtu eða öðrum afgerandi litum. Það má einnig draga fram ákveðin einkenni arkitektúrs hússins með því að mála þá fleti í öðrum litum. Þetta dregur fram sérkenni hússins og gerir það áhugaverðara að sjá.

  Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is