„Íslendingar í raun og veru sérfræðingar í áföllum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Það er greinilegt að áfallastjórnun hittir í einhvern stað hjá fólki. Viðbrögðin eru ótrúleg, fjöldi umsókna þegar komnar og fleiri en í nokkurt annað nám hjá okkur. Við vöktum athygli á náminu á Háskóladeginum í lok febrúar, en höfum ekkert auglýst,“ segir Njörður Sigurjónsson, deildarforseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst, um nýtt nám í áfallastjórnun sem hefst í haust.

Áföll eru samofin íslensku þjóðinni og síðustu áratugi hafa orðið mörg slík sem flestum eru í fersku minni og nokkur þeirra er þjóðin að takast á við í dag. „Nærtækust núna á undanförnum misserum er það COVID-faraldurinn sem er alþjóðlegt áfall. Loftslagsmál og slíkar ógnir, hryðjuverk, fjármálahrunið 2008 og það sem stendur okkur nær í tíma, skriðuföll á Seyðisfirði og ýmis vá sem ávallt virðist vofa yfir, svo ekki sé minnst á jarðskjálfta og tilvonandi eldgos á Reykjanesi,“ segir Njörður. (Athugið að viðtalið í blaðinu var tekið áður en gaus á Reykjanesi).

„Til viðbótar má minnast á eldgosið í Heimaey 1973 og snjóflóðin á Flateyri og Súðavík 1995. Sjálfur man ég vel eftir krapaflóðum á Patreksfirði 1983, þar sem ung stúlka sem ég þekkti lést. Það eru svona áföll sem fylgja manni alltaf og móta afstöðu manns. Maður veltir fyrir sér hvernig brugðist var við, hvernig var hægt að undirbúa fólk fyrir áfallið, hvað getum við gert betur og hvað getum við lært af slíkum áföllum.

Áfallastjórnun snýst ekki bara um að bregðast við heldur líka að meta áhættu fyrir fram, gera áætlun/anir um viðbragð og reyna að undirbúa jarðveginn þannig að við sem þurfum að takast á við áfallið séum ekki óundirbúin þegar það ríður yfir, þetta er stór hluti af áfallastjórnun. Varnir gegn áföllum, vega, meta, undirbúa, bregðast við, byggja upp eftir áföll og læra af þeim.“

En hvað kom til að þið ákváðuð að bjóða upp á þetta nám og af hverju núna?

„Við á Bifröst þekkjum til þessara fræða og langaði að taka utan um þau. Námið hefur hingað til ekki verið í boði á Íslandi en þekkist á Norðurlöndunum: í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og fólk hefur farið þangað og sótt sér þetta nám. Okkur rann bara blóðið til skyldunnar að efla þetta svið hér á landi. Okkur finnst Íslendingar í raun og veru sérfræðingar í áföllum og við ættum að vera að miðla og ekki síst að byggja upp þekkingu í faginu. Við viljum byggja upp rannsóknir, bæði í gegnum meistararitgerðir og rannsóknir fræðimanna.“

Á meðal kennara verður Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, sem ber veg og vanda af náminu að sögn Njarðar, en hún hefur kennt áfallastjórnun víða sem stutt námskeið. Að náminu er koma helstu viðbragðsstofnanir landsins, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og er námið unnið í samvinnu við þessar stofnanir.

„Við tökum námið á breiðum grundvelli og tengjum það forystufræðum, leiðtogafræðum, stjórnun og upplýsingastjórnun. Námið er byggt þannig upp að það ætti að höfða til fólks sem er að vinna á mörgum ólíkum stöðum, til dæmis í iðnaði, álverum, opinberri stjórnsýslu, skólakerfinu, en ekki síst ætti það að höfða til viðbragðsaðila og fólks sem kallað er til, eins og einstaklinga í sjálfboðastörfum.“

Flóðin sem ollu þjóðarsorg

Þann 26. október 1995 kl. 4.07 að nóttu féll snjóflóð á Flateyri þegar flestir íbúa voru í fastasvefni. Tuttugu létust, tíu karlar, sex konur og fjögur börn. Fjölmargir misstu ástvini sína, heimili og eigur sínar. En 45 manns lentu í flóðinu, 21 komst út af eigin rammleik, fjórum var bjargað. Íbúar sinntu björgunarstörfum, þar til fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang um sex klukkustundum síðar.

Þann 20. janúar 1995 kl. 6.30 að morgni féll flóð á Súðavík. Fjórtán létust, sex börn, þrjár konur og einn karlmaður. Alls var 12 bjargað, þeim síðasta, 12 ára dreng, tæpum sólarhring síðar. Flóðið var reiðarslag fyrir samfélagið.

Lestu viðtalið við Njörð í heild sinni í Vikunni, sem fæst á næsta blaðsölustað eða í áskrift.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -