2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Kulnun þarf ekki að eiga sér stað

  Orðið kulnun var valið orð ársins í fyrra og ekki að ástæðulausu.

  Ekki eru mörg ár síðan enginn hafði heyrt þetta orð notað í sambandi við annað en eldfjöll. Skyndilega varð sprenging í notkun þess og nú snerist allt um mannfólk er hafði örmagnast og var þrotið kröftum. Íslendingar eru ekki þeir einu sem upplifa sprengingu í notkun þessa orðs en út um allan heim glímir fólk við afleiðingar gríðarlegs vinnuálags og ómanneskjulegra krafna og sífellt fleiri falla út af vinnumarkaði vegna þessa.

  Kulnunarástand verður þegar manneskja hefur unnið of mikið of lengi. Flestir lýsa þónokkrum aðdraganda að lokauppgjöf en þetta endar með að heilsa manneskjunnar hrynur, að því er virðist í einu vetfangi.

  Viðkomandi vaknar að morgni og getur skyndilega ekki hreyft sig eða hrynur niður á miðjum vinnudegi. Eftir því sem þekkingu manna á þessu ástandi fleygir fram verður augljósara að margir stefna hraðbyri að kulnun og eru þegar farnir að sýna merki um slíkt. Í Bandaríkjunum er þegar farið að tala um fólk á milli 35-45 ára þar í landi sem kulnunarkynslóðina. Það var heimspekingurinn Pascal Chabot sem varð fyrstur til að kalla kulnun menningarsjúkdóm vestrænna ríkja.

  „Kulnun á sér ekki bara stað meðal verkafólks í streitumiklum störfum og hún er ekki tímabundin kvilli. Þetta eru alvarleg veikindi.“

  Anne Helen Petersen skrifaði áhugaverða grein á BuzzFeed nýlega þar sem hún tók saman hvers vegna þetta þyrfti ekki að vera svona. Í samfélagi okkar hafi verið skapaðar þær aðstæður að fólk leggi óendanlega hart að sér en uppskeri lítið.

  AUGLÝSING


  Anne Helen Petersen.

  Sífellt sé verið að setja fyrir verkefni og iðulega verði ekkert úr þeim. Framkvæmdum frestað, eitthvað reynist ekki hagkvæmt og annað skilar einfaldlega engum árangri. Þetta leiði á endanum til þess sem hún kallar framkvæmdalömun. Fólk sér ekki lengur tilganginn í að gera nokkurn hlut. Við erum einnig sífellt að fylla aðgerðalista hvers dags með alls konar hlutum sem í raun ættu að vera ánægjulegir fremur en skylduverk. Ræktin, börnin, makinn, áhugamálin, menntun og nýsköpun, allt þetta lendir númer sjö, átta, níu eða tíu á lista yfir það sem verður að klárast í dag. Anne Helen telur að þar með sé búið að taka gleðina úr verkefninu.

  Sjálfumglaðir letingjar

  Símarnir hanga auk þess fastir við okkur sífellt minnandi á allt sem er eftir, það sem hefur verið vanrækt og gerir hörðum vinnuveitanda kleift að nálgast okkur allan sólarhringinn. Flestir eru að berjast við að borga af námslánum, koma sér upp húsnæði, skapa sér starfsferil og koma upp börnum. Hjá mörgum bætist svo við að koma sjálfum sér á framfæri á samfélagsmiðlum og sýna þar hve óumræðanlega gott og fullnægjandi líf þeirra sé.

  Hinir eldri smella í góm og láta í ljós andstyggð sína á öllu þessu og kalla kulnunarkynslóðina lata, sjálfumglaða og tilætlunarsama. Stundum hrista þeir líka höfuðið og segja: „Þetta er okkur að kenna. Við ólum þau upp og gerðum þau svona.“

  Nokkuð góður hluti þessa hóps berst hins vegar sjálfur við kulnun eða er hársbreidd frá því að enda þar. Helsti munurinn er að þetta fólk er búið að koma frá sér börnum og vinna sig upp í þær stöður í lífinu er heilluðu það ungt. Þeirra vandi felst í að halda af öllu afli í það sem náðst hefur og í sumum tilfellum sitja fast í vinnu sem hætt er að gefa þeim nokkurn hlut. Samfélagið gefur þeim ekki færi á að minnka við sig starfshlutfall eða skipta um starf. Grái herinn gengur atvinnulaus missi hann vinnuna á annað borð.

  Kulnun orðin faraldur

  Erlendar rannsóknir sýna að þessi faraldur andlegrar og líkamlegrar uppgjafar gengur þvert á menningarsamfélög, stétt og fjárhagsstöðu. „Kulnun á sér ekki bara stað meðal verkafólks í streitumiklum störfum,“ segir Anne Helen, „og hún er ekki tímabundin kvilli. Þetta eru alvarleg veikindi. Þetta er grunnhitinn. Þetta er bakgrunnstónlistin okkar. Svona eru hlutirnir. Þetta er okkar líf.“

  Adriana Huffington.

  Adriana Huffington gekk fram fyrir skjöldu fyrir tveimur árum og ákvað að endurskilgreina velgengni. Hún hafði stofnað Huffington Post og rekið vefmiðillinn af miklum krafti þar til það leið yfir hana á skrifstofu sinni. Hún dró sig í hlé og ákvað að nýta eigin krafta á skynsamlegri hátt. Bók hennar, Þriðja miðið, kom á íslensku fyrir tveimur árum. Hún stofnaði vefinn Thrive Global til að vinna gegn streitu og hjálpa fólki að finna heilbrigðari takt í lífinu.

  Eftir tveggja ára reynslu af rekstri hans segist hún bjartsýn á að lausn finnist. En telur að ekki sé nóg að hver einstaklingur líti í eigin barm og finni sína leið til að líða betur. Meira þurfi að koma til.

  Tæknin hefur gert innrás í líf okkar og við stjórnum henni ekki nema að litlu leyti. Umhverfismál eru auk þess mikið áhyggjuefni, enda víða þannig að fólk býr við heilsuspillandi aðstæður.

  Stjórnvöld þurfa þess vegna að taka forystu og vinna með afgerandi hætti að því að draga úr streituvaldandi aðstæðum á sínum svæðum. Þetta er hægt að gera með því að skapa fjölskylduvænna umhverfi, sinna heilbrigðisþjónustu af alúð, gangast fyrir sveigjanlegri vinnutíma, styttingu vinnuviku, hækkun lægstu launa og styrkingu leik- og grunnskóla.

  Vinnuveitendur verða að gera sitt

  Næstu skref koma til kasta vinnuveitenda. Í Bandaríkjunum er það farið að sjást að stór fyrirtæki ganga fram með góðu fordæmi, enda gera þau sér grein fyrir að starfsfólk á leið í kulnunarástand er afkastaminna, ekki eins skapandi og oftar veikt en þeir sem enn halda fullri heilsu.

  Dæmi eru um að vinnuveitendur borgi líkamsræktarkort, sjái starfsmönnum fyrir hollum hádegisverði, komi upp barnagæslu og skapi aðstöðu til slökunar inni á vinnustaðnum. Margt fleira er hægt að gera. IKEA á Íslandi er til að mynda að byggja ódýrt húsnæði fyrir starfsmenn og ýmsir hér á landi bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma, mismunandi starfshlutfall og þegjandi samkomulag er um að vinnandi fólk geti sótt sér læknisaðstoð, klippingu, farið í jarðarfarir og fleira á vinnutíma.

  „Þetta er okkur að kenna. Við ólum þau upp og gerðum þau svona.“

  Allt er þetta í áttina en að mati Adriana þarf meira að koma til. Við þurfum einfaldlega að breyta algjörlega hvernig við lifum og vinnum. Það þarf að endurskilgreina velgengni og hætta að mæla hana í hlutum og peningum. Dugnaður er ekki fólginn í því að vera stöðugt að og hvílast aldrei. Sú vinnumenning er nú ríkir er ekki sjálfbær og verður aldrei.

  Margir eru of uppteknir af því að uppfylla væntingar annarra, foreldra sinna, vinanna, vinnuveitandans en staldra aldrei við og velta fyrir sér hvað gæfi þeim sjálfum mesta ánægju. Flestir gera ráð fyrir að finna draumastarfið, verða góðir í því og halda síðan áfram lóðrétt upp á við það sem eftir er starfsævinnar. Lífið er hins vegar of flókið til að það geti gengið upp nema í örfáum undantekningartilfellum. Nútímamenn verða og eiga að gera ráð fyrir að skipta um vinnu, starfsvettvang og mennta sig stöðugt allt sitt líf.

  Ef vinnumarkaðurinn og stjórnvöld eru tilbúin til að laga sig að slíkri veröld opnast möguleikar fyrir einstaklinginn sem gera hann ekki bara hamingjusamari heldur einnig verðmætari starfskraft.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is