2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Í stað þess að undirbúa flutninga, undirbjó hún jarðarför

  Hin færeyska Kristina Skoubo Bærendsen skaust fram á íslenskt sjónarsvið í Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrr í vetur og heillaði áhorfendur með söng sínum. Bak við fallegt brosið leynist þó mikil sorg eftir skyndilegan föðurmissi fyrir tæpu ári síðan.

  Kristina er fædd og uppalin í Runavik í Færeyjum. „Húsið mitt stóð í götu sem er bara í nokkurra mínútna akstursfjarlægð frá staðnum þar sem Eivör Pálsdóttir bjó. Og já, ég þekki hana,“ segir hún og brosir breitt, rétt eins og hún hafi búist við þeirri spurningu. Sem var reyndar ætlunin.

  „Ég ólst upp á kristilegu heimili; við erum baptistar og ég söng mikið í kirkjunni. Mamma og pabbi skildu þegar ég var fjögurra ára. Pabbi flutti út af heimilinu en ég og bróðir minn sem er nokkrum árum eldri en ég bjuggum áfram hjá mömmu. Tveimur árum eftir skilnaðinn kynntist mamma svo manni sem hún er með enn í dag. Hann flutti inn til okkar ásamt dóttur sinni, en hann átti líka son frá fyrra hjónabandi sem bjó hjá mömmu sinni en flutti til okkar þegar hann varð átján ára. Svo eignuðust þau mamma tvíburastelpur löngu seinna, mamma var orðin rúmlega fertug þegar þær fæddust. Það var því aldrei nein lognmolla á heimilinu.“

  Kristina segir að hlutirnir hafi gerst hratt þegar foreldrar hennar skildu og það hafi verið erfitt en að vissu leyti líka gott. „Því maður veit alla vega helling um lífið í dag. Þetta var heilmikil lífsreynsla.“

  „Auðvitað var þetta erfitt. Foreldrar mínir ekki lengur saman, pabbi fluttur út af heimilinu, nýr maður fluttur inn …“

  Talið berst að skilnuðum og áhrifum þeirra á börnin sem eru í spilinu. „Auðvitað var þetta erfitt. Foreldrar mínir ekki lengur saman, pabbi flutti út af heimilinu, nýr maður flutti inn ásamt dóttur sinni, sem glímdi við ákveðin vandamál, og oft gekk svakalega mikið á. En ég held að það hafi verið gott að ég var svo ung þegar mamma og pabbi skildu að ég man ekkert eftir þeim að rífast. Svo gættu þau þess líka að tala alltaf vel um hvort annað fyrir framan okkur systkinin sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt. En mamma er stórkostleg kona og hún var kletturinn í þessu öllu saman; hún lét oft bjóða sér ýmislegt en stóð samt alltaf keik.“

  AUGLÝSING


  Kristina var mikil pabbastelpa. „Hann er eina manneskjan sem hefur fengið mig til að gráta úr hlátri. Hann sá aldrei vandamál; bara lausnir.“ Mynd / Hallur Karlsson

  Fallegastur og vinsælastur í Færeyjum
  Þegar Kristina var átta ára flutti faðir hennar, Alex, til Danmerkur. Hún segir að það hafi verið erfitt því hún hafi verið mikil pabbastelpa og hún hafi saknað hans afar mikið. „Fyrstu árin eftir að hann flutti til Danmerkur hitti ég hann ekki mikið. Það hafði gengið á ýmsu. Pabbi lenti í slysi og lá lengi á spítala og foreldrar mínir ákváðu að það væri ekki gott fyrir okkur systkinin að sjá hann á þessum tíma. Þegar ég var ellefu eða tólf ára fór ég að hitta hann alla vega einu sinni á ári og það var æðislegt en það var alltaf ofboðslega erfitt að kveðja hann. Pabbi var uppáhaldsmanneskjan mín,“ segir Kristina lágt og tekur sér stutt hlé áður en hún heldur áfram.

