2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Jólamatur frá öllum heimshornum

  Jól eru haldin hátíðleg víða um heim, jafnvel í löndum sem eru ekki kristin. Matarhefðirnar eru því jafnmismunandi og þær eru margar.

   

  Eþíópía

  Í Eþíópíu fastar fólk í fjörutíu daga fyrir jól. Það borðar aðeins eina máltíð á dag og sú máltíð er í þokkabót algjörlega vegan vegna þess að allar dýraafurðir eru bannaðar á föstunni. Þegar jólin renna loksins í garð, þann 6. janúar, fagna þeir hátíðinni með kjúklingi, skornum í tólf bita sem tákna lærisveinana, og tólf eggjum sem tákna eilífðina.

  Kína

  AUGLÝSING


  Jólahátíðin er ekkert stórmál í Kína en þar hefur engu að síður myndast skemmtileg hefð. Kínverjar gefa nefnilega hver öðrum epli í aðdraganda jólanna og þau eru iðulega fallega innpökkuð í sellófan. Þetta hljómar ef til vill frekar handahófskennt en á sér mjög einfalda skýringu – kínverska orðið yfir epli, ping an ye, hljómar í töluðu máli svipað og kínverska orðið fyrir aðfangadagskvöld, ping guo.

  Ítalía

  Á suður-ítölskum heimilum hefur skapast sú hefð að borða aðeins sjávarfang á aðfangadagskvöld. Þessi hefð kallast Vakan, La Vigilia, og táknar biðina eftir fæðingu Krists á miðnætti. Meðal Ítala í Bandaríkjunum hefur hún hins vegar fengið nafnið Sjö fiska veisla, Feast of the Seven Fishes, og oftar en ekki eru sjö mismunandi fiskréttir á boðstólum og allavega einn saltfiskréttur.

  Baccalà alla Vesuviana

  900 g saltfiskur, úrbeinaður og roðlaus, helst þorskur
  2 msk. kapers
  7 msk. extra virgin-ólífuolía
  1 meðalstór laukur, fínt saxaður
  4 ½ tsk. chili-flögur
  1 dós heilir niðursoðnir tómatar
  1 tsk. salt
  4 tsk. steinselja, grófsöxuð
  4 tsk. fersk mynta

  Skerið saltfiskinn í u.þ.b. 10 cm stykki. Hitið 3 msk. af olíu í stórum potti og steikið laukinn þar til hann er mjúkur og gylltur. Bætið chili-flögum, kapers, tómötum og salti saman við. Notið sleif til að merja tómatana í pottinum. Náið upp vægri suðu og bætið þá fisknum út í þannig að sósan umlyki hann alveg. Blandið steinselju og myntu út í. Leyfið að krauma án loks í um það bil 5 mín. eða þar til saltfiskurinn er eldaður í gegn. Veiðið fiskstykkin upp úr og setjið á disk. Bætið 3 msk. af ólífuolíu saman við sósuna og ausið yfir fiskinn. Skreytið með ferskri myntu.

  Þýskaland

  Rætur þýska stollen-jólabrauðsins liggja allt til 16. aldar þegar það var gefið sem jólagjöf á þýskum heimilum. Þetta brauð er stútfullt af þurrkuðum ávöxtum og marsípani. Deigið líkist einna helst brioche-deigi, bæði dúnmjúkt og sætt. Flórsykri er stráð yfir brauðið áður en það er borið fram með smjöri.

  Hefðbundið stollen-brauð

  500 g hveiti
  1 tsk. lyftiduft
  200 g sykur
  1 tsk. vanillusykur
  örlítið salt
  1 tsk. möndludropar
  3 msk. dökkt romm
  rifinn börkur af ½ sítrónu
  kardimommur og múskat á hnífsoddi
  2 egg
  175 g smjör
  250 g skyr, hreint og óhrært
  125 g rúsínur
  125 g kúrennur
  125 g valhnetur, muldar
  50 g súkkat
  250 gr marsípan
  smjör
  flórsykur

  Stollen-brauðið er stútfullt af þurrkuðum ávöxtum og marsípani.

  Öllum hráefnum deigsins blandað saman og hnoðað. Skiptið deiginu í tvennt fyrir tvö Stollen-brauð eða bakið eitt stórt. Deigið er flatt út í ílangan ferning, um 1-2 cm á þykkt. Marsipaninu er pakkað inn í deigið með þessum hætti: Skerið marsipanið í strimla og leggið langsum á miðju ferhyrningsins, en ekki alveg út að enda.

  Brjótið fyrst upp á endana og leggið síðan hliðarnar yfir marsipanið – fyrst aðra og síðan hina, og mótið með höndunum svo úr verði fallegt brauð. Látið samskeytin snúa upp. Bakið við 175°C í 1- 1  1/2 klst., fer eftir stærð brauðsins. Takið úr ofninum og makið brauðið með smjöri á meðan það er heitt og tekur við smjörinu. Stráið flórsykri yfir. Stollen geymist vel og er því hægt að baka það þónokkru fyrir jól.

  Sumir segja að það batni með aldrinum. Sigtið meiri flórsykur yfir brauðið rétt áður en það er borið fram.

  Mexíkó

  Í Mexíkó er meginhátíðardagur jólanna ekki fyrr en 6. janúar og kallast sá dagur ‚El Dia de los Reyes‘ sem útleggst sem dagur þriggja konunga, en hátíðin er til heiðurs vitringunum þremur sem heimsóttu Jesú. Á þessum degi borða fjölskyldur sérstaka köku, Roscòn de Reyes. Í kökunni er yfirleitt falin lítil postulínsfígúra af Jesú og sá heppni sem finnur hana í sinni sneið er guðforeldri Jesús það árið og þarf oftar en ekki að halda veislu honum til heiðurs.

  Rússland

  Eins og víða kjósa margir Rússar að fasta fram á aðfangadagskvöld og fyrsta stjarnan sést á himnum. Þá borða þeir yfirleitt Sochivo sem er grautur úr hveitikorni, byggi eða hrísgrjónum og borinn fram með hunangi, þurrkuðum ávöxtum, hnetum og fræjum. Grautur hefur sérstaka merkingu í rússneskri menningu og táknar samheldni, en hér á árum áður var vaninn að heimilsfólk slengdi einni skeið af graut upp í loft og ef hann festist þýddi það heppni og góða uppskeru.

  Sochivo

   2 bollar hveitikorn
  ½ bolli hunang
  1 bolli  birkifræ
  1 bolli valhnetur
  salt eftir smekk

  Setjið hveitikorn í sjóðandi vatn. Komið upp suðu, hellið vatni af, skolið með köldu vatni og setjið aftur í pott með vatni. Komið aftur upp suðu, lokið pottinum með loki eða álpappír og setjið hann inn í ofn á 160° hita þar til kornið er orðið mjúkt. Takið út úr ofninum og kælið niður í stofuhita. Bætið birkifræi, valhnetum, hunangi og salti saman við.

  Jamaíka

  Jamaíka er þekkt fyrir sérstaka gerð af krydduðu rommi svo það kemur engum á óvart að helsta jólamatarhefð þeirra innihaldi romm. Þar er gerð sérstök ávaxtakaka með ávöxtum sem hafa staðið í blöndu af rauðvíni og rommi í marga mánuði svo kakan er einstaklega mjúk og safarík, svo ekki sé minnst á, hættulega áfeng.

  Svíþjóð

  Eins og hér á landi borða Svíar meginjólamáltíðina á aðfangadagskvöld og oftast er það hlaðborð sem kallast einfaldlega julbord, með bæði köldum og heitum réttum. Aðalrétturinn er þó að sjálfsögðu sænsk jólaskinka.

  Sænsk jólaskinka

  3 kg léttsöltuð skinka, úrbeinuð eða með beini
  5 msk. sænskt sinnep
  3 msk. ljóst franskt sinnep
  1 msk. kartöflumjöl
  1 egg
  1 tsk. ólífuolía
  rasp
  negulnaglar

  Svíjar borða gjarnan skinku á aðfangadag.

  Skolið skinkuna undir köldu vatni og stillið ofninn á 170°. Leggið skinkuna á stóra tvöfalda álpappírsörk og pakkið henni vandlega inn. Stingið síðan kjöthitamælinum inn í þykkasta hluta vöðvans. Ef skinkan er með beini má ekki stinga nálægt beininu.

  Setjið skinkuna í ofnskúffu eða opinn steikarpott í neðsta þrep í ofninum. Hafið hana í ofninum þangað til mælirinn sýnir 74°C. Ætla má að steikingartíminn sé 45 mín. – 1 klst. fyrir hvert kíló af kjöti. Að eldun lokinni flettið húðinni ofan af fitulaginu á steikinni og skerið rákir langsum og þversum í fitulagið með hvössum hnífi. Blandið sinnepi, kartöflumjöli, eggi og olíu vel saman og smyrjið yfir fitulagið á skinkunni.

  Stráið raspinu og raðið negulnöglum í skurðarpunktana í fitulaginu, einn í hvern punkt. Skinkan er síðan sett aftur inn í ofn á grillstillingu og grilluð þangað til hún verður fagurlega gullinbrún, en það tekur u.þ.b. 15 mín. við 225°C.

  Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is