Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Kærasti minn varð mjög hissa þegar ég brotnaði niður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hef verið með búlimíu í fjögur ár. Fyrir fimm árum kynntist ég strák og við höfum nú verið trúlofuð í ár. Hann er þrjóskur og ákveðinn og í hvert skipti sem við deilum endar það ævinlega með því að ég verð að biðjast afsökunar jafnvel þótt hann eigi sökina. Þetta hefur leikið mig þannig að ég er farin að taka átköst og kasta síðan upp.

Við búum núna sitt í hvoru lagi en bjuggum saman þar til fyrir nokkrum vikum að mamma krafðist þess að ég kæmi heim til sín og við tækjum okkur hvíld hvort frá öðru. Mamma var farin að hafa áhyggjur af mér. Við tölum samt saman á hverjum degi og hann hefur verið ofboðslega leiðinlegur við mig síðan ég flutti út.

Það er kannski ágætt að rekja símtal á milli okkar því það er lýsandi fyrir þá hegðun sem særir mig hvað mest. Við vorum að spjalla saman og gera framtíðaráætlanir en við eigum okkur draum sem við tölum oft um. Að þessu sinni tók hann lítið undir með mér og svaraði eiginlega út í hött. Ég spurði hvað væri að en fékk engin almennileg svör. Þá sagðist ég ekki nenna að tala við hann ef hann gæti ekki talað við mig á notalegum nótum. Hann baulaði á mig og ég skellti á.

Beið eftir símtali sem ekki kom

Ég beið í dágóða stund eftir að hann hringdi aftur í mig en hann hringdi ekki. Að lokum gafst ég upp og hringdi. Hann svaraði ekki í símann. Ég hringdi nokkrum sinnum þetta kvöld en hann svaraði aldrei. Ég sendi honum þá SMS og bað hann að svara mér eða hringja strax því ég þyrfti að tala við hann en ekkert heyrðist frá honum. Mamma sagði mér að láta hann vera og sagði að ef hann léti ekki í sér heyra þá hefði hann greinilega engan áhuga á mér.

Mér leið hroðalega illa en ég fór að ráðum mömmu og lét hann í friði í tvo daga. Ég gekk um með hnút í maganum og gat ekkert borðað. Ég er í skóla og átti mjög erfitt með að einbeita mér að lestrinum. Mamma sá hversu hræðilega mér leið og á endanum hringdi hún í hann og spurði hvort hann ætlaði að láta samband okkar enda svona. Hann sagðist ekki ætla að ræða það við hana. Hún spurði hann þá hvort hann vildi ekki ræða það við mig og hann svaraði því játandi.

- Auglýsing -

Þegar ég kom í símann skellti hann á. Ég sendi SMS og bað hann um að hringja þegar hann gæti. Mörgum klukkutímum seinna hringdi hann og þá var ég hágrátandi. Ég skammaði hann fyrir að hafa ekki svarað mér og fyrir að fara svona illa með mig. Það eina sem hann sagði var: „Þú skelltir á og að skella á einhvern er helber dónaskapur. Auk þess er það varla til marks um að maður vilji tala við viðkomandi þess vegna svaraði ég ekki þegar þú hringdir.“ Ég sagði honum að mér hefði sárnað við hann og spurði hvort það skipti engu máli. Þá sagði hann: „Ég nenni ekki að standa í svona þvargi og kjaftæði.“

Baðst afsökunar

Þetta samtal endaði með því að ég bað hann afsökunar á að hafa skellt á hann og sagðist hafa hegðað mér eins og asni. Hann sagði þá að við skyldum bara gleyma þessu. Næstu daga á eftir var samband okkar sæmilega eðlilegt. Núna er samband okkar þannig að alltaf þegar ég krefst einhvers og fer fram á að hann sýni mér athygli og hlýju þá enda samskiptin einhvern veginn svona. Það er alltaf ég sem leita sátta og ég þarf ævinlega að brjóta odd af oflæti mínu.

- Auglýsing -

Samband okkar er oft gott og hann getur verið mjög góður við mig. En það er einhvern veginn ekki nokkur leið að tala við hann eða útkljá deiluefni. Í hvert skipti sem það er reynt fer hann í fýlu og lokar sig af. Hann neitar iðulega að tala við mig og honum virðist vera alveg sama þótt ég hafi ekkert samband við hann. Mér finnst hann aldrei neitt miður sín þótt allt hafi farið í kalda kol á milli okkar og það að ég fór heim til mömmu hefur ekki orðið til þess að bæta samskiptin.

„Mér leið hroðalega illa en ég fór að ráðum mömmu og lét hann í friði í tvo daga“

Ég á mjög erfitt með að skilja hvernig hann getur lokað sig gjörsamlega frá öllu. Þegar við rífumst eða eitthvað kemur upp á finnur hann ekki fyrir því. Mamma heldur að það sé vegna þess að honum sé alveg sama um mig. Ég trúi ekki að það sé rétt. Hann hjúfraði sig iðulega að mér á næturnar og hvíslaði að mér hversu vænt honum þætti um mig og sagðist ekki geta verið án mín. Ég held að það sýni að hann elskar mig. Hann á hins vegar mjög erfitt með að ræða málin og leysa deilur. Ef einhver er ekki á sömu skoðun og hann þá finnst honum það til marks um að viðkomandi sé á móti honum.

