Í spegli sinnar tíðar 

Deila

- Auglýsing -

Ævisögur er skemmtilegar aflestrar og merkileg grein bókmennta. Því eldri sem menn verða þess meiri ánægju hafa þeir yfirleitt af að lesa þær. Í sjálfu sér ekki erfitt að skýra af hverju. Þeir fá með þeim tækifæri til að gægjast ofurlítið inn í líf samtíðamanna eða teygja sig yfir haf tímans og setja sig í spor forfeðranna. Eðlislæg forvitni okkar um líf og kjör annarra fær þarna frábæra útrás en einnig gefst kostur á að læra af reynslu annarra, spegla eigin kjör og lífsval í leiðum annarra.

Flestir menn hafa þörf fyrir að skilja samtíma sinn, átta sig á hvað réði ákveðnum hugmyndum, stefnum og straumum á hverjum tíma. Það hjálpar okkur að sættast við eigin þátt í því er fram fór og þeirri ábyrgð sem við berum á honum. Yngra fólki finnst mannlegt eðli yfirleitt ekki flókið og auðvelt sé að setja sér markmið og fylgja stefnu sem tryggir að allir draumar rætist. Hinir eldri þekkja og vita að ytri aðstæður blanda sér oft í leikinn og gera óskir manns og hugsýnir að engu.

Ævisögur færa mönnum hins vegar heim sanninn um að tilfinningar og skapgerð allra manna er flókin. Hvernig aðrir yfirstíga erfiðleika eða leysa úr erfiðum málum má nota til innblásturs og ef miður hefur farið forðast að detta í sömu gryfju. Það má líka sækja mikla huggun í frásagnir af lífi fólks sem sigrast hefur á hindrunum og náð sættast við sjálft sig og lífið.

Tenging við fortíðina

Nýlega kom í ljós að gen okkar geyma minningar um áföll, ekki bara okkar eigin, heldur einnig foreldra okkar. Þau bera svo auðvitað í sér reynslu fyrri kynslóða og þannig berast til okkar boðaföll langfeðga okkar en einnig þrautseigja þeirra og hæfni til úrvinnslu. Til að mynda má nefna að Winston Churchill skrifaði ævisögu forfeður síns Marlborough lávarðar, enda var hann fyrirmynd hans í pólitísku tilliti og hann sótti til hans mikið af sínum hugmyndum og stjórnvísi.

Sagnfræðingar líta á ævisagnaritun sem góða leið til að kafa ofan í tíðaranda tiltekinna tímabila í sögunni. Þeir greina þar áhrif er teygja anga sína fram á svið stærstu atburða nútímans og telja að ef við ekki náum að skilja fortíðina sé engin von til að við náum yfirsýn yfir samtímann. Til að mynda gefa sögur einstaklinga okkur góða mynd af hvernig maðurinn tekst á við náttúruöflin, hugarfar og viðhorf fólks til sjálfs síns og annarra, pólitískt ástand svo sem eins og stéttaskiptingu, efnahagslegar leiðir og viðhorf til utanríkismála. Allt þetta getur verið lykillinn að því að skilja hvers vegna þjóðin sem við tilheyrum hefur kosið að byggja um einmitt það þjóðfélag sem við þekkjum.

Ævisagnaritarar hafa auðvitað það forskot að geta litið til baka yfir farinn veg og verið vitrir eftir á. Þeir hafa iðulega aðgang að gögnum og heimildum sem hugsanlega lágu ekki á lausu á sínum tíma og eins hafa atburðir fléttað sína keðju orðið samhangandi þótt vera kynni að þeir hafi virst óskyldir þegar þeir áttu sér stað. Öll þekkjum við vangaveltur um að ýmis stórmenni sögunnar hafi þjáðst af ákveðnum sjúkdómum, andlegum eða líkamlegum, sem enginn kunni að nefna í þeirra tíð. Sumir misnotuðu líka áfengi og aðra vímugjafa og enginn veit að hve miklu leyti það hafði áhrif á ákvarðanir þeirra í mörgum stærstu málum fyrri alda.

Saga einstaklinganna

En þótt mun vinsælla sé að dusta rykið af stórmennum og þekktum einstaklingum og skrifa um líf þeirra er almúginn ævinlega sá jarðvegur er allt sprettur úr. Á undanförnum árum hefur orðið æ vinsælla að kafa ofan í eigin fjölskyldusögu, kynnast aðstæðum fyrirrennara sinna hér á jörð og margt hefur þar komið fólki þægilega á óvart en einnig stungið það illilega í bakið. Oft má satt kyrrt liggja sagði fólk hér áður fyrr en ef genin okkar bera í sér minningar frá þessum tíma hví þá ekki að kafa ofan í þá og skynja kannski betur hvaðan eigin kvíði sprettur eða sú tilhneiging að forðast erfiðleikana?

En þetta er auðvitað persónuleg ákvörðun hvers og eins og varla á þá saga allsendis óskyldra erindi við okkur? Jú, hún getur nefnilega opnað frekari skilning á kjörum eigin formæðra og –feðra. Hjálpað okkur að skynja þeirra líf í samhengi við þeirra samtíma. Við getum nefnilega aldrei komist undan því að um leið og við skoðum söguna erum við hluti af henni. Okkar augu horfa í gegnum gleraugu ríkjandi viðhorfa og aðstæðna. Kynslóðir fyrri alda bjuggu við allt annan kost, allt aðra heimsýn, annan veruleika. Það verður aldrei hægt að setja sig inn í hann að fullu en sumir hafa ofboðslega gaman af að reyna, bæði ævisagnaritarar og lesendur þeirra eru þessi marki brenndir og það eitt og sér gefur ævisögunni gildi. Hún tengir saman tímanna tvenna gefur færi á að stíga inn í spegliinn eins og Lísa í sögunni og teygja sig yfir blámóðu tímans til að snerta merkar konur og karla í lífsbaráttu sinni.

Þegar lesin er ævisaga getur verið gagnlegt að spyrja sig eftirtalinni spurninga:

  • Hver voru helstu afrek manneskjunnar?
  • Hversu áreiðanlegar eru heimildir um æsku hennar og fullorðinsævi?
  • Hvers konar hindranir þurfti hún að yfirstíga?
  • Skapaði hún gott andrúmsloft í kringum sig eða gerði heiminn betri á einhvern hátt?
  • Hversu meðvituð og ánægð var manneskjan með eigin afrek og hæfileika?
  • Er að finna innblástur í markmiðum hennar og framkomu?

Íslendingar með áhuga sinn á ættfræði ættu að nota tækifærið á ættarmótum og tala við elsta fólkið á staðnum, fá það til að segja uppvexti sínum og lífi. Það er aldrei að vita nema merkilegar ævisögur leynist meðal eigin ættingja.

Nokkrar spennandi ævisögur:

Úr djúpi þagnarinnar

Það sem dvelur í þögninni eftir Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur er frábær saga átta formæðra hennar. Hér eru á ferð miklar örlagasögur. Þær eiga það sameiginlegt að hafa allar verið óvenjulegum gáfum gæddar og miklar hæfileikakonur. En í lífi þeirra haldast ástin og sorgin í hendur. Sumar máttu þola svik af hálfu þeirra manna er þær mátu mest, aðrar missa maka sína og ein er svipt móður sinni. Flestar bera þær þó gæfu til að hefja sig yfir sorgina. Bókin er einstaklega vel skrifuð og áhrifamikil. Útg. Björt

Ótrúleg þrautseigja

Helgi eftir Þorvald Kristinsson, minningar Helga Tómassonar ballettdansara. Þótt Helgi svifi að því er virtist fyrirhafnarlaust um sviðið þegar hann dansaði endurspeglar það ekki á nokkurn hátt líf hans. Þetta er merkilega örlagasaga og svo spennandi á köflum að varla er hægt að leggja hana frá sér. Útg. Bjartur

Íslenskur fjölmiðlamógúll

Allt kann sá er bíða kann er æsku- og athafnasaga Sveins Eyjólfssonar skráð af Silju Aðalsteinsdóttur. Hér er ekki verið að liggja á neinu heldur talað hreinskilnislega um menn og málefni. Silja skrifar listavel og leiðir lesandann áfram í gegnum þetta magnaða lífshlaup. Sveinn hefst úr fátækt til ríkidæmis og tekst það sem fáir aðrir hafa leikið eftir eða gera íslenskan fjölmiðil að viðskiptalegu stórveldi. Útg. Mál og menning

Ástin á tímum Stasi

Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur byggir á dagbókum hennar einn vetur er hún var við nám í Leipzig í Austur-Þýskalandi árið 1987. Um þetta leyti er farið að halla undan fæti í kommúnistaríkinu og Kristín upplifir skortinn, misskiptinguna og tortryggnina en einnig ástina. Hún eignast kærasta en eftir að múrinn fellur heyrist ekki meira frá honum. Tuttugu árum síðar leggur reynir hún að ráða gátuna um hvarf hans. Þessa bók verður að lesa í einum rykk því það er enginn leið að hætta fyrr en maður veit sögulokin. Vel skrifuð og áhrifamikil bók. Útg. Bjartur Veröld

 

- Advertisement -

Athugasemdir