Klassíkar og léttar bókmenntir

Því ber alltaf að taka fagnandi þegar útgefendur hér á landi ráðast í að gefa út einhverjar af perlum bókmenntasögunnar. Hér verður fjallað um tvær slíkar og bent á aðeins léttari bækur sem eru hentugar til að hvílast og endurnæra sig eftir að hugurinn hefur unnið úr hinum.

 

Meistari hernaðarlistarinnar

Hernaðarlistin eftir Sun Tzu hefur frá fimmtu öld fyrir Krist verið mönnum uppspretta visku um áætlanagerð, hernaðarplön, stjórnkænsku og leiðtogahlutverkið. Raunar eru áhöld um hvort Sun Tzu var til í raun og veru eða hvort bók hans sé samansafn hugleiðinga margra fornra hernaðarsnillinga í Kínaveldi. Hvernig svo sem það er á þessi bók alltaf erindi því margt af því sem hún kennir á jafn vel við í dag og forðum.

Hernaðarlistin eftir Sun Tzu.

AUGLÝSING


Það er líka gaman að nefna að Sun Tzu og bók hans var sá grunnur sem Gordon Gekko í kvikmyndinni Wall Street byggði á sitt fjármálaveldi. Hernaðarlistin var nefnilega tískubók meðal ungra frjálshyggjumanna og fjármálasnillinga á níunda áratugnum og margt svipað má finna í lýsingum Þórðar Snæs Júlíussonar á stjórnendum Kaupþings í bókinni Kaupthinking. Útg. Ugla

Glæpir og sjálfsefi

Malin Fors er án efa meðal áhugaverðustu rannsóknarlögreglumanna í norrænum sakamálasögum. Hún berst stöðugt við efann um sjálfa sig og óréttlæti heimsins. Af og til leitar hún huggunar í drykkju og ást kærastans Daníels.

Moldrok eftir Mons Kallentoft.

Í nýjustu sögunni um hana, Moldroki, lætur Mons Kallentoft hana takast á við morð á ungum fyrrverandi þingmanni sem rekinn var úr eigin flokki vegna rasisma og hvarf ungrar stúlku. Fljótlega verður Malin ljóst að málið snýst að einhverju leyti um tjáningarfrelsi, innflytjendur og það hvaða raddir fá að heyrast og hverjar ekki. Útg. Ugla

Meistaraverk með mikið erindi

Fahrenheit 451° eftir Ray Bradbury er klassískt meistaraverk. Hún kom fyrst út árið 1953 og er vísindaskáldsaga er rýnir inn í framtíð þar sem gagnvirkt sjónvarp hefur náð völdum yfir mannkyninu. Bækur eru brenndar og hugsunum fólks vandlega stýrt. Bókin er skrifuð meðan McCarthy-isminn var allsráðandi í Bandaríkjunum og talar sannarlega inn í þá tíma en ekki síður okkar.

Fahrenheit 451° eftir Ray Bradbury.

Er alveg víst að menn geri upp hug sinn sjálfir, beiti eigin dómgreind á alla hluti þegar tölvan og síminn eru helsta uppspretta upplýsinga? Hvernig er heimsmynd þeirra er þekkja aðeins rafræn samskipti? Þessi magnaða saga ritskoðandans sem fer að ritskoða sjálfan sig er klassísk og frábært að fá hana í íslenskri þýðingu Þórdísar Bachmann. Útg. Ugla

Þjóðsagnaarfurinn

Íslenskar þjóðsögur eru ótrúlega fjölbreyttar, margar skemmtilegar og fallegar meðan aðrar eru óhugnanlegar og erfiðar. Sumar eru fyndnar en þær eru líka til sem flytja alvarlegan boðskap. Nú hefur úrval íslenskra þjóðsagna verið gefið út í samnefndri bók. Sögurnar eru vel valdar og bókin fallega unnin. Hér gefst gott tækifæri til að kynna þjóðsagnaarfinn fyrir nýrri kynslóð og um leið fræða hana um kjör forfeðranna og -mæðranna. Útg. Bjartur

Íslenskar þjóðsögur.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is