  „Pabbi var þögla, sterka týpan sem lét ekki mikið fyrir sér fara. Hann var auðmjúkur og ofboðslega mikið ljúfmenni. Alveg ótrúlega fyndinn og skemmtilegur. Hann er eina manneskjan sem hefur fengið mig til að gráta úr hlátri. Hann sá aldrei vandamál; bara lausnir. Og var alltaf í góðu skapi. Hann varð aldrei mjög reiður. Jafnvel þótt hann hefði getað verið það. Oft. En það fór allt í háaloft þegar hann og mamma skildu … Hann hélt fram hjá henni og ég held hún hafi aldrei jafnað sig almennilega á því. En hann var fallegasti og vinsælasti maðurinn í Færeyjum. Og mjög vinsæll gospel- og kántrísöngvari og allir vissu hver hann var. Svo honum fannst hann verða að flytja burt og skipta um umhverfi þegar þau skildu þannig að hann flutti til Danmerkur. Hann ákvað bara að söðla alveg um, hætti eiginlega í tónlistarbransanum og fór að gera það sem honum fannst skemmtilegt. Hann fór því að vinna sem smiður, en hann var ótrúlega handlaginn.“

  „Allir draumarnir mínir orðnir að engu, allt sem ég var búin að vinna svo ötullega að síðustu þrjú árin þarna á undan var bara farið.“

  Kristina segir þau feðginin hafa verið mjög náin og lík að mörgu leyti. „Við elskuðum bæði kántrítónlist en pabbi var fyrsti kántrísöngvarinn í Færeyjum. Við vorum miklir vinir … Bestu vinir,“ hvíslar hún og það er augljóst að hún kemst við þar sem hún þerrar tárin.

  Ætluðu að búa saman í Danmörku
  Fyrir þremur árum keypti Kristina hús í Danmörku sem þau feðginin ætluðu að taka í gegn í sameiningu og búa þar saman að því loknu. Hún staðgreiddi húsið þegar hún keypti það en þurfti að taka lán fyrir endurbótunum. „Bankinn vildi ekki veita mér lán þar sem ég þótti ekki í nógu traustri vinnu og ég var auðvitað ógift og eina fyrirvinnan,“ segir Kristina og brosir. „Ég hafði haft tónlistina að aðalstarfi í mörg ár, tíu ár eða svo, en þeir í bankanum ráðlögðu mér að finna mér stöðuga vinnu með föstum tekjum. Ég vildi ekki fara að vinna í Færeyjum og þegar íslenskur vinur minn sem er kokkur bauðst til að útvega mér vinnu sem þjónn á veitingahúsinu sem hann vann á hér á Íslandi, ákvað ég að slá til. Mér fannst það bara góð hugmynd, ég hafði komið hingað nokkrum sinnum til að spila og fannst Ísland dásamlegur staður. Það er svo margt líkt með Íslandi og Færeyjum, Ísland er bara stærra. Ég held að við séum líkari ykkur en Dönum nokkurn tíma þótt Færeyjar heyri undir Danmörku.“

  Áður en Kristina fór til Íslands um vorið 2018 að vinna kom hún fram á kántríhátíð í Færeyjum. Mynd / Hallur Karlsson

  Á meðan Kristina vann á Íslandi var pabbi hennar í Danmörku og teiknaði upp breytingarnar á húsinu. „Við gerðum þetta í sameiningu en hann sá um verklega hlutann. Það var búið að rífa allt út úr húsinu og gera það fokhelt í rauninni; búið að fá iðnaðarmenn í verkið og við ætluðum að byrja á uppbyggingunni í september á síðasta ári. Ég ætlaði að vinna sem þjónn á Laxamýri um sumarið og flytja svo út til Danmerkur um haustið og vinna í húsinu með pabba. Ég hafði hugsað með mér að ég myndi safna mér peningum allt sumarið og nota þá til að þurfa ekki að vinna í nokkra mánuði. Ég gæti bara einbeitt mér að framkvæmdunum í nýja húsinu.“

  Það hefur orðið slys …“
  Áður en Kristina fór til Íslands um vorið 2018 að vinna kom hún fram á kántríhátíð í Færeyjum. Hún segir það hafa verið magnaða upplifun og satt að segja hafi þetta verið hennar besta frammistaða á ferlinum. En það besta hafi verið að pabbi hennar var meðal áhorfenda „Hann var svo uppnuminn og hamingjusamur og var sammála mér um að þetta hefðu verið mínir bestu tónleikar.“

  Kristina fór svo til Danmerkur þar sem hún átti að koma fram á kántríhátíð en pabbi hennar var um kyrrt í Færeyjum þar sem hann hafði ráðið sig í tímabundna byggingarvinnu. „Þann 21. júní, fjórum dögum eftir að ég hafði hitt pabba í Færeyjum, var ég að fara á æfingu fyrir tónleikana og var á tónleikastaðnum með Nitu frænku minni og Finni píanistanum mínum ásamt fimm öðrum dönskum tónlistarmönnum. Evi, ein besta vinkona mín, átti að vera þarna líka en var ekki komin og við vorum alveg að fara að hefja æfinguna. Svo mætti hún og ég sá það bara á henni að eitthvað hafði gerst svo ég fór til hennar því ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir í hennar fjölskyldu. Það sást greinilega á henni að eitthvað hafði komið fyrir. Þá sagði hún við mig: „Það hefur orðið slys og pabbi þinn er dáinn.“ Auðvitað var öllum brugðið og vildu allt fyrir mig gera en ég sagðist þurfa að fara og tala við Guð. Svo ég hljóp út, þetta var úti í sveit, og spurði Hann hvort þetta væri rétt; hvort Hann hefði virkilega tekið pabba minn heim. Og mér fannst Hann svara mér. Ég fékk algjöran frið. Þá vissi ég reyndar ekki hvernig pabbi hefði dáið en ég bað bara til Guðs um að hann hefði ekki þjáðst lengi. Á meðan ég stóð þarna hringdi bróðir minn frá Færeyjum og ég sagði honum strax að ég vissi þetta. Það var líka svo skrýtið að ég vissi bara alltaf að ég myndi ekki fá að hafa pabba lengi hjá mér. Ég veit ekki af hverju, ég bara vissi það,“ segir Kristina með áherslu og tárin streyma niður kinnarnar. „Ég var búin að bíða eftir þessu. Og það var það fyrsta sem ég sagði þegar ég fékk fréttirnar: Hvað gerðist? Hvað gerðist?“

  „Ég skrapp til Danmerkur fyrir stuttu til að ganga frá dótinu hans pabba og þegar ég lenti aftur á Íslandi fann ég það bara hvað mér fannst gott að vera komin hingað aftur.“

  Faðir Kristinu lést í hörmulegu vinnuslysi þar sem hann varð undir sjö tonna lyftara. Kristina segir að sér hefði létt við það að heyra að hann hefði dáið undir eins. „Það góða var að hann þjáðist ekki. Ef hann hefði þurft að liggja lengi á spítala, vitandi það að hann væri að deyja … Það hefði verið hræðilegt.“

  Líf Kristinu tók þar með algjöra U-beygju. Hún flaug strax heim til Færeyja og við tók undirbúningur fyrir jarðarförina. Hún segist hafa ákveðið strax að hún vildi ekki sjá pabba sinn dáinn. „Það voru allir að reyna að sannfæra mig um að ég þyrfti að sjá hann áður en hann yrði jarðaður en ég vildi það ekki. Lyftarinn keyrði yfir hann miðjan þannig að andlitið var í lagi og allir sögðu að hann væri alveg jafnfallegur og hann var í lifandi lífi. En ég vildi ekki sjá hann dáinn, ég vildi bara muna hann eins og hann var meðan hann lifði. Ég hefði viljað halda í höndina hans en ég vissi að hún væri bara köld … Ég vildi heldur ekki að þetta færi að sækja á mig í draumi því mig dreymir mikið og ég fæ oft martraðir sem ég verð að verja mig fyrir. Ég vildi bara muna pabba eins og hann var. En þetta er í lagi af því að ég trúi á himnaríki og þetta er bara líkaminn. Sálin hans pabba er í himnaríki. Og ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þennan líkama hjá mér í þessi ár. Tuttugu og átta ár.“

  „Ég missti uppáhaldsmanneskjuna mína í þessum heimi. Allir draumarnir mínir orðnir að engu, allt sem ég var búin að vinna svo ötullega að síðustu þrjú árin þarna á undan var bara farið.“ Mynd / Hallur Karlsson

  Hún þagnar augnablik en segir svo að allt hafi gerst svo ofboðslega hratt. „Ég missti uppáhaldsmanneskjuna mína í þessum heimi. Allir draumarnir mínir orðnir að engu, allt sem ég var búin að vinna svo ötullega að síðustu þrjú árin þarna á undan var bara farið. Og nú var ég allt í einu að undirbúa jarðarförina hans pabba en við Kári bróðir sáum um allan undirbúninginn. Ég hef margoft undirbúið tónleika en auðvitað var þetta öðruvísi. Og erfitt.“

  Þúsund manna jarðarför
  Aðspurð hvort hún hafi vitað hvernig pabbi hennar hefði viljað hafa jarðarförina sína segir Kristina að svo hafi verið. Þau hafi verið búin að ræða það sjö árum áður, þegar pabbi hennar veiktist alvarlega. „Við höfðum tekið þetta samtal. Um jarðarförina hans, hvernig hann vildi hafa hana og hvar hann yrði jarðsettur, því hann var næstum því dáinn þarna fyrir sjö árum þegar hann veiktist. Hann var með sjúkdóm sem olli því að hann var með allt of mikið járn í blóðinu en það kom ekki í ljós fyrr en eftir rannsóknir. Það mátti ekki tæpara standa. Svo eru ég og bróðir minn með sama sjúkdóm. En pabbi var ekki hræddur við dauðann því hann treysti Guði og hann trúði á himnaríki. Hann talaði um himnaríki og Jesú sem eitthvað raunverulegt; að hann myndi hitta Jesú og ræða málin við hann. Hann sagði við mig að ég ætti ekki að vera leið þegar hann myndi deyja, því hann ætti eftir að skemmta sér svo vel í himnaríki.“

  Um þúsund manns mættu í jarðarförina sem haldin var í íþróttahúsi í Færeyjum. Eitt af því sem pabbi hennar hafði talað um var að hann vildi að hljómsveit myndi spila í athöfninni. „Ég fékk því hljómsveit sem spilaði bara lögin hans pabba og allir sem þarna voru sungu með. Svo þekktur var hann.“

  Kristina segist hafa ákveðið tveimur vikum seinna að halda sig við það að fara að vinna á Laxamýri. „Mig langaði að komast í burtu á stað þar sem enginn þekkti mig og ég gæti verið ein. Mamma hafði smávegis áhyggjur af mér því ég get verið lokuð og hún vildi ekki að ég færi að byrgja alla sorgina inni. Hún hvatti mig til að notfæra mér mennina á Laxamýri,“ segir hún og hlær létt. „Þá meina ég, hún sagði mér bókstaflega að nota eyrun á þeim, tala og tala. Og ég gerði það. Ég eignaðist marga góða vini á Laxamýri sem hjálpuðu mér mjög mikið með því að leyfa mér að tala og það gerði ég eiginlega stanslaust. Ég tala ekki svona mikið um hann núna, það hefur minnkað. Kannski af því að ég veit ekki við hvern ég á að tala. Ef þú trúir ekki á himnaríki þá er ég ekkert að fara að ræða þetta því ég nenni ekki að eyða orku minni í það. Ég leita til Guðs og tala við hann. Það er nóg.“

  Kristina segist ekki sakna Færeyja þótt hún sakni fjölskyldunnar þar, enda sé svo margt líkt með Íslandi og Færeyjum. Til dæmis veðrið. Húmor þjóðanna sé líka svipaður. Mynd / Hallur Karlsson

  Biður um að hitta hann í draumi
  Á Laxamýri vann Kristina dag og nótt í tvo og hálfan mánuð. Hún segist hafa stefnt að því að klára að gera upp húsið í Danmörku. „En í dag er einhvern veginn ekkert vit í því og ég hef velt því fyrir mér hvort ég eigi hreinlega að selja það. Húsið hefur ekkert tilfinningalegt gildi fyrir mig því við pabbi bjuggum þar aldrei þótt það hafi vissulega verið ætlunin. Mér finnst ég heldur ekkert hafa að gera í Danmörku því pabbi er ekki þar og hann var eina ástæðan fyrir því að ég ætlaði að flytja þangað. Og núna, þegar pabbi er farinn, þá veit ég að mig langar miklu frekar að búa á Íslandi en í Danmörku. Mér líður rosalega vel hérna. Ég skrapp til Danmerkur fyrir stuttu til að ganga frá dótinu hans pabba og þegar ég lenti aftur á Íslandi fann ég það bara hvað mér fannst gott að vera komin hingað aftur. Og ég sé ekkert endilega fyrir mér að ég flytji héðan.“ Hún segist ekki sakna Færeyja þótt hún sakni fjölskyldunnar þar, enda sé svo margt líkt með Íslandi og Færeyjum. Til dæmis veðrið. Húmor þjóðanna sé líka svipaður.

  Einn af þeim sem Kristina vann með og kynntist á Laxamýri var Róbert Brink, faðir tónlistarmannsins Sjonna Brink sem lést skyndilega árið 2011. „Róbert skildi því hvað ég var að ganga í gegnum og hann sagði við mig að þegar maður missir einhvern nákominn þá óski maður þess á hverju kvöldi þegar maður fer að sofa að maður fái tækifæri til að hitta viðkomandi. Og það geri ég. Á hverju einasta kvöldi bið ég um að fá að hitta pabba minn í draumi. Og mig hefur margoft dreymt hann. Sem er best í heimi. Ég held að Guð hafi gefið mér það því hann tók pabba svo snögglega en gefur mér þetta í staðinn.“

  Er engin keppnismanneskja
  Árið 2016 kom Kristina fram á tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði sem haldnir voru til heiðurs bandaríska kántrítónlistarmanninum Merle Haggard, sem var þá nýlátinn. Meðal áhorfenda var Mark Brink, sem hafði stuttu áður sent lag í forval Söngvakeppninnar fyrir árið 2017. Þegar hann heyrði Kristinu syngja á tónleikunum hugsaði hann með sér að ef lagið hans kæmist áfram í keppninni myndi hann fá þessa söngkonu til að syngja það.
  „Mörgum mánuðum seinna hringdi Mark í mig, ég hafði aldrei talað við hann áður, og spurði hvort ég væri til í að syngja lagið hans, Þú og ég, sem hefði komist inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Ég sló til og sé ekki eftir því. Það var dásamlegt að kynnast Mark. Hann er yndislegur maður og hann og konan hans eru eins og fjölskyldan mín hér á Íslandi.“
  Í nóvember síðastliðnum fékk Kristina skilaboð frá Sveini Rúnari Sigurðssyni sem spurði hvort hún væri til í að syngja fyrir hann lag sem hann ætlaði að fara að taka upp fyrir eitthvert verkefni. „Hann nefndi aldrei að þetta væri fyrir Söngvakeppnina,“ segir Kristina.

  „Ef hann hefði gert það, hefði ég pottþétt sagt nei án umhugsunar, því ég var bara ekki tilbúin í svoleiðis vinnu eftir allt sem var búið að ganga á í lífi mínu mánuðina þarna á undan. Þegar ég fékk svo að vita að þetta væri fyrir Söngvakeppnina vildi ég ekki heyra á það minnst að taka þátt og ætlaði að hætta við. En eftir miklar samningsviðræður náði Sveinn Rúnar, ásamt Valla Sport, að fá mig til að skipta um skoðun og syngja lagið. Ég er bara engin keppnismanneskja, ég hef ekki í mér þennan brennandi keppnisanda eins og svo margir sem taka þátt í svona keppnum,“ segir Kristina og skellihlær.

  „Ég elska allt sem tengist heimilisstörfunum; hvort sem það er að þrífa eða elda. Og passa upp á að öllum líði vel.“

  „En ég veit að Sveinn Rúnar var ekki að hugsa um Söngvakeppnina sjálfa, heldur röddina sem hann var að leita að fyrir lagið. Og mér fannst lagið gott, enda er Sveinn mjög góður lagahöfundur. En ég ákvað að vera heiðarleg við þá félaga um allt sem hafði gerst og hvernig mér leið og sagði þeim að það gæti orðið erfitt að vinna með mér því ég væri bara einfaldlega búin með alla orkuna mína. Þeir sættu sig við það og sögðu að það væri nóg að ég reyndi að syngja lagið eins vel og ég gæti. Og ég sagðist geta gert það,“ segir hún og brosir.

  „Það var samt erfitt að hafa pabba ekki hjá mér og ég hugsaði mjög mikið til hans á þessum tíma. Ég veit að hann hefði komið hingað, hefði hann verið á lífi, og verið með mér í gegnum allt ferlið. En Sveinn Rúnar og Valli Sport reyndust mér alveg rosalega vel, þeir eru alveg yndislegir. Og allt fólkið sem ég kynntist í keppninni og fólkið hjá RÚV var bara alveg frábært. En fjölskyldan mín kom frá Færeyjum, sem var auðvitað æðislegt.“

  „Ég svara helst ekki í símann, vil frekar senda SMS. En ég veit að þetta er eitthvað sem ég þarf að breyta.“ Mynd / Hallur Karlsson

  Sviðið er þægindarammi
  Lagið, sem í undankeppninni hét á íslensku Ég á mig sjálf, komst ekki áfram í fyrri hluta hennar en fékk svokallað „wild card“ frá dómnefndinni til að keppa í úrslitunum. Og lagið endaði að lokum í þriðja sæti sem Kristina segir að hafi verið frábær tilfinning. „Ég var svo þakklát því það að lagið skyldi enda í þriðja sæti segir mér að fólk hafi verið hrifið og vilji heyra meira. Og ég er til í það. Fyrir mig var þetta mikill sigur og ég held að þetta sé bara byrjunin.“

  Þegar blaðamaður nefnir að það hafi verið dálítið erfitt að ná sambandi við Kristinu til að biðja hana um viðtal skellir hún upp úr og segist vita upp á sig sökina. „Ég er dálítill einfari, mér finnst gott að vera ein. Og ég á erfitt með að tala mikið við fólk. Það er ekkert mál þegar ég hitti fólk í fyrsta skipti því ég er meistari í small talks en svo vandast málið eftir það. Ég svara helst ekki í símann, vil frekar senda SMS. En ég veit að þetta er eitthvað sem ég þarf að breyta,“ segir hún og brosir. „Ég hélt satt að segja að þetta myndi lagast ef ég flytti frá Færeyjum. Þar þekkja allir alla og ég er auðvitað búin að vera lengi í tónlistarbransanum svo ég er vel þekkt þar. Ég hélt að þetta myndi breytast við að flytja á einhvern stað þar sem ég fell inn í fjöldann. En svo fylgir þetta mér bara. Ég er búin að átta mig á því.“

  Kristina segist vissulega vera stressuð áður en hún kemur fram en að sama skapi sé það ákveðinn þægindarammi að vera á sviðinu. „Þar getur fólk ekki komið nálægt mér og talað við mig. Og mér finnst gott að láta mig bara hverfa þegar ég er búin að koma fram; ég vil helst ekki fara fram og tala við fólk eftir á. En ég verð jú að gera það; gefa eiginhandaráritanir og leyfa fólki að taka myndir,“ segir Kristina og skellir upp úr. „Kannski ekki alveg rétti bransinn fyrir fólk eins og mig, nei.“

  Þráir að verða mamma
  Það er kominn tími til að ljúka viðtalinu. Við Kristina erum fyrir löngu búnar með kaffið, og ábótina líka, og byrjaðar að velta fyrir okkur hvað við eigum að fá okkur í hádegismat. Það er bara svo gaman að spjalla við þessa ungu konu um lífið og tilveruna að það er erfitt að hætta.

  „En ég viðurkenni að mér finnst barneignaklukkan tikka ansi hátt. Ég veit að ég er ung, rétt að verða 29 ára, en mig hefur alltaf langað að verða mamma.“

  Ég stenst ekki freistinguna að spyrja um einkalífið áður en slökkt er á upptökutækinu og spyr hvort Kristina eigi kærasta. „Nei, veistu um einhvern álitlegan?“ segir Kristina og skellihlær. „Ég veit samt ekki alveg að hverju ég er að leita. Mér er sama um útlitið þótt ég myndi gjarnan vilja hávaxinn mann með stórar hendur, svona eins og pabbi var … En það er auðvitað ekkert sem maður stjórnar. Hann þarf alla vega að vera skarpur, það er alveg á hreinu. Og góður og skemmtilegur. En ég viðurkenni að mér finnst barneignaklukkan tikka ansi hátt. Ég veit að ég er ung, rétt að verða 29 ára, en mig hefur alltaf langað að verða mamma. Alveg frá því ég var lítil stelpa. Satt að segja þrái ég ekkert meira en að verða mamma. Ég elska allt sem tengist heimilisstörfunum hvort sem það er að þrífa eða elda. Og passa upp á að öllum líði vel. Svo draumurinn er eiginlega að vera heimavinnandi húsmóðir að skutla krökkunum á fimleika- eða fótboltaæfingar. En fyrst þarf að finna þennan mann,“ segir hún og blikkar til mín. Og þar með slekk ég á upptökutækinu.

  Förðun: Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme á Íslandi

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is