2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Kvenskörungar á fimmtándu öld

  Okkur nútímafólki hættir til að halda að formæður okkar hafi verið valdalausar og átt fáa valkosti í lífinu. Í einhverjum tilfellum kann það að vera rétt en þegar rýnt er í söguna kemur oft ýmislegt óvænt í ljós. Að kalla fimmtándu öldina öld kvenskörunga hljómar nefnilega alls ekki vitlaust þegar betur er að gáð. María guðsmóðir var fremst meðal kvenna en svo virðist sem margar konur hafi notið virðingar og mikilla valda í krafti auðs og ættar.

   

  Þá lifði og dó til að mynda Solveig Þorsteinsdóttir hin víðförla sem með eiginmanni sínum, Birni Jórsalafara, ferðaðist víðar en nokkur íslensk kona hafði gert áður. Meðal annars fóru þau hjónin til Jerúsalem eða Jórsala og var Björn því kallaður Jórsalafari. Solveig var jafnvel talin víðförlasta kona í heimi á sinni tíð og sennilega eru ekki margar konur enn í dag sem ferðast hafa jafnvíða og hún. Dóttir hennar, Vatnsfjarðar-Kristín, erfði mikil auðævi eftir foreldra sína og stjórnaði þeim að mestu sjálf. Hