2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Konurnar sem gátu, karlarnir sem stálu

  Í sögunni finnast ótal dæmi um að konur njóti ekki sannmælis, að verk þeirra séu eignuð körlum eða þeir taki heiðurinn af þeim. Glenn Close lék nýlega hlutverk eiginkonu er gaf manni sínum ritsnilld sína og þótt handritið sé skáldskapur á sagan sér styrka stoð í veruleikanum. En margar þessara gleymdu kvenna er stóðu á bak við snillingana hafa nýlega fengið uppreisn æru í kvikmyndum.

  Glenn Close lék nýlega hlutverk eiginkonu er gaf manni sínum ritsnilld sína.

  Colette er ein þekktasta og virtasta skáldkona Frakka. Hún var tilnefnd til Nóbelsverðlauna árið 1948 en fyrstu fjórar bækur hennar voru eignaðar fyrsta eiginmanni hennar, Henry Gauthier-Villars. Sá var þekktur meðal elítunnar í París, þótti orðheppinn og snjall. Hann réð unga upprennandi rithöfunda til skrifa bækur undir höfundarnafninu Willy og eignaði sér verkin.

  Þegar hann uppgötvaði að konan hans unga var bráðsnjall penni var leiðin greið. Hún sá fyrir þeim og sögurnar af hinni ungu Claudine og ævintýrum hennar runnu út. Willy sóaði á hinn bóginn öllu fé jafnóðum og Colette náði að afla þess. Loks fékk hún nóg, yfirgaf hann eftir þrettán ára sambúð og skilnaðurinn gekk í gegn árið 1910. Viðurkenningu á því að hún hefði skrifað Claudine-bækurnar fékk hún hins vegar ekki óskoraða fyrr en eftir lát Willy, árið 1931.

  Í fyrra kom út kvikmynd með Keiru Knightley í hlutverki Colette og Dominic West leikur Willy. Þetta er sannarlega ekki jákvæð mynd sem dregin er upp af honum en hins vegar sagði Colette sjálf að hún hefði aldrei orðið rithöfundur ef ekki hefði verið fyrir Willy. Hann var snjall ritstjóri og góður kennari. Þegar þau vantaði peninga hikaði hann heldur ekki við að loka konu sína inni þar til hún hafði skrifað nægilega margar blaðsíður að hans mati, til að skila þeim enn einni fyrirframgreiðslunni frá útgefandanum.

  AUGLÝSING


  Colette var tvíkynhneigð og frjálslynd í ástamálum. Það má kannski líka þakka Willy að einhverju leyti að hún hikaði ekki við að leyfa ástinni að njóta sín í öllum myndum því framhjáhald hans ýta henni út í tilraunir. Síðar á ævinni átti hún eftir að eiga í ástarsamböndum við mun yngri menn, meðal annars stjúpson sinn, sextán ára og þriðji og síðasti eiginmaður hennar var fimmtán árum yngri en hún.

  En Colette er ekki eini rithöfundurinn sem átti í erfiðleikum með að fá rödd sína og ritsnilld viðurkennda. Skáldsaga Mary Shelley, Frankenstein var upphaflega gefin út nafnlaust. Þegar upp komst hver var höfundurinn vildu margir kenna söguna, eiginmanni hennar, skáldinu Percy Shelley. Hann hafði skrifað inngang að bókinni en það mátti hann eiga að hann neitaði ævinlega að hafa átt þátt í skrifunum og sagði Frankenstein alfarið verk konu sinnar.

  Zelda Fitzgerald og Soffía Tolstoya

  Lengi hafa líka verið uppi getgátur um að Zelda Fitzgerald eigi mun meira í verkum manns síns F. Scott Fitzgerald en nokkru sinni hafi verið viðurkennt. Hann notaði dagbækur hennar óspart sér til innblásturs og hann neyddi hana til að endurskoða mjög mikið sína einu skáldsögu, Save Me the Waltz. Það var vegna þess að Zelda notaði þar senur úr hjónabandi þeirra sem Scott hugðist sjálfur nýta sér í bókina, Tender is the Night. Auðvitað varð Zelda að gefa eftir en stíll hennar var gerólíkur eiginmannsins.

  Þegar bókin kom út fékk hún ekki góða dóma og Scott sakaði hana um ritstuld. Nú þykir hún hins vegar bera vitni um góða hæfileika og talað um að hún gefi ekki síður áhrifamikla mynd af lífi þeirra hjóna en Tender is the Night. Sjónvarpsþáttaröð um Zeldu, The Beginning of Everything, var sýnd í Bandaríkjunum árið 2017.

  Í samband hjónanna Soffíu Tolstayu og eiginmanns hennar Leós ríkti meira jafnrétti en áhrif hennar á skrif eiginmannsins eru óumdeild. Hún ritstýrði og hreinskrifaði öll hans verk. Hún var sjálf snjall höfundur, skrifaði alla tíð dagbækur, smásögur, nóvellur og eigin ævisögu. Sögur hennar voru hins vegar ekki gefnar út fyrr en að henni látinni. Árið 2017 kom út á Íslandi bókin Svar Soffíu þar birtist þýðing Benedikts Lafleur á sögu Leós Tolstoj, Kreutzer sónötunni, og svarsögur Soffíu við henni þýddar af Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur.

  Hjónaband Leós og Soffíu stóð í fjörutíu og átta ár. Hann yfirgaf hana árið 1910 þá orðinn gamall og heilsuveill. Samband þeirra hafði þá staðið völtum fótum í nokkurn tíma en Leó dó tíu dögum eftir að hann fór, á járnbrautarstöð. Nokkuð kaldhæðnislegt í ljósi örlaga einnar þekktustu persónu skáldverka hans, Önnu Karenínu.

  Síðustu samvistum Leós og Soffíu er lýst í kvikmyndinni The Last Station en það er Helen Mirren sem túlkar þessa merku konu. Soffía var sextán árum yngri en maður hennar og lifði til hárrar elli á landareign þeirra, Yasnaya Polyana. Þau hjónin áttu þrettán börn en átta þeirra lifðu til fullorðinsaldurs og eiginlega óskiljanlegt hvernig Soffíu tókst að afreka allt sem hún gerði. Auk þess að lesa yfir öll verk manns síns og skrifa sín eigin, var hún snjall ljósmyndari, tók yfir eitt þúsund myndir sem sýna líf þeirra hjóna og hvernig halla tók undan fæti keisaradæmisins í Rússlandi í aðdraganda byltingarinnar. Hún ræktaði líka býflugur, mjólkaði kýr og var mikill garðyrkjumaður.

  Um verk hennar sagði útgefandinn Benedikt Lafleur í Vikunni: „Sögur hennar lágu svo í þagnargildi í rúm hundrað ár þar sem fjölskylda hennar, einkum sá sonur hennar sem stóð henni næst vildi ekki að þær yrðu útgefnar en Leó sjálfur las þær aldrei.

  Þegar ég las sögurnar var ég í senn mjög undrandi og mjög reiður, þar sem ég skildi í krafti menntunar minnar og reynslu af því að lesa bókmenntir og skrifa skáldverk, en þau eru orðin alls tuttugu talsins, að hér var um að ræða verk í hæsta gæðaflokki, klassískar sögur sem má líkja við það best sem meistari Chechov skrifaði og að sumu leyti jafnvel betra en sögur eiginmannsins, skáldjöfursins sjálfs, að því er snertir lýsingar á tilfinningum höfuðpersónanna. Í ljósi þessa velti maður því fyrir sér hvort Soffía hafi ekki komið mun meira nærri sagnaritun Leós en talið er, þótt vitað sé að hún hafi hreinritað öll verk og undirbúið til prentunar, eins og Stríð og frið, sem hún hreinritaði alls átta sinnum, allt verkið, suma kaflana þrjátíu sinnum.“

  Amy Adams í hlutverki sínu sem Margaret Keane í mynd sem kom út árið 2014.

   Stóreyg og saklaus

  Þótt sannarlega séu sögur þessara kvenna sláandi er saga Margaret Keane samt eiginlega verri því Walter Keane hafði ekki fyrir að spyrja eiginkonu sína um leyfi áður en hann stal verkum hennar. Hún var uppburðarlítil og feimin en hann kjaftagleiður og snjall sölumaður. Það varð að samkomulagi þeirra á milli að hann sæi um að koma verkunum á markað. Walter var ákaflega heillandi maður og líklega hefðu verkin aldrei náð slíkri útbreiðslu og vinsældum án hans markaðssetningar en það var konu hans mikið áfall að komast að sannleikanum.

  Margaret málaði stóreygar fígúrur sem virtust í senn horfa óttaslegnar á heiminn og biðja sér vægðar um leið. Leikstjórinn Tim Burton sá í þessari sögu efnivið í frábæra kvikmynd, Big Eyes sem frumsýnd var árið 2014. Þar gerir hann því einkar vel skil hvernig stórmennskubrjálæði og kúgunartilburðir Walters aukast þegar Margaret fer smátt og smátt að öðlast meiri kraft og þrek til að rísa upp.

  Þegar Margaret uppgötvaði svikin fannst henni í fyrstu ekki taka því að reyna að leiðrétta hlutina. Þetta var á sjöunda áratug síðustu aldar og karlmenn höfðu enn tögl og haldir á flestum sviðum lífsins. Eiginkonur áttu að vera hlýðnar og leyfa þessum höfðum fjölskyldnanna að sigla lífsfleyinu. Walter seldi og seldi ódýrar eftirlíkingar og plaköt af málverkunum og ætla má að eitthvert slíkt hafi verið komið inn á hvert amerískt heimili.

  Að lokum lýsti Margret því yfir í útvarpsþætti árið 1970 að hún væri raunverulegur höfundur verkanna. Hann neitaði að þetta væri rétt og þá ákvað blaðamaðurinn, Bill Flang, að setja á svið einvígi milli þeirra tveggja í verslunarmiðstöð þar sem hvort um sig varð að mála mynd. Margaret mætti á tilsettum tíma en Walter ekki. Málið fór fyrir rétt og þar krafðist dómarinn þess að hvort um sig málaði mynd og hann neitaði á þeim forsendum að hann ætti ekki að þurfa að sanna sig en hún settist við og lauk við mynd á klukkutíma.

  Faldar tölur

  Kvikmyndin Hidden Figures kom út árið 2016.

  Þegar kvikmyndin Hidden Figures kom út árið 2016 höfðu sárafáir hugmynd um að konur og það þeldökkar konur hefðu átt svo stóran þátt í velgengni geimferðaáætlunar Bandaríkjamanna. Myndin var frábærlega unnin og opnaði umræðuna um verk vísindakvenna sem fram að því höfðu ýmist verið gróflega vanmetin eða kennd karlmönnum. Konurnar þrjár, Katherine Johnson, Dorothy Vaughan og Mary Jackson voru nánast óþekktar fram að þessu þótt Katherine hefði hlotið heiðursmerki úr hendi Barack Obama ári áður en myndin kom út.

  Í kjölfarið kom svo leikrit um Rosalind Franklin í West End. Anna Ziegler leikstýrði Photograph 51 og Nicole Kidman lék Rosalind. Photograph 51 vísar til fyrstu ljósmyndar er náðist af DNA-keðju manns. Það var Rosalind sem afrekaði það en árum saman var hún eignuð James Watson og Francis Crick en þeir notuðu myndina án hennar leyfis til að teikna upp tvöfalda helix-skipan DNA-keðjunnar og hlutu Nóbelsverðlaun fyrir.

  Ótal fleiri vísindakonur hafa ástæðu til að kvarta undan þögn og lítilsvirðingu gagnvart störfum þeirra en til dæmis má nefna Margaret Knight, sú fann upp vél til að búa til bréfpoka en einkaleyfi hennar var stolið, af karlmanni að sjálfsögðu. Lise Meitner lagði grunninn að kjarnorkuöldinni ásamt Otto Hahn en var hvergi nefnd í greininni sem tryggði Otto Hahn Nóbelsverðlaun og leikkonan Hedy Lamarr, fékk fyrst almenna viðurkenningu á þeirri uppgötvun sinni er leiddi til þess að bluetooth- og wifi-tæknin varð til í heimildamyndinni Bombshell sem kom út í fyrra.

  Þótt vissulega sé ergilegt hve framlag kvenna er almennt lítilsvirt er þó ástæða til að gleðjast yfir því að kvikmyndaiðnaðurinn hafi tekið að sér að vekja athygli á því og hefja sögur þeirra til vegs og virðingar.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is