• Orðrómur

Kaktusar og kaffisopi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Gamall draumur tveggja samstarfskvenna um að eignast lítið kaffihús með góðu ítölsku kaffi rættist fyrr á árinu þegar þær opnuðu Kaktus Espressobar. Þar selja þær ekki bara gott kaffi og með því, heldur líka pottablóm. Og, eins og nafnið kannski gefur til kynna, kaktusa.

Hildur Sigurðardóttir og Sonja Helena Gunnarsdóttir kynntust þegar þær unnu saman á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Samvinnan gekk vel og eftir því sem þær kynntust betur uppgötvuðu þær að þær áttu sameiginlegan draum um að eiga lítið, vinalegt kaffihús þar sem þær seldu gott ítalskt kaffi og væri notalegur samastaður fyrir viðskiptavini. Eftir að hafa talað um kaffihúsadrauminn í dágóðan tíma, jafnvel nokkur ár, ákváðu þær að hætta að láta sig dreyma og bretta upp ermar. Og nú er draumurinn orðinn að veruleika.

Kaffi í stað húðflúrs

Blaðamaður ratar ekki sérlega vel í miðbænum en þökk sé nýjustu tækni nær kortaforritið í farsímanum að vísa leiðina að Vitastíg 12, þar sem Kaktus Espressobar er til húsa. Á öðrum húsgaflinum stendur enn auglýsingaskilti fyrir húðflúrsstofu sem áður var í húsnæðinu þar sem kaffihúsið er nú. „Af og til reka inn nefið einhverjir sem ætla að fá sér húðflúr en fá þá bara gott kaffi og jafnvel pottablóm í staðinn,“ segir Hildur og hlær þegar blaðamaður nefnir þetta. „En það stendur nú til að merkja allt og setja upp skilti fyrir kaffihúsið; við erum bara rétt að klára að hanna lógóið okkar.“

- Auglýsing -

Þær Hildur og Sonja segjast hafa  tekið húsnæðið töluvert í gegn, með góðri hjálp fjölskyldumeðlima og vina, áður en kaffihúsið var svo opnað 11. janúar síðastliðinn. „Við vorum búnar að skoða alls konar húsnæði þegar þetta fallega húsnæði á Vitastíg bauðst og við stukkum á það, þótt við vissum að það yrði mikil vinna að breyta því í kaffihús. En við eigum sem betur fer marga góða að og vinir og fjölskylda sem lögðust á eitt að hjálpa okkur á ekki minna í staðnum en við,“ segir Hildur.

Sonja bætir við að þeim finnist gaman að vera í miðbænum en þó ekki alveg mitt í öllum ferðamannastraumnum. „Okkar föstu viðskiptavinir eru ekki síst fólkið sem býr hér í grennd og er ánægt að hafa fengið hverfiskaffihús. Draumurinn okkar var að búa til samfélag með góðu fólki og fastakúnnum og það hefur svo sannarlega tekist. Íslendingar og íbúar hverfisins eru enn í meirihluta, enda opnuðum við í janúar og á þeim tíma voru ekki margir ferðamenn á ferli. En þeim er alltaf að fjölga og það er gaman að finna hvað færist mikið líf í bæinn eftir því sem vorið nálgast,“ segir Sonja.

Mynd/Aldís Pálsdóttir

- Auglýsing -

Kaffi beint frá Ítalíu

Kaffið panta þær frá Ítalíu. Hildur segir að Sonja hafi verið í sambandi við nokkrar kaffibrennslur úti og smakkað margar tegundir. Í fyrra hafi henni verið boðið á stóra sýningu á Rimini þar sem margar kaffibrennslur voru að kynna kaffið sitt. „Þar hitti hún þá félaga, Claudio, Mario og Emanuele, og heillaðist af kaffinu þeirra og ástríðunni sem þeir hafa fyrir kaffinu sínu. Við seljum sjö tegundir frá þeim, ef við viljum telja koffínlausa kaffið með,“ segir Hildur brosandi. „Þetta eru bæði kaffiblöndur og svæðisbundnar tegundir og hægt er að láta mala baunirnar hér á staðnum. Auk þess seljum við te frá Kusmi en það eru til margar skemmtilegar blöndur frá þeim. Okkur langar að bæta enn meira við te-úrvalið.“

Ilmandi bökunarlykt leggur úr eldhúsinu en Hildur og Sonja segjast reyna að baka sem mest sjálfar af skonsum, kökum og klöttum. „Við erum líka alltaf að prófa okkur áfram með vegan-kökur og sætindi og chia-grauturinn okkar og orkuboltarnir eru langvinsælasta bakkelsið okkar,“ segir Sonja. „Auk þess bjóðum við upp á samlokur og fáum nýbakað brauð frá Sandholti á hverjum degi. Súpa dagsins er líka alltaf vinsæl.“

- Auglýsing -

Mynd/Aldís Pálsdóttir

Blóm og kaffi

Sonja og Hildur hafa báðar mikla reynslu af því að vinna á kaffihúsi. Sonja bjó á Ítalíu og rak þar sitt eigið kaffihús og hefur unnið á kaffihúsum eftir að hún flutti heim til Íslands. Hildur lærði blómaskreytingar og útstillingar og vann í blómabúðum í tíu ár áður en hún datt inn í kaffibransann, að eigin sögn, þar sem hún hefur unnið í önnur tíu ár. Þær segja að það hafi því ekki verið spurning að þær vildu blanda þessu tvennu saman; kaffihúsi og blómabúð.

„Við höfum aðallega verið með kaktusa og þykkblöðunga til sölu en ætlum að bæta úrvalið með hækkandi sól. Við stefnum líka á að bjóða upp á litla blómvendi til sölu um helgar, svona til að grípa með heim þegar fólk kaupir kaffibaunir fyrir helgina,“ segir Hildur. Það liggur því beinast við að spyrja hvort kaffi- og blómarekstur fari vel saman. „Já, það er ekki spurning,“ segir Sonja. „Hvort tveggja gefur lífinu lit og veitir fólki gleði í hversdeginum. Sumir geta ekki lifað án þess að fá sér kaffibollann en það er alveg á tæru að enginn gæti lifað án blóma og plantna því þau gefa okkur súrefni.“

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

„Tilgangur matar er að veita orku sem endist allan daginn“

Hanna Þóra Helgadóttir, rithöfundur, framkvæmdastjóri, viðskiptafræðingur og snyrtifræðingur, gaf í fyrra út bókina Ketó – Uppskriftir –Hugmyndir...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -