2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Konur sem taka málin í sínar hendur

  Kvikmyndir um kvenskörunga.

  Þessar konur eru ekki feimnar við að láta til sín taka og í sér heyra þegar þeim misbýður. Hér eru á ferðinni gjörólíkar en frábærar kvikmyndir með kvenhetjum sem eru svo sannarlega konur í krapinu.

  Djörf viðskipti

  Andstæður laðast oft hvor að annarri og það á við um hina hlédrægu Lauren og Katie í myndinni For a Good Time Call (sjá ljósmynd hér að ofan). Leiðir þeirra liggja saman þegar þær neyðast til að finna sér herbergisfélaga vegna þess hve dýrt það er að búa í New York. Í fyrstu virðast þær ekki eiga samleið og leggja í raun fæð hvor á aðra. Fljótlega kemur þó í ljós að þær geta lært ýmislegt hvor af annarri. Þegar Lauren kemst að því að Katie starfar sem símakynlífsstúlka í hlutastarfi sér hún viðskiptahugmynd í því og saman lenda þær í ýmsum kómískum ævintýrum. Á bak við djarfa húmorinn er þó krúttleg saga um vináttu tveggja kvenna.

  Svik frá seinni heimsstyrjöld

  AUGLÝSING


  Kvikmyndin The Woman in Gold segir sanna sögu Mariu Altmann sem reynir að endurheimta málverk sem nasistar stálu af heimili foreldra hennar. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um töpuð listaverk gyðinga eftir seinni heimsstyrjöld. Helen Mirren leikur Mariu sem flúði með foreldrum sínum til Bandaríkjanna árið 1938 og þá missti fjölskyldan allar sínar eigur í hendur nasista, þar á meðal voru fimm málverk eftir Gustav Klimt. Eftir að stríðinu lauk enduðu þau málverk í austurríska listasafninu. Árið 2000 ákvað Maria að endurheimta þessi málverk en þar sem austurríska ríkið neitaði að viðurkenna eignarrétt hennar réð hún sér ungan lögfræðing og fór í mál við sitt fyrrverandi heimaland.

  The Woman in Gold segir sanna sögu Mariu Altmann sem reynir að endurheimta málverk sem nasistar stálu af heimili foreldra hennar.

  Hefndin er sæt

  Skrifstofan er stundum eins og vígvöllur, það þarf að beita mikilli kænsku og jafnvel bellibrögðum til að ná árangri – sérstaklega ef þú ert kona.  Kvikmyndin Nine to Five fjallar um þrjár skrifstofukonur sem dreymir um að ná fram hefndum á yfirmanni sínum sem er bæði karlremba og harðstjóri. Þegar ein þeirra kemst á snoðir um það að stöðuhækkun sem hún hafði vonast eftir hafi farið til karlmanns láta þær til skarar skríða. Þær ræna yfirmanninum, halda honum í gíslingu og stjórna fyrirtækinu í fjarveru hans eins og ekkert hafi í skorist. Þær koma á ýmsum bótum í fyrirtækinu svo sem barnapössun, jafnlaunastefnu og fleira.

  Kvikmyndin Nine to Five fjallar um þrjár skrifstofukonur (Lily Tomlin, Dolly Parton og Jane Fonda) sem dreymir um að ná fram hefndum á yfirmanni sínum.

  Rétta manneskjan í starfið

  Erin Brockovich er einstæð móðir sem gengur brösuglega að finna sér starf. Til að bæta gráu ofan á svart lendir hún svo í bílslysi. Hún reynir að að lögsækja ökumann hinnar bifreiðarinnar án árangurs en tekst að þvinga lögfræðing sinn til að ráða sig í vinnu í sárabætur fyrir að tapa málinu. Í fyrstu tekur enginn hana alvarlega á vinnustaðnum, enda er hún fremur djörf í klæðarburði og fasi. Allt breytist hins vegar þegar hún fer að rannsaka dularfullt fasteignamál tengt Pacific Gas og kemst á snoðir um ólöglegt athæfi fyrirtækisins. Frábær mannleg saga og Julia Roberts er stórkostleg í titilhlutverkinu.

  Erin Brockovich fer að rannsaka dularfullt fasteignamál tengt Pacific Gas og kemst á snoðir um ólöglegt athæfi fyrirtækisins.

  Ævintýralegt ferðalag

  Thelma & Louise segir frá tveimur ólíkum konum sem eiga það sameiginlegt að vera orðnar heldur þreyttar á lífi sínu. Louise vinnur á skyndibitastað og á í erfiðu sambandi við Jimmy sem er tónlistamaður og er alltaf á ferðalagi. Thelma er hins vegar gift Darryl sem er afar stjórnsamur og vill helst að hún sé í eldhúsinu og sé þæg og góð eiginkona. Dag einn ákveða þær að taka málin í sínar hendur og breyta lífi sínu. Þær halda því af stað í ferðalag á blæjubíl Louise á vit ævintýranna. Ferð þeirra breytist hins vegar í flótta þegar Louise drepur mann sem hótaði að nauðga Thelmu. Brátt er alríkislögreglan komin á hælana á þeim en þær neita að láta að stjórn eða gefast upp.

  Thelma & Louise segir frá ferðalagi tveggja kvenna sem ákveða að taka málin í sínar hendur og breyta lífi sínu.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is