• Orðrómur

„Karlar vilja vera jafningjar og allir njóta góðs af því“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, telur að með því að bæta samskipti verðandi foreldra og fræða drengi og karla um umönnun barna megi koma í veg fyrir meirihluta erfiðra fjölskyldumála. Ólafur hefur rannsóknarstudd rök fyrir því að því betur sem fólk er búið undir barnsfæðingu, því farsælla verði samband foreldranna eftir á og um leið grunnurinn að uppeldi barnsins. Við ákváðum að forvitnast frekar um þessar áhugaverðu áherslur.

 

Ólafur hefur í mörg ár sinnt fræðslu um ungbörn í grunn- og framhaldsskólum og fyrir verðandi foreldra auk þess að sinna fjölskyldu- og hjónaráðgjöf á stofu. Einnig starfar hann með 1001 hópnum sem samanstendur af fagfólki sem lætur sig velferð ungra barna og fjölskyldna þeirra varða. Verkefnið á sér fyrirmynd í Bretlandi en talan 1001 vísar í fjölda daga frá getnaði og fyrstu tvö árin eftir fæðingu fyrsta barns. Hann gaf út bókina Það sem karl­ar vilja vita, vísindalega sönnuð leyndarmál um samskipti kynjanna, eftir hjónin John og Ju­lie Gottman. Þau hafa áralanga reynslu af vinnu með fjölskyldur og vert að nefna að Bill Gates sá sér hag í því að ráða þau til að hjálpa starfsfólki sínu að tryggja sér farsælt einkalíf.

Ólafur Grétar Gunnarsson. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

En hvað er það sem helst brennur á Ólafi Grétari um siði okkar og menningu hér á Íslandi varðandi barneignir og fjölskyldur?

„Ótímabærar þunganir, þar sem foreldrar eiga litla sögu saman eða eru mjög ungir, eru algengari hér en annars staðar. Það sem við vitum um þennan hóp er að þar eru minni líkur á að samband foreldra haldist og að mitt kyn taki þátt í daglegum athöfnum og umönnun barnsins. Mun meiri hætta er á fæðingarþunglyndi hjá báðum foreldrum í yngsta hópnum og það varir lengur en í öðrum hópum. Einnig eru minni líkur á að feður í þessum hóp njóti fæðingarorlofs,“ segir hann.

„Ótímabærar þunganir geta skapað mjög erfiðar aðstæður fyrir nýja foreldra og barnið. Þau eru í viðkvæmri stöðu (vulnerable), útsett fyrir að lenda í vandræðum þar sem að lífið gerir kröfur til þeirra sem þau eru ekki með styrk til að takast á við. Þetta kemur niður á gæðum umönnunar og tengslamyndunar og getur stefnt geðheilbrigði foreldra í hættu. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að 26% barna alast upp á heimilum hjá foreldrum með geðröskun, í neyslu eða við ríkjandi heimilisofbeldi. Það að einstaklingar sem ólust upp við slíkar aðstæður, eða eru í yngsta foreldrahópnum, undirbúi parsambandið fyrir fæðingu barns, getur skipt sköpum. Ef við lítum t.d. til Bretlands, þar sem ég sótti mína grunnmenntun í sálfræðilegri ráðgjöf, hafa þeir ákveðið að foreldrar sem eru 24 ára og yngri fá sérstaka stuðningsþjónustu fyrstu tvö árin í foreldrahlutverkinu.

- Auglýsing -

Hún mamma, hetjan mín, var unglingur og ekki í föstu sambandi þegar hún átti mig. Fyrstu 1001 dagarnir í lífi barns eru mikilvægastir fyrir þroska heila- og taugakerfis. Það er tímabilið frá getnaði til tveggja ára aldurs. Þótt einstaklingur leiti sér síðar á ævinni meðferðar og reyni að styrkja sig, líkt og ég hef gert, þá situr viðkomandi eftir með ákveðnar afleiðingar. Sonur minn fæddist við betri skilyrði en ég og varð faðir við mun betri skilyrði en viðkvæmni eldri kynslóða hefur áhrif á hann. Þetta flyst áfram milli kynslóða nema það sé stigið inn og vítahringurinn rofinn. Það eru til ráð, sem hafa verið þekkt árum saman en við erum ekki að nota þau sem skyldi.“

Fólk undirbúið fyrir foreldrahlutverkið

Þetta er Ólafi Grétari augljóslega mikið hjartans mál. Hann kinkar kolli og heldur áfram. „Enn þann dag í dag birtist þessi menningarblinda í því að viðtöl fá mikið pláss í fjölmiðlum þar sem konur segja frá því að þær hafi orðið foreldri ungar og það hafi ekki verið neitt mál. Í mörgum tilfellum kemur í ljós þegar við lesum að um er að ræða foreldra sem fengu mjög mikinn stuðning. Við vitum líka að þegar um er að ræða foreldra í yngsta hópnum sem fá mikinn stuðning er hægt að draga úr þeirri viðkvæmni (vulnerability) sem fylgir því að eignast barn mjög ungur.

