2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Í góðu hjónabandi – lykilorðin virðing og vilji til að hlusta

  Flestir sjá líklega fyrir sér að einhugur og samstaða einkenni gott hjónaband umfram allt annað. Það á vissulega við nokkur rök að styðjast en hjón geta verið mjög ólíkir einstaklingar og ósamkomulag útlokar ekki hamingju og vellíðan í sambandinu. Fjölskylduráðgjafar hafa rannsakað sérstaklega hvað einkenni hjónabönd sem endast og hér koma þau atriði sem fóru efst á lista.

   

  Léttu andrúmsloftið með húmor
  Í öllum samskiptum getur léttleiki og kímni skapað þægilegra andrúmsloft og þegar einhver spenna ríkir er fátt sem dregur fljótar úr henni en einmitt hlátur. Þegar þær aðstæður myndast að fólk finnur að rökræður eru farnar að litast af ergelsi er gott að segja eitthvað skemmtilegt, gera grín að sjálfum sér eða aðstæðum. Með því móti skilur hinn aðilinn að þótt vissulega taki makinn hlutina alvarlega sé þetta samt málefni sem hann er tilbúinn að semja um. John Gottman sálfræðingur heldur úti vefsíðu um ástina og fleira í mannlegum samskiptum og að hans mati er kímnigáfan og hvernig hún er notuð einn besti mælikvarði á hvort sambönd muni endast. Hann tók viðtöl við nokkur hundruð pör og ræddi við þau um sambandið. Eftir að hafa horft á viðtölin spáði hann fyrir um hver þessara sambanda myndi endast og hver ekki. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér í 90% tilvika. Þess vegna gæti borgað sig að hlusta eftir ráðleggingum hans.

  Reyndu að skilja samskiptamáta maka þíns
  Hvernig fólk tjáir sig er mjög mismunandi. Margir kjósa að sýna ást og umhyggju með gerðum fremur en orðum. Aðrir vilja tala um alla hluti og kryfja þá til mergjar. Í þeim tilfellum er einnig mismunandi hvort fólk er tilbúið að ræða ágreiningsefnin strax eða hvort það vill fá tíma til að hugsa sig um og koma aftur að hlutunum síðar. Hér í eina tíð voru prestar gjarnir á að gefa ungum hjónum það ráð að láta sólina aldrei setjast á deilumál sín en þetta á aðeins við suma, eða það fólk sem getur hugsað sér að sitja við og ræða hlutina í þaula, allt þar til málið leysist. Það að hugsa sig tvisvar um og leyfa reiðinni að sjatna getur oft breytt miklu um niðurstöðuna og hversu uppbyggilegar samræðurnar verða. Það er allt í lagi að segja: „Ég er ekki tilbúin/n að ræða þetta núna. Læt þig vita þegar þar að kemur.“ Að þekkja og skilja hvernig samskiptamáti hentar maka þínum er stór þáttur í að þið náið að leysa úr vandamálum og vinna saman.

  Hlustaðu af athygli
  Aldrei verður of oft eða of mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að hlusta. Alltof margir falla í þá gryfju að hlusta aðeins á makann með öðru eyranu á meðan þeir forma í huganum mótrökin. Þeir bíða eftir að komast sjálfir að en eru ekki opnir fyrir líðan og skoðunum hins. Það er einræði, ekki lýðræði. Til þess að geta átt í uppbyggilegum samskiptum er nauðsynlegt að bera virðingu fyrir hinum aðilanum og hlusta vandlega á það sem hann hefur fram að færa. Í mörgum samböndum er rifist um sama hlutinn aftur og aftur, stöðugt rifjaðar upp gamlar væringar og endurtekið það sem sagt var þá. Eina leiðin til að rjúfa vítahringinn er að hlusta og skoða út frá nýju sjónarhorni. Í stað þess að hugsa; hvernig get ég sannfært hann/hana? Hugsið; hvernig get ég breytt þessari pattstöðu? Hvað þarf til að við náum lendingu? Nýjar rannsóknir sýna að þegar við tölum við góða hlustendur finnum við fyrir létti og hamingju. Okkur finnst einhver skilja okkur og taka sjónarmið okkar alvarlega. Meðal þess sem góðir hlustendur gera er að endurtaka og staðfesta það sem sagt var við þá, t.d. „Já ég skil hvað þú ert að fara þegar þú segir þetta. Það er rétt en ég held að hægt væri að gera þetta svona líka.“ Um leið og viðkomandi sýnir skilning og staðfestir að hann hafi hlustað opnast hugur viðmælandans fyrir öðrum sjónarhornum. Settu þér þess vegna það markmið næst þegar stefnir í deilur ykkar í milli að hlusta af einlægri athygli á maka þinn og sýna skoðunum hans virðingu. Reyndu svo að koma þínum að án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr hans. En þótt þessar aðferðir séu magnaðar munu þær aldrei leysa allar deilur eða koma í veg fyrir að þær verði. En lykilorðin eru virðing og vilji til að hlusta.

  AUGLÝSING


  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is