2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Issey Miyake raunsær, elegant og framsækinn

  Issey Miyake er japanskur og hönnun hans ber merki þeirrar naumhyggju og hagnýts raunsæis sem einkennir þá fornu menningarþjóð. Hjá honum er engu ofaukið. Fatnaður hans og ilmvötn hafa yfirbragð ferskleika, tímaleysis og fágunar. Bæði karlar og konur falla fyrir hönnun Issey Miyake.

   

  Issey Miyake er draumóramaður, fæddur í Hiroshima þann 22. apríl 1938, þeirri borg sem fór hvað verst út úr seinni heimsstyrjöldinni. Hann nýtur þess hins vegar að skapa og byggja upp listræna hluti sem hafa hagnýtt gildi. Á japönsku þýðir nafnið Issey, eitt líf og Miyake, þrjú hús og kannski óhjákvæmilegt að maður sem ber þetta nafn sé skapandi listamaður. Hann hélt til Parísar tuttugu og sjö ára gamall og lærði þar tækni franskra tískuhönnuða og viðhorf vestrænna ríkja.

  Issey Miyake er fæddur í Hiroshima þann 22. apríl 1938.

  Starfsþjálfun sína fékk hann í New York og árið 1970, fullur orku og hugmynda eftir námið, stofnsetti hann fyrirtæki sitt the Miyake Design Studio í Tókýó. En þar komu saman ótal ungir framsæknir hönnuðir með svipaða listræna sýn og hann sjálfur. Hann er heillaður af tækni og þeirri framþróun er þar á sér stað og sýningar hans bera þess iðulega vitni.

  AUGLÝSING


  Telur sig vera heimsborgara

  Issey telur sig heimsborgara fremur en Japana, enda hefur reynsla hans og þekking á menningu austurs og vesturs nýst honum ótrúlega vel. Í bók sinni Austrið mætir vestrinu sýnir hann fram á að tískuhönnun sín byggir trausta brú milli þessara tveggja menningarheima og  hann þykir skynja kjarna beggja ákaflega vel. Einmitt sá skilningur gefur honum kjark til að nýta sér bæði hefðbundin mynstur Japans og vestrænna landa. Nefna má að eitt af því fyrsta er sló í gegn af hönnun hans voru venjulegir bómullarbolir með japönskum tattúmynstrum. Það vakti einnig athygli að hann kaus að nota hefðbundinn japanskan útsaum í föt með vestrænu sniði.

  Meðal þess sem hann hefur kosið að gera er að nota fellingar eða plíseringar á nýstárlegan og skemmtilegan hátt. Hann sagðist einnig hafa notfært sér þekkingu sína á vestrænni hugsun til að ímynda sér og skapa ilm vatnsins eða L‘eau d‘Issey. Þetta ilmvatn er á efa hans þekktasta og vinsælasta vara en glasið er glæsilegt og endurspeglar minningu Issey um tunglið eins og það birtist honum yfir Eiffelturninum.

  Ilmvötn Issey Miyake hafa notið mikilla vinsælda.

   

  Mikil vinátta skapaðist milli Issey og bresku leirlistakonunnar Dame Lucy Rie. Hún fæddist í Austurríki en flutti til Bretlands svo þau höfðu bæði reynslu af að byrja á nýju í öðru landi. Þau höfðu einnig bæði yndi af að stúdera form og setja hlutina í annað samhengi. Þegar hún lést arfleiddi hún að stóru safni keramíkmuna meðal annars ótal postulíns- og leirhnappa sem hann hefur síðan notað í föt sín. Hann var einnig náinn vinur Steve Jobs og kynni þeirra urðu til að þess að svarti rúllukragabolurinn komst aftur í tísku. Árið 1994 dró hann sig í hlé frá fyrirtæki sínu og lét Naoki Takisawa alveg um hönnunina. Sjálfur vildi Issey einbeita sér að rannsóknum. Þegar Naoki stofnaði eigið fyrirtæki árið 2007 var það í fullri sátt og Issey studdi hann fyrstu skrefin. Daj Fujiwara tók við sem hönnunarstjóri en nokkru síðar tóku þau Yoshiyuki Miyame við kvenfatalínunni og Yusuke Takahashi við karlmannafatnaðnum. Í dag er Issey yfirmaður 21 21 Design Sight-hönnunarsafnsins í Japan. Hann hefur hlotið mörg verðlaun fyrir verk sín, meðal annars Praemium Imperiale-verðlaun japanska listamannasambandsins.

  Japanski hönnuðurinn Yoshiyuki Miyamae er í dag yfirhönnuður tískuhúss Issey Miyake. Frá tískuvikunni í París. Mynd /EPA

  Hann fær innblástur úr dansi, arkitektúr, leiklist og ferðalögum. Í hönnun hans er að finna ótal þversagnir en þegar þær koma saman verður úr spennandi, þægileg, nútímaleg, einföld, frumleg og falleg vara en umfram allt hagnýt og einstaklega vönduð. Dásamlegur hönnuður sem gleður augað og nærir fagurkerann.

  Frá sýningu nýjustu sumarlínu tískuhúss Issey Miyake. Mynd / EPA

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is