„Fólk þarf að vita meira um þær breytingar sem barnsfæðing hefur í för með sér og áhrif þeirra á parsambandið og það þarf meiri stuðning á fyrstu æviárum þess.“

- Auglýsing -

En við getum ekki gefið okkur það að foreldrar gangi að slíkum stuðningi vísum. Þarna er íslensk umræða að mínu mati alveg sér á parti. Dr. Sigrún Júlíusdóttir er minn gúrú hér heima á Íslandi en hún er búin að rannsaka okkar viðkvæmu fjölskylduþætti ítarlega, samhliða því að vera með fólk í meðferð. Hún segir að það hafi verið vitað síðan um miðja síðustu öld að fái par ekki undirbúning í samræmi við það sem fæðing barns gerir kröfur um þá eru auknar líkur á skilnaði. Fólk þarf að vita meira um þær breytingar sem barnsfæðing hefur í för með sér og áhrif þeirra á parsambandið og það þarf meiri stuðning á fyrstu æviárum þess. Sem upplýst þjóð sem sækir fram ættum við að þora að segja þetta upphátt vegna þess að í öllum tölum yfir erfiðleika endurspeglast sú viðkvæmni sem skapast, verði fólk foreldrar án nægilegs undirbúnings. Auðvitað er aldrei hægt að undirbúa manneskjur fullkomlega fyrir foreldrahlutverkið en alþjóðlega viðurkennd fræðsla hjálpar.“

Samkvæmt tölum frá Velferðarvaktinni búa 36,5% barna foreldra sem eru 29 ára og yngri á heimilum undir fátæktarmörkum, þar af 17,8% við skort.

Ólafur hefur rannsóknarstudd rök fyrir því að því betur sem fólk er búið undir barnsfæðingu, því farsælla verði samband foreldranna eftir á og um leið grunnurinn að uppeldi barnsins.

„Svo birtast greinar á borð við þá sem birtist í Fréttablaðinu um daginn þar sem fæðingarlæknir heldur því fram að ef fólk ætli að eiga þrjú börn þurfi það að byrja barneignir tuttugu og þriggja ára. Foreldrar ná ekki að mennta sig fyrir þennan aldur til að mynda og eiga því ekki möguleika á að sjá fyrir barni fyrr en þeir hafa lokið menntun sinni. Hollendingar ákváðu fyrir aldarfjórðung að vinna gegn unglingaþungunum því þær eru einnig mælikvarði á tíðni alvarlegra sjúkdóma í landinu og hafa þeir náð gríðarlegum árangri. Í Bretlandi er mikið lagt í að vinna gegn þessu núna og vernda með því geðheilsu ungmenna. Miðað við árangurinn sem við höfum náð í forvörnum gegn unglingadrykkju (íslenska módelið) ættum við að geta náð góðum árangri í að tryggja börnum þátttöku beggja foreldra sinna í daglegum athöfnum fyrstu æviárin.“

„Við fæðumst öll fyrirburar“

Bókin, Það sem karlar vilja vita, miðar einmitt að því að kenna fólki betri samskipti en hún er skrifuð til karla. Ólafur segir það með vilja gert því karlar sækist í auknum mæli eftir að vera í nánari tengslum við maka og börn.

Bókin, Það sem karlar vilja vita, er skrifuð til karla.

„Við fæðumst öll fyrirburar. Það er ekkert annað spendýr jafnlítið tilbúið fyrir lífið við fæðingu og það gerir gríðarlegar kröfur á foreldra. Það er ekki séns að undirbúa þig að fullu fyrir þetta hlutverk en það er vitað að ef þú sækir þér ákveðna fræðslu og stuðning ef þess þarf, eru auknar líkur á að hlutirnir takist vel. Það að par geti stillt sig inn á þarfir hvort annars dregur úr ágreiningi og álagi. T.d. að karlinn segir: „Heyrðu elskan, ég sé að þú lítur út fyrir að vera þreyttari en ég. Ég skal sjá um dúlluna meðan þú slakar aðeins á.“ Þótt karlar annist nú börn sín mun meira en kynslóðin á undan bera konur enn mun meira af ábyrgðinni.“

Mikilvægi geðheilbrigði feðra verði viðurkennt

„Nú þurfum við að taka fæðingarþunglyndi feðra alvarlega á sama hátt og gert var hjá mæðrum fyrir nokkrum áratugum. Ég ætlaði alltaf að vera með barnsmóður minni en svo eignuðumst við dóttur okkar. Við hættum að vera saman og ég var fluttur út fyrir tveggja ára afmælið hennar. Löngu síðar áttaði ég mig á að ég hafði fengið fæðingarþunglyndi. Sá Óli sem ég varð átti ekkert sameiginlegt með þeim Óla sem ég var áður en dóttir mín fæddist. Eftir að hún fæddist var ég oft reiður og pirraður með stuttan þráð. Ég var eins mikið í vinnunni og ég mögulega gat, ég kom bara illa fram.“

Hann hefur áhyggjur af því að íslenskir karlar fá ekki þá fræðslu og stuðning sem þeir þurfa til að njóta fæðingarorlofsins með fjölskyldunni. Þeir eru duglegir að taka það en þekkja ekki endilega ávinninginn af því. Að auki vill hann sjá að foreldrar skipti orlofinu jafnt á milli sín og að fjölmiðlar og aðrir einbeiti sér í meira mæli að því sem karlar gera vel í samböndum og uppeldi barna sinna.

„Vísindamenn í níu löndum söfnuðu saman öllum upplýsingum árin 1961-2017 um hvernig feðrum leið gagnvart geðheilbrigðisþjónustunni sem þeim bauðst þegar þeir urðu pabbar í fyrsta sinn. Í ljós kom að enginn munur er á Svíum og Asíubúum hvað þetta varðar. Svarið var alls staðar eins: Engin lögbundin eða skipuleg þjónusta í boði,“ segir Ólafur Grétar. „Í þau sextán ár sem ég sat í barnaverndarnefnd og í þeim mörgum sögum sem þar komu fram er hið óskrifaða í textanum: pabbar sem ekki standa sig. Allar þessar sögur af feðrum sem höndluðu ekki aðstæður segja okkur að fæðingarþunglyndi karla hefur verið til staðar jafnlengi og kvenna þótt aðeins nýlega sé farið að tala um það. Ég er búinn að pirra áhrifafólk í tuttugu ár, hef sent bréf til sveitarstjórna, þingmanna og aðila vinnumarkaðarins til að knýja á um á fólk fái jafnréttis- og forvarnarfræðslu fyrir fjölskyldulíf sér að kostnaðarlausu.“

Fræðsla og stuðningur til foreldra er lykillinn

„Gottmann-hjónin hafa boðið pörum upp á tíu tíma fræðslu sem getur umturnað lífi þeirra. Málið er nefnilega með fræðslu að ef hún kemur á réttum tíma virkar hún svo vel. Þetta á líka mjög vel við þegar manneskja er barnshafandi. Þá er hún í náttúrulegri tilvistarkreppu og er móttækileg fyrir fræðslu og aðstoð. Að öllu jöfnu er aðeins þriðjungur þeirra sem er í samböndum ánægður ári eftir fæðingu fyrsta barns. Með Gottman-fræðslu má breyta þessu hlutfalli og meira en tvöfalda sterka hópinn með tíu tíma fræðslu. Síðan þurfa 20%-25% mun meiri þjónustu. Það gleymist oft þegar barn fæðist að samband foreldranna verður mjög barnsmiðað. Þeir gleyma að rækta sambandið sín á milli. Alls 30% skilnaðarbarna á Íslandi eru þriggja ára og yngri við skilnað foreldra. Þetta er mjög mikilvægur samfélagsþáttur. Oft eru foreldrarnir að skilja vegna streitu og erfiðleika í sambandinu fremur en þau séu hætt að vera skotin.

Klárir vinnuveitendur bjóða upp á jafnréttisfræðslu

Gottmann-hjónin eru meðal þekktustu og virtustu sálfræðinga á sínu sviði. Þau eru margverðlaunuð og hafa skrifað mjög áhrifamiklar bækur og eins og áður kom fram unnið fyrir Microsoft í áratugi. „Vinnuveitendur þurfa að átta sig betur á að konur eru að leggja meira á sig. Í ljósi mikillar atvinnuþátttöku kvenna og hagsmuna vinnuveitenda sem vilja halda starfsfólki afkastamiklu væri fræðsla og stuðningur í foreldrahlutverkinu þegar von er á fyrsta barni mikilvægt skref.

Veruleikinn er sá að 20%-25% barna fá ekki þá umönnun sem þau þurfa fyrstu þúsund dagana, frá getnaði til tveggja ára aldurs, æviskeiðið sem skiptir mestu máli. Þessu má svo auðveldlega breyta,“ segir Ólafur að lokum og bætir við að hann voni að ráðamenn hér á landi hlusti og leggist á eitt til að hefja strax markvissa jafnréttisfræðslu svo að feður og mæður geti notið sín enn betur í foreldrahlutverkinu og á vinnumarkaði.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Bera og Hjörtur eiga von á barni

Kærustuparið Bera Tryggvadóttir og Hjörtur Hermannsson, fótboltamaður, eiga von á sínu fyrsta barni.„Draumurinn okkar að rætast. Verðandi...

Halla og Víkingur eignast son

Hjónin Halla Oddný Magnúsdóttir, viðburða-og skipulagsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, eignuðust son í síðustu...

Þórhildur og Sævar skírðu soninn

Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir, hugbúnaðarsérfræðingur, og Sæ­var Helgi Braga­son, stjörnu­fræðingur og vísinda­miðlari, gáfu syni sínum nafn um helgina.Son­ur­inn...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -