Kolvetni – ekki jafnslæm og við höldum

Deila

- Auglýsing -

Öll þekkjum við mýtuna, borða minna, hreyfa sig meira og kílóin munu fjúka. Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta er ekki svona einfalt.

Vísindamenn hafa sýnt fram á að samsetning matarins skiptir miklu ásamt erfðum og líkamlegu ástandi. Sumir virðast því geta borðað ómælt af kolvetnum á meðan aðrir mega ekki horfa á sælgæti án þess að fitna.

Lífefnafræðinginn Robb Wolf setur fram þá kenningu að mismunandi kolvetni kalli fram einstaklingsbundnar sveiflur á blóðsykri. Hver og einn þurfi að finna út fyrir sig hvaða kolvetni orsaki þyngdaraukningu hjá þeim og kúfa á blóðsykurskúrfunni.

Í bókinni Wired to Eat eftir lífefnafræðinginn og þyngdarstjórnunarsérfræðinginn Robb Wolf kemur fram að hugmyndir okkar um vond og góð kolvetni eru úreltar. Hann setur fram þá kenningu að mismunandi kolvetni kalli fram einstaklingsbundnar sveiflur á blóðsykri. Hver og einn þurfi að finna út fyrir sig hvaða kolvetni orsaki þyngdaraukningu hjá þeim og kúfa á blóðsykurskúrfunni.

„Allt frá því að blóðsykursstuðullinn var settur fram og leiðbeinandi aðferðir við að halda honum í jafnvægi höfum við forðast mat með hátt GI, mat eins og hvítt pasta og brauð,“ segir Wolf. „Nýjar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að það er mjög breytilegt frá einni manneskju til annarrar hvaða kolvetni þær mega borða til að halda kjörþyngd. Líkami margra þolir mjög vel kolvetnaríkar fæðutegundir sem manneskjan hefur hugsanlega forðast árum saman.

„Nýjar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að það er mjög breytilegt frá einni manneskju til annarrar hvaða kolvetni þær mega borða til að halda kjörþyngd. Líkami margra þolir mjög vel kolvetnaríkar fæðutegundir sem manneskjan hefur hugsanlega forðast árum saman.“

Á hinn bóginn geta tómatar og hummus, sem flestir telja mjög hollan mat, gert meiri skaða en gagn þegar kemur að viðleitni manna til að borða heilnæmari fæðu. Að auki ef fólk hefur náð að grennast á kolvetnalitlum matarkúrum í fortíðinni gæti það hugsanlega borðað meiri kolvetni og misst fleiri kíló í dag. Margir ná mun betri árangri með því að setja kolvetni inn í matarplanið svo lengi sem þeir hafa sannreynt hvaða kolvetni henta þeirra þörmum.“

Hallast að einstaklingshyggju

Fleiri sérfræðingar en Wolf eru farnir að hallast að þessari einstaklingshyggju. Þeir telja að þessi trú okkar á að hægt sé að setja alla undir sama hatt hvað þetta varðar virki alls ekki. Þetta er einnig ástæðan fyrir því að svo margir gefast upp á matarkúrum eða aðhaldi. Fólk er einfaldlega ekki að borða þann mat sem hentar því.

Tómatar, sem flestir telja mjög hollan mat, get gert meiri skaða en gagn þegar kemur að viðleitni manna til að borða heilnæmari fæðu.

Nýjustu rannsóknir sýna raunar að viðbrögð við öllum fæðutegundum er mjög mismunandi milli einstaklinga. Blóðsykurinn ýmist hækkar eða lækkar og alveg óháð því sem hingað til hefur verið talið hollt fyrir alla.

Til að mynda má nefna að kona nokkur í rannsóknarhópnum hafði árum saman forðast að borða ís þótt hann væri í miklu uppáhaldi hjá henni. Hún, eins og aðrir þátttakendur, var látin borða alls konar mat og síðan var blóðsykurinn mældur. Blóðsykur hennar hækkaði mun meira eftir að hafa borðað lítinn skammt af hvítum hrísgrjónum en stóran ís. Blóðsykurskúrfa annars þátttakanda rauk upp eftir að hann hafði borðað banana en hún hélst nokkuð jöfn eftir að hann borðaði kexköku en hingað til hefur kex verið talið bæði ofunnin matvara og einstaklega óhollt.

Tim Spector, prófessor við King’s College í London, rannsakaði eineggja tvíbura og komst að því að meira að segja þeir sýna mismunandi viðbrögð við fæðu. Hann skrifaði bókina The Diet Myth en þar er tekið undir viðhorf Robb Wolf og samstarfsmanna hans.

Þetta flækir vissulega málin fyrir alla þá er hafa áhuga að huga vel að heilsu sinni og halda sig innan kjörþyngdar. Að sama skapi setur þetta iðnaðinn sem skapast hefur í kringum þyngdarstjórnun í uppnám. Allir þar standa á mjög óstöðugum grunni. Grenningarráðgjafar þurfa að opna hug sinn gagnvart kolvetnum og velta fyrir sér hvort rétt sé að banna eða taka alveg út ákveðnar fæðutegundir. Þeirra hlutverk verður nú bæði erfiðara því þeir þurfa að finna út með skjólstæðingum sínum hvaða kolvetni henta þeim.

Í Bretlandi eru menn farnir að greina þetta á einkastofum. Viðskiptavinurinn sendir þá inn saursýni og meinafræðingar skoða hverju viðkomandi skilar frá sér. Það gefur vísbendingar um hvaða örverur lifa í þörmum hans og þar með er hægt að segja til um hvort um sé að ræða manneskju sem heldur í þyngdina og bætir á sig fremur en að vera í jafnvægi hvað þetta varðar eða grennast auðveldlega. Vísindamenn spá því að greining af þessu tagi verði í framtíðinni jafnalgeng og sjálfsögð og blóðprufa.

Allt í þörmunum

Auk þess að gefa vísbendinu um hvort einstaklingi hætti til að þyngjast gefa örverurnar færi á að skoða hversu heilbrigð bakteríuflóra þarmanna er. En tengsl hafa fundist milli heilbrigði örverubúskaps þeirra og þunglyndis, ofnæmis, krabbameina, einhverfu og fleiri sjúkdóma. Margt bendir til að menn hafi stórlega vanmetið þennan þátt meltingarfæranna en þarna fer hin eiginlega næringarupptaka fram. Ef nauðsynleg efni skila sér ekki út í blóðið hefur það mjög fljótt áhrif á heilbrigði allra líffæra. Til allrar lukku bendir einnig allt til þess að menn geti auðveldlega lagað og bætt það sem aflaga fer hvað þetta varðar. Hægt er að bæta í mataræðið ákveðnum matartegundum sem örva og viðhalda örverubúskapnum. Þeir mæla þó ekki með að forðast öll kolvetni.

Vísindamenn þykjast vissir um að trefjar séu gott fóður fyrir bakteríuflóruna og ætiþistlar, púrrulaukur og hvítlaukur séu sérlega öflugur áburður fyrir hana. Mynd/Pexels.com

Það eina sem vísindamenn þykjast nokkuð vissir um núna er að mikið unninn matur er skaðlegur bakteríuflórunni. Trefjar eru hins vegar gott fóður fyrir hana og ætiþistlar, púrrulaukur og hvítlaukur eru sérlega öflugur áburður fyrir hana. Kaffi, dökkt súkkulaði, kimchee (súrsað hvítkál frá Kóreu), súrmjólk og allur sýrður matur reyndar mun skila miklum árangri fljótt. Íslenski þorramaturinn ætti að koma þar sterkur inn.

Meðan saurgreining er ekki orðin almenn getur fólk auðveldlega skoðað sjálft eigin blóðsykurssveiflur. Með því að gera blóðsykursmælingar á sama hátt og sykursýkissjúklingar gera getur hver og einn fengið nokkuð góða hugmynd um við hvaða kolvetnum hann bregst verst og aðlagað mataræði sitt að því.

Margir finna þetta líka mjög vel. Eftir sumar máltíðir eru þeir slappir, þreyttir, maginn útþaninn og orðnir svangir mjög fljótt aftur. Þannig líðan gefur góða vísbendingu um að kolvetnin sem verið var að neyta passi þér ekki. Blóðsykurinn sveiflast þá hátt fljótlega eftir máltíðina en hrapar síðan hratt. Það er nauðsynlegt að hlusta á líkamann hvað þetta varðar og hafa í huga að þol gagnvart tilteknum fæðutegundum getur breyst í gegnum ævina allt eftir hvernig lífsstíllinn er að öðru leyti.

Fylgst með blóðsykrinum

1. Fylgdu paleo-mataræði í einn mánuð áður en þú byrjar að prófa blóðsykurinn. Það tryggir að líkami þinn sé upp á sitt besta og þar með ættir þú að fá áreiðanlegar niðurstöður.

2. Keyptu þér blóðsykursmæli eins sykursýkissjúklingar nota.

3. Veldu sjö kolvetnaríkar fæðutegundir sem þú borðar oft og fáðu þér eina tegund í einu í morgunmat í sjö daga. Ekki borða neitt annað. Um það bil 50 g af hreinu kolvetni þarf til að gefa góða niðurstöðu. Þess vegna er gott að athuga hve hátt hlutfall kolvetna er í fæðunni. Til dæmis inniheldur soðið quinoa um það bil 30 g af hreinu kolvetni í hverjum 100 g. Það þarf því 163 g af því til að fá góða niðurstöðu.

4. Mældu blóðsykurinn tveimur klukkustundum eftir að þú borðar. 4.4-6.4 mmol/l er eðlilegt en ef hann reynist hærri þarftu að varast þennan kolvetnagjafa.

5. Þegar mælingunni er lokið getur þú borðað hvað sem er. Að þessari viku liðinni ættir þú að vera búin/n að fá góða hugmynd um hvers konar kolvetni þú þolir. Út frá því getur þú skipulagt mataræðið að nýju. Þessar sjö matartegundir sem þú valdir gefa einnig víðtækari vísbendingar. Eru ávextir til dæmis góðir fyrir þig eða korn? Vissar skyldar matartegundir eru nefnilega líklegar til að skila sömu niðurstöðu.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

 

- Advertisement -

Athugasemdir