2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Kæri Póstur!

  Margir muna enn Póstinum sem var fastur þáttur í Vikunni í mörg ár. Þangað gátu lesendur skrifað og leitað svara við margvíslegum spurningum en það var auðvitað ómetanlegt fyrir daga google. Þar var einnig að finna stuðning og ráð í mjög viðkvæmum einkamálum.

  Pósturinn var vitur og góður vinur. Honum mátti trúa fyrir ástamálum, spyrja viðkvæmra spurninga á borð við hversu eðlilegt væri að fjórtán ára stúlka væri með stór eða lítil brjóst eftir atvikum í hverju tilviki. Spurningar um blæðingar voru líka algengar, óléttu og auðvitað ástina. Var til dæmis hægt að lesa það úr svip stráka hvort þeim litist vel á stelpu? Var í lagi að kyssa einhvern annan en kærastan á balli og ef það kom fyrir átti maður að segja honum það umsvifalaust?

  Hver var svo afstaða Póstsins til þess að stelpur stigu fyrsta skrefið í að reyna við strák? Þetta og margt fleira sóttust unglingar eftir að fá að vita fyrir um það bil þrjátíu til fjörutíu árum. Pósturinn var án efa eitt vinsælasta efni blaðanna á þeim tíma og vitnað var í bréf hans og svör í þáttum fyrir unglinga á borð við Lög unga fólksins og Vinsældalista Rásar 2.

  Pósturinn varð ekki til í tómarúmi. Erlendis voru þeir blaðamenn er stóðu að baki dálkum af þessu tagi kallaðir Agony Aunts eða angistarfrænkur.

  En Pósturinn varð ekki til í tómarúmi eða vegna þess að hér á landi væri svo mikil þörf fyrir efni af þessu tagi. Erlendis voru þeir blaðamenn er stóðu að baki dálkum af þessu tagi kallaðir Agony Aunts eða angistarfrænkur. Þær gengu undir ýmsum nöfnum og voru misvinsælar. Dear Deirdre hjá The Sun í Bretlandi átti sér stóran aðdáendahóp, unglingablöðin Jackie og Just Seventeen státuðu af Cathy and Claire og Melanie MacFadyean. Þær áttu sitt blómaskeið á svipuðum tíma og Pósturinn hér og bréfin streymdu inn.

  AUGLÝSING


  Eldgömul saga

  Saga angistarfrænknanna nær þó mun lengra aftur eða alveg til ársins 1691. Ungur maður John Dunton að nafni átti í ástarsambandi fram hjá konunni sinni og leið ýmsar samviskukvalir. Hann þráði heitar en nokkuð annað að geta leitað ráða en gat ekki tekið þá áhættu að upp um hann kæmist. Hann var prentari og bóksali gerði sér þess vegna lítið fyrir og stofnaði dagblað, the Athenian Gazette og bauð lesendum að senda inn bréf.

  Viðbrögðin voru slík að John neyddist til að ráða fólk af báðum kynjum til að svara. Vandi sem ritstjórar annarra tímarita áttu einnig eftir að glíma við. Um það bil árið 1740 var hins vegar orðið ljóst að konur voru vinsælli ráðgjafar og Mrs Eliza Haywood og Miss Francis Moore, ritstjórar kvennatímaritanna The Female Spectator og The Old Maid svöruð sjálfar lesendum sínum.

  Blómaskeið þessarar tegundar blaðamennsku hófst á hinn bóginn um miðja nítjándu öld. Um það leyti varð læsi almennara og í kjölfarið spruttu upp sífellt fleiri blöð og tímarit. Frá upphafi hafa svarendur bréfanna verið mismundandi hvassyrtir og hreinskilnir. Margir svöruðu undir tilbúnu nafni og áberandi að þeir leyfðu sér meira en hinir. Íslenski Pósturinn var ævinlega ómyrkur í máli og sagði fólki hiklaust til syndanna gæfi erindi bréfsins tilefni til. Lesendur voru líka oftast nafnlausir og í skjóli þess gátu þeir spurt áleitnari spurninga.

  Margt var líka háð tíðarandanum til að mynda má nefna að William Alcott svaraði lesanda á seinni hluta nítjándu aldar og benti á að fjármál ættu aldrei að skipta mestu við val á maka heldur væri ástin ávallt aðalhreyfiaflið í þeim málum. Þetta var í samræmi við þær breytingar sem voru að verða á viðhorfum samfélagsins til hjónabands. Jane Austin skrifaði á svipuðum tíma sínar þekktu skáldsögur Pride and Predjudice, Emmu og Northanger Abbey.

  Tveir vatnsdropar renna saman

  Alice Stockham annar dálkahöfundur skrifar árið 1886 að ef hjón stundi kynlíf meðan konan sé barnshafandi geti það haft eyðileggjandi áhrif á siðferðiskennd ófædda barnsins og því borgi sig að forðast slíkt. Á tuttugustu öld urðu spurningarnar um kynlíf opinskárri og svörin sömuleiðis. Dr. HW Long lýsti kynlífi samlyndra hjóna á þann veg að það væri eins og tveir vatnsdropar rynnu saman og yrðu að einum, líkamar og sálir þátttakenda í athöfninni sameinuðust í einingu og alsælu svo fullkominni að engin sambærileg reynsla byðist manneskjum í heiminum. Hann gaf líka iðulega tilsögn í hvernig menn gætu náð sem mestri ánægju út úr kynlífi og nefndi stellingar, takt, hreyfingar og fleira og nefna má að hann talaði um 45 gráðu halla þar sem líkamarnir mætast væri líklegastur til að veita báðum jafnmikla ánægju.

  Þrátt fyrir þessa frjálslegu umræðu í byrjun aldarinnar áttu lesendadálkarnir eftir að valda fjaðrafoki miklu síðar. Nefna má að sextán ára stúlka skrifaði árið 1995 til angistarfrænku TV Hits og spurði hvað munnmök væru. Viðkomandi blaðamaður tók spurninguna alvarlega, svaraði og lýsti fyrir stúlkunni hvað fælist í orðinu og bað hana að fara varlega ef einhver krefðist þessa af henni. Svarið varð til þess að tímaritið var bannað í ótal matvöruverslunum meðal annars Sainsbury, Tesco Asda og Safeway. Undarlegt í ljósi þess að á sama tíma var Cosmopolitan til sölu og fyrirsagnir á forsíðunni margar bersöglari en nokkuð sem kom fram í svarinu.

  Þörf fyrir hjálp

  Þótt margir hafi sett upp þóttasvip og fussað þegar Pósturinn í Vikunni var nefndur er staðreyndin sú að þeir sem svöruðu bréfum til hans gerðu mikið gagn engu síður en Peggy Makins hjá Woman, hún vann fyrir tímaritið á sjötta áratug síðustu aldar og mælti með að konur skipulegðu barneignir og nýttu sér þær getnaðarvarnir sem voru að koma á markað.  Marje Proops hjá Daily Mirror talaði fyrir réttindum samkynhneigðra, hvatti til kynfræðslu í skólum og benti örvæntingarfullum bréfriturum á hjálparsíma, ráðgjafa, sálfræðinga og sjálfshjálparhópa.

  Clare Rayner vann áratugum saman fyrir Women’s Own og fleiri tímarit og í sjálfsævisögu sinni talar hún um hvernig hún lagði sig fram um að svara öllum bréfum af yfirvegun og alvöru. Hún reyndi að skilja að í hugum bréfritara voru þetta raunveruleg vandamál hvort sem spurningin snerist um lafandi brjóst eða kynóra. Að ekki sé talað um öll hjónabandsvandkvæðin. Hún leitaði sér upplýsinga víða, að eigin sögn, og leitaðist við að svara af eins mikilli þekkingu og skilningi og mögulegt væri.

  Undir orð hennar tekur Virgina Ironside, en hún hefur unnið fyrir Sunday Mirror, Independent og fleiri. Hún bendir á að fyrir tíma Netsins hafi þær verið ein áreiðanlegasta uppspretta upplýsinga sem ungt fólk hafði aðgang að. Þær höfðu einnig til að bera siðferði, samvisku og fagmennsku. „Við vorum einstaklega öflug upplýsingaveita,“ segir hún. „Við gáfum ekki bara ráð heldur vorum raunverulega hjálplegar.“

  Staðreyndin er samt sem áður sú að enginn skrifar til Póstsins eða annarra angistarfrænkna nema hann geti ekki snúið sér neitt annað. Þörfin fyrir nafnleysi verður til vegna þess að viðkomandi býst ekki við að mæta skilningi opni hann sig og ræði það sem hvílir á honum. Líklega telja flestir að lítil þörf sé fyrir dálka af þessu tagi núorðið þegar hægt er gúgla allt og fátt sem telst feimnismál. En enn eru nokkrar angistarfrænkur starfandi hjá vinsælum tímaritum víða um heim.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is