Ingi og Linda sögðu upp vinnunni og létu drauminn rætast: „Finndu þína styrkleika og notaðu þá“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ingi Torfi Sverrisson og Linda Rakel Jónsdóttir ákváðu í fyrra að kúvenda lífi sínu, sögðu bæði upp föstu starfi og fóru að vinna í að láta drauma sína rætast. Síðan þá hafa þau stofnað eigið fyrirtæki, gefið út bók og hlaðvarp og aðstoða einstaklinga í að ná markmiðum sínum hvað heilsu og almenna hreysti varðar.

„Ég var að ræða við systur mína og mág og hvetja þau til að velja sér nám eða framtíðarstarf tengt því hvar þeirra áhugasvið og hæfileikar liggja og sýna svo dugnað á því sviði. Hélt góða ræðu við þau og svona viku seinna hugsaði ég: „af hverju er ég ekki að gera það sem ég elska og er bestur í,“ segir Ingi Torfi, sem var þá byrjaður að fá fyrirspurnir um hvort hann gæti kennt fólki macros-aðferðina, sem hann var sjálfur að nota sem lífsstíl.

Auðvelt og erfitt að segja upp

Ingi Torfi er 42 ára, lærður viðskiptafræðingur, fasteignasali og markþjálfi. Linda er 32 ára, lærður viðskiptafræðingur og markþjálfi. Þau eiga þrjú börn og er fjölskyldan búsett á Akureyri. Bæði sögðu þau upp störfum sínum og segja að breytingin á vinnuhögum þeirra hafi verið erfið, en á sama tíma mjög auðveld.

„Við vorum bæði að vinna á frábærum vinnustöðum og það var erfitt að kveðja samstarfsfélagana en á sama tíma var það svo auðvelt því við vissum svo vel hvað beið okkar á nýjum stað! Að vinna saman var líka spennandi og eigum við mjög auðvelt með það. Við fengum mikinn stuðning frá fólkinu okkar þó tímasetningin í miðjum COVID-faraldri væri kannski ekki ákjósanlegur tími til að segja upp öruggri vinnu og halda á vit ævintýranna. En við létum vaða og sjáum ekki eftir því.“

Ingi Torfi og Linda Rakel
Mynd / Aðsend

Æskudraumur varð að veruleika

Parið stofnaði eigið fyrirtæki, ITS Transformation. „ITS notast við macros hugmyndafræði þar sem við einbeitum okkur að því að vigta og skrá niður allt sem við borðum yfir daginn og vinna með ákveðin grömm af næringarefnum, kolvetnum, próteinum og fitu á dag,“ segir Ingi Torfi.

„Hundruðir viðskiptavina hafa nýtt sér þjónustu okkar hvort sem það er til að létta sig, auka vöðvamassa, bæta orku og þrek, bæta sig í sinni íþrótt eða áhugamáli, byggja upp meira sjálfstraust og starfsþrek, vinna að jákvæðri hugsun og umfram allt auka þekkingu á næringu.“

„Við vorum bæði búin að aðstoða nokkra vini og vinkonur í gegnum okkar reynslu, en Ingi Torfi ákvað síðan að byrja með einn lítinn hóp í smáþjálfun. Að aðstoða fólk að ná sínum markmiðum gefur manni svo rosalega mikið og út frá þessum litla hóp fór boltinn að rúlla. Þegar hugurinn var alveg kominn í það að aðstoða og hjálpa fólki  tókum við ákvörðun um að stækka þetta og gera þetta saman og að okkar aðalvinnu,“ segir Linda Rakel.

Breytingunni að verða eigin herrar hefur fylgt gríðarlega mikil vinna, skipulag og mikið umbótarferli að þeirra sögn. Þrátt fyrir það ákváðu þau að láta æskudraum Inga Torfa rætast og gefa einnig út bók.

„Við ákváðum í samstarfi við útgefandann Heiðu Björk Þórbergsdóttur að gefa út bók. Bókaskrif er æskudraumur Inga Torfa,  en hann átti ekki von á því að það myndi endilega rætast og hvað þá með bók eins og þessari. Það er mikil vinna að skrifa bók og mikið skipulag, en með hjálp ótrúlegs fólk sem komu fram í bókinni og Heiðu varð þessi draumur að veruleika. Sala á bókinni, Betri útgáfan, hefur farið langt fram úr væntingum og þykir okkur afar vænt um það og erum stolt af verkinu.“

Lokaútkoma bókarinnar var þó allt önnur en upphaflega hugmyndin að þeirra sögn, því fyrst ætluðu þau að gefa út matreiðslubók. „Hugmyndin var fyrst að gera matreiðslubók til að hjálpa okkar fólki að græja sinn mat, macrovænan mat. Við vorum komin vel af stað með hana þegar Ingi Torfi fer að skellihlæja klukkan tvö  eina haustnóttina og ég vakna og spyr hann hvað sé í gangi,“ segir Linda Rakel.

„Þá segist hann vera kominn með enn betri hugmynd af bókinni og það sé best að skella þessum hugmyndum saman og gera svona lífstílshvatningarskipulagsmatreiðslubók. Við fengum okkar fólk með okkur í lið til þess að skrifa bókina með okkur, og  til þess að kveikja neista og von hjá lesandanum. Við höfðum verið og erum enn að vinna með svo frábæru fólki sem hefur breytt okkar lífi á margan hátt. Okkur fannst rakið að fá það með okkur í bókina, allar þessar fyrirmyndir  til þess að deila sínum sögum eða ráðum. Að vinna bók með svona frábæru fólki eru forréttindi og heiður.“

Betri útgáfan

Parið lét ekki bókarskrifin duga, því þau hafa einnig gefið út hlaðvarp. „Við erum búin að gefa út tvö hlaðvörp þar sem Ingi Torfi og Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpskona á K100 og hnefaleikakona, ræða sín á milli um allt milli himins og jarðar. Móttökurnar hafa verið frábærar og ætlum við að halda áfram með það. Frábært að hafa Kristínu Sif með okkur í þessu, endalaus gleði og gaman sem fylgir henni. Markmiðið er að gera eitt hlaðvarp í mánuði og fá til okkar flotta gesti.“

Eru fleiri draumar í vinnslu?

„Við eigum okkur alls konar drauma um að bæta okkar fyrirtæki og þjónustu og gera enn betur. Finna fleiri leiðir sem nýtast okkar fólki. Stefnan er tekin á þýðingu skjalanna okkar fyrir erlendan markað og sú vinna er hafin, enda fyrirspurnir farnar að berast. Okkur langar líka til að opna einhvers konar verslun eða þjónustu sem styður við okkar rekstur og áhuga á bættri heilsu.“

Sjá einnig: Ferðalag Söndru til betri árangurs: „Allir góðir hlutir krefjast fyrirhafnar“

CrossFit-samfélagið sterkt

Ingi Torfi og Linda Rakel eru bæði með góðan bakgrunn úr íþróttum, Linda Rakel úr fótbolta og fimleikum og Ingi Torfi úr fótbolta, körfubolta og golfi. Segja þau að þrátt fyrir að hafa verið í keppnisíþróttum frá barnsaldri þá hafi ræktin ein og sér ekki verið að ná að heilla þau að fullu. „Þegar við kynntumst svo CrossFit þá kviknaði aftur á keppnisskapinu og maður fór að tilheyra hóp. CrossFit-samfélagið er svo sterkt og við höfum bæði stundað CrossFit núna í tíu ár. Við höfum keppt á Íslandsmótum og víðar. Það má segja að ástríðan fyrir heilsu og metnaði fyrir því að bæta sig sé svo komin þaðan,“ segir Linda Rakel.

„Þegar maður stundar CrossFit „all in“ er maður tilbúinn að leggja inn ansi  mikla vinnu og gera erfiðu hlutina í hverri viku. 2016 tók ég eftir því að Katrín Tanja Davíðsdóttir CrossFit-keppandi fór að notast við aðferðafræði sem kallast macros í sínu mataræði og bætingarnar voru alveg geggjaðar og vann hún meðal annars heimsleikana í CrossFit sama ár. Ég þurfti auðvitað að gera það sama,“ segir Ingi Torfi og segir hann að árangurinn hafi ekki látið á sér standa. Áður en hann vissi af var hann búinn að vera að vigta og skrá niður matinn sem hann borðar í tvö ár. Segir hann að þetta hafi orðið að einskonar trúboðastarfi og nokkuð margir úr CrossFit-heiminum sem ákváðu að prófa aðferðina með aðstoð hans. Linda Rakel fór sömu leið eftir að hafa fylgst með Inga Torfa bera út boðskapinn.

„Ætli ég hafi ekki prófað alla kúra og föstur og það má kannski segja að fljótlega eftir að ég kynntist Inga Torfa hafi hann orðið mín fyrirmynd þegar kom að heilsu og mataræði. Hann talaði mikið um heilbrigðan lífsstíl og að hugsa vel um sig. Hann hefur til að mynda aldrei smakkað áfengi og gerir alls konar litla hluti fyrir sig sem hafa mögulega skilað honum því að hann er oft talinn mun yngri en hann er,“ segir Linda Rakel.

„Lykillinn er að hugsa vel um sig og leggja inn vinnuna því við erum alltaf að eldast og við viljum gera það vel.“

Alda María er fyrsti viðskiptavinur ITS. Á milli myndanna eru einungis 10 mánuðir. Alda er enn að nýta sér þjónustu ITS og er hvergi nærri hætt. Mynd / Aðsend

Hvaða ráð eruð þið með til þeirra sem þurfa aðstoð við heilsuna?

„Besta ráðið sem við getum gefið er að byrja smátt. Ekki flækja hlutina. Ekki lesa allar bækurnar, greinarnar og rannsóknirnar um hvað má og hvað má ekki. Það er of flókið til að byrja með og í raun vita fæstir hvað af því er rétt og hvað ekki. Kenningarnar eru í þúsunda tali. Það þarf að kveikja neistann og finna það sem mann langar að gera. Þetta byrjar þar,“ segja þau.

„Svo er að setja sér  plan sem hægt er að fylgja á markvissan hátt. Sigra það plan og auka þannig sjálfstraustið! Gera þetta smá saman en ekki stefna á að sigra heiminn fyrstu vikuna. Finndu þína styrkleika og notaðu þá frekar en að einblína á það sem þarf að bæta og maður er lélegur í. Fáðu aðstoð og ráðleggingar til að byrja. Oftast þarf að læra að hjóla með hjálparadekkjum,“ segir Ingi Torfi.

„Aðferðafræðin okkar sem við styðjumst við í mataræði er mælanleg og notumst við við tölur. Tölur ljúga ekki en tilfinningar og hugsanir geta gert það hjá okkur. Ef þú heldur þig við tölur og staðreyndir og vinnur með lausnir út frá því verður þú ansi góður í því og áður en þú veist af hefur þú lært helling út frá því að framkvæma og mæla. Við aðstoðum svo okkar viðskiptavini við að læra á þetta ferli og finna lausnir og umfram allt veita  aðhald og hvatningu. Það er í raun lykillinn að okkar mati. Vera hluti af samfélagi sem heldur utan um þig og að þurfa að skila af sér tölum og verkefnum til aðila sem þú treystir og veist að styður þig þegar á reynir,“ segir Linda.

Andlega heilsan skiptir máli

Aðferðafræði Inga Torfa og Lindu Rakelar tekur ekki einungis á líkamlegri heilsu, heldur er andlega heilsan ávallt hluti af ferlinu. Segja þau að andlega heilsan skipti máli og hafi áhrif á líkamann. Einnig segja þau hugleiðslu hafa hjálpað þeim mikið.

„Við erum bæði mjög hugsandi og höfum áhuga á því að bæta okkar líðan.Við höfum bæði fundið það að með því að ná tökum á hugsunum sínum líður manni betur. Við fundum leiðir sem veittu okkur gleði, létti, stolt og hamingju. Fórum að iðka þakklæti, hrósa fólkinu okkar, horfa á það jákvæða sem maður hefur og með því að gera það á skipulagðan hátt inn í sinni rútínu leið okkur betur. Með því að ná að breyta gömlum venjum og hugarfari ertu miklu líklegri til þess að komast út úr þeim vítahring sem þú ert fastur í og við könnumst öll við,“ segir Linda Rakel.

„Andlega heilsan hefur svo rosalega mikil áhrif á líkamann okkar og allskyns kvillar sem lagast þegar andlega heilsan er góð. Hugleiðsla var líka tæki sem hjálpaði okkur mikið og kom á mikilli ró og bætti einbeitingu,“ bætir Ingi Torfi við.

Þau segja heilsuna skipta miklu máli og að ekki sé endilega samasemmerki á milli þess að vera í mjög fóðu formi og líða vel, jafnvel síður en svo.

„Við þekkjum það bæði á eigin skinni. Eins höfum við  séð það margoft hjá okkar viðskiptavinum sem jafnvel hafa skarað fram úr á sínu sviði.  Að ná drauma markmiðum sínum án þess að vinna í sjálfum sér samhliða því skilar oft á tíðum ekki því sem maður bjóst við. Að standa einn upp á fjallstoppi getur kallað fram tómarúm eða jafnvel einmanaleika. Hvað svo? Er þetta allt og sumt? fer ég bara heim núna?,“ segir Ingi Torfi.

„Ef við vinnum í okkur sjálfum og njótum ferðalagsins á leiðinni áttum við okkur á því að ferðalagið er ekki með neinum endapunkti, það eru bara fleiri og fleiri spennandi áfangastaðir sem við ætlum að skoða á leiðinni,“ segir Linda Rakel.

„Okkar hugsun er: Nærðu þig og þjálfaðu hugann eins og þú þjálfar líkamann. Náðu tökum á huganum því það er hann sem er með þér alla daga alltaf. Vertu þinn besti vinur og talaðu fallega við sjálfan þig því þú ferð kannski í ræktina í klukkustund á dag, en ert með hugsunum þínum allan sólahringinn.  Mikilvægt er að gera þetta samhliða.“

Ingi Torfi og Linda Rakel
Mynd / Aðsend

Ingi Torfi og Linda Rakel
Mynd / Aðsend

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -