Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Jafnrétti kynjanna er byggðamál

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Ölfu Jóhannsdóttur

Lengi hefur verið bent á versnandi stöðu kvenna í dreifbýli, bæði í greinargerðum Byggðastofnunar og byggðaáætlunum sem settar eru fram í þeim tilgangi að auka jafnrétti og styrkja stöðu kvenna. Einhæfir atvinnuhættir og lægri laun á landsbyggðinni gera enn fremur menntuðum konum erfitt fyrir að velja sér búsetu þar. Þá hefur einnig verið sýnt fram á mikilvægi þess að vinnumarkaður höfði til beggja kynja upp á að jafnvægi kynja í byggðunum haldist.

Samkvæmt Hagstofu Íslands er atvinnuþátttaka karla og kvenna á og utan höfuðborgarsvæðisins mjög sambærileg. Árið 2019 var atvinnuþátttaka karla utan höfuðborgarsvæðisins rúmlega 81% og atvinnuþátttaka kvenna rúmlega 76%. Hins vegar var óleiðréttur launamunur kynjanna rúm 15% árið 2017 og voru háskólamenntaðar konur með tæplega 72% af meðalatvinnutekjum karla með sömu menntun á meðan tekjur kvenna með framhaldsskólamenntun voru tæplega 65% af meðaltekjum karla.

Við höfum líklega öll heyrt talað um kynjaskiptingu á vinnumarkaði sem bæði lóðrétta og lárétta og örugglega margir sem átta sig ekki á þunga þeirra skilgreininga. Lárétt skipting á við um það að kynin gegni ólíkum störfum og að kynjaskipting milli starfsgreina sé áberandi en lóðrétt skipting á við um launamun kynjanna, vísar til ójafnaðar kynjanna á vinnumarkaði og að karlmenn séu töluvert fjölmennari í áhrifastörfum innan fyrirtækja og stofnana en konur.

Í kjölfar iðnvæðingarinnar á 20. öld óx umfang þjónustustarfa töluvert en undir þau heyra fjölmörg störf sem hingað til hafa verið skilgreind sem hefðbundin kvennastörf. Þar á meðal verslun og þjónusta ásamt almennum skrifstofu-, umönnunar- og kennslustörfum sem hafa í auknum mæli færst út af heimilunum. Hin hefðbundnu karlastörf samanstanda frekar af sérhæfðari störfum sem gefa meiri möguleika á lóðréttum hreyfanleika eins og hærri launum. Konur eru hins vegar í miklum meirihluta þeirra sem sinna þjónustu- og umönnunarstörfum þar sem minni möguleikar eru á launa- og stöðuhækkunum. Það er einnig mikill munur á fjölda karla og kvenna í stjórnunarstöðum og má telja það til veikleika samfélaganna og hamlandi fyrir þróun þeirra.

Í ljósi stöðunnar á landinu, í skugga kórónuveirunnar, hefur atvinnuleysi aukist jafnt og þétt í öllum landshlutum yfir árið og spáir Vinnumálastofnun sögulegu atvinnuleysi á Suðurnesjum í lok árs 2020, eða allt að 24%. Á Suðurlandi og á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi er hæst, er þungi atvinnu í verslun og ferða- og gistiþjónustu.

- Auglýsing -

Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að konur verða fyrir meiri áhrifum en karlar af félagslegum og efnahagslegum þáttum faraldra, líkt og þeim sem nú skekur heimsbyggðina. Konur bera enn þá þungann af umönnun barna þegar skólar lokast og fjölskyldumeðlimir veikjast. Til að stuðla að eflingu byggðar er nauðsynlegt að styrkja stöðu kvenna í smærri byggðarlögum en atvinna vegur hvað þyngst þegar kemur að búsetuvali fólks. Þess vegna eru jafnréttismál mikilvægur hluti byggðaþróunaraðgerða og jafnrétti kynjanna sannarlega byggðamál.

Gögnum í þessa grein var aflað með upplýsingum fengnum frá Hagstofu Íslands, Vinnumálastofnun og úr eigindlegri rannsókn höfundar; Hið kvenlæga dufl.

Höfundur er sérfræðingur á Þróunarsviði hjá Byggðastofnun og FKA-félagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -