2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ítölsk möndlukaka og Chai með viskíi

  Ertu að undirbúa jólaboð eða langar þig einfaldlega að skella í eitthvað góðgæti? Hvort heldur sem er, mælir Vikan með þessari  uppskrift að ítalskri möndluköku og ljúffengum Chai-drykk sem fer vel með kökunni.

   

  Á kaffihúsinu Kaktus Espressobar á Vitastíg fékk blaðamaður eitt það allrabesta cappuccino sem hann hefur smakkað og afar gómsæta möndluköku með. Honum fannst því ekki úr vegi að spyrja afgreiðsludömuna, og eigandann, Hildi Sigurðardóttur, hvort ekki væri hægt að plata hana til að gefa lesendum Vikunnar, og blaðamanni auðvitað, uppskriftina að kökunni góðu. Til allrar hamingju var svarið já og auk þess gefur Hildur uppskrift að chai-drykk sem hún segir passa afar vel með möndlukökunni.

  Ítölsk möndlukaka með espressó

  170 g smjör
  170 g sykur
  3 egg
  1/2 tsk. möndludropar
  100 g fínhakkaðar möndlur
  4 msk. sterkt kaffi
  100 g hveiti
  1 tsk. lyftiduft

  AUGLÝSING


  Kurl á toppinn
  60 g hveiti
  40 g púðursykur
  40 g smjör

  Mynd // Hallur Karlsson

  Hitið ofninn í 150°C. Smyrjið djúpt smelluform, um 20 cm. Hrærið saman smjör og sykur í stórri skál þar til blandan er ljós og mjúk. Bætið við eggjum, einu í einu, og hrærið saman. Bætið við möndludropum, fínhökkuðum möndlum og kaffi. Sigtið saman hveiti og lyftiduft og bætið í skálina. Hrærið saman. Hellið deiginu í smelluformið og jafnið með sleif.
  Kurl: Blandið saman hveitinu, púðursykrinum og smjörinu með fingrunum þar til orðið að grófri mylsnu og stráið kurlinu yfir deigið.
  Bakið í 50-60 mínútur eða þar til hægt er að stinga trépinna eða prjóni í kökuna og hann kemur hreinn upp úr. Berið fram með þeyttum rjóma eða mascarpone-kremi.

  Mascarpone-krem
  1 1/4 bolli (300 ml) rjómi
  3/4 bolli (80 g) flórsykur
  1 tsk. vanilludropar
  1 bolli (225 g) mascarpone-ostur

  Hrærið saman rjómann, flórsykurinn og vanilludropana þar til það verður mjúkt og samfellt. Bætið við mascarpone og hrærið þar til stífir toppar myndast.

  Mynd // Hallur Karlsson

  Möndlu-chai með viskíi og appelsínu
  fyrir 2

  2 bollar sæt möndlumjólk
  1 bolli sterkt chai-te
  60 ml viskí (má sleppa)
  30 ml appelsínusafi

  Skiptið viskíinu (ef það er notað) og appelsínusafa í 2 bolla. Hitið möndlumjólkina og chai-te saman í potti. Hellið mjólkurblöndunni yfir í bollana. Skreytið með rjóma ef vill, appelsínusneið og kanilstöng.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is