Borðaði og kastaði upp á víxl

Vegna þessa var ég farin að borða á mjög óeðlilegan hátt. Þetta byrjaði með því að ég vildi grenna mig. Ég hélt kannski að kærastinn yrði ánægðari með mig ef ég væri svolítið grennri. Ég nennti ekki að stunda líkamsrækt og mér datt í hug að sniðugt væri að stinga puttanum ofan í kok og æla þegar ég hafði borðað of mikið. Þannig gæti ég borðað það sem ég vildi en samt grennst. Fljótlega fór ég að grennast en þetta átmynstur varð að áráttu. Mér fór að líða einhvern veginn betur við það að borða og æla svo gjörsamlega öllu. Stundum gerði ég þetta oft á dag.

Ég fór út í búð á kvöldin og keypti alls konar sætindi, kökur, kex og nánast allt sem hönd á festi. Stundum keypti ég meira að segja beikon og alls konar feitmeti, eldaði það og át. Um leið og ég var búin að borða fór ég inn á klósett og ældi og ældi. Ég var farin að finna fyrir máttleysi og vanlíðan en það varð ekki til þess að ég hætti þessu. Það var bókstaflega eins og ég réði ekki neitt við neitt. Mamma tók eftir að eitthvað væri að en ég reyndi að halda þessu leyndu. Kærasti minn tók hins vegar ekki eftir neinu og hann varð mjög hissa þegar ég brotnaði niður og játaði fyrir mömmu hvað ég hefði verið að gera.

Mamma krafðist þess þá að ég kæmi heim með sér og sagði við kærastann minn að það yrði að taka á þessu máli og best væri að ég væri hjá sér meðan verið væri að vinna í þessu því hún gæti þá betur fylgst með mér. Hann sagði ekkert en ég sá að honum mislíkaði. Hann talaði samt við mig og var reglulega almennilegur fyrstu dagana eftir að ég kom til mömmu. Að undanförnu hefur sambandið hins vegar versnað og hann verður alltaf leiðinlegri og leiðinlegri við mig.

Á réttri leið

Í gær var liðinn mánuður síðan ég kastaði upp seinast. Ég er líka farin að stunda líkamsrækt og mamma kom mér í samband við næringarráðgjafa sem hefur búið til matseðil handa mér. Ég fer eftir því sem ráðgjafinn segir og þetta gengur bara ágætlega. Ég er í mun betra formi en áður og líkaminn lítur vel út. Ég var farin að fá bjúg og var þess vegna oft bólgin og þrútin í framan og á höndum og fótum. Það er alveg horfið. Næringarráðgjafinn hefur sagt mér hvað ég get gert líkama mínum með því að borða ekki og m.a. sagði hann mér að ég gæti eyðilagt tennurnar í mér með því að kasta svona mikið upp.

„Hann sagði ekkert en ég sá að honum mislíkaði. Hann talaði samt við mig og var reglulega almennilegur fyrstu dagana eftir að ég kom til mömmu.“

Mamma vildi að ég færi til sálfræðings en ég hef enn ekki viljað fara. Ég vil frekar reyna að gera þetta sjálf. Mér finnst þetta ganga óskaplega vel og þrátt fyrir deilur milli mín og kærastans hef ég ekki fallið og farið að borða eins og vitleysingur. Ég held að mamma vilji að ég hætti með kærastanum mínum og hún haldi að sálfræðingur geti talið mig á það. Ég er hins vegar ekki tilbúin að gefast upp á honum strax. Hann hefur beðið mig að koma til baka og búa með sér en ég sagði nei. Ég finn að ég er enn ekki nógu sterk til þess.

Hvort ég verð það einhvern tíma á bara eftir að koma í ljós. Ég veit að mamma hefur rétt fyrir sér þegar hún segir að karlmenn sem raunverulega séu ástfangnir af konum sýni það þannig að ekki verði um villst. Hún telur að kærasti minn vilji bara stjórna mér og fýlan sé hans tæki til þess. Ég veit að þetta er rétt en okkur líður samt oftast það vel saman að ég trúi því að þessu sé hægt að breyta og að við getum fundið leið til að tala saman og leysa okkar mál.

Hægt er að hlusta á Lífsreynslusögur Vikunnar á Storytel. Guðrún Óla Jónsdóttir, Gógó, blaðamaður hjá Vikunni, les upp lífsreynslusögur sem sendar hafa verið inn í blaðið í gegnum tíðina og sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Ekki missa af því þegar nýr þáttur af Lífsreynslusögum fer í loftið í viku hverri – fylgstu með okkur á Facebook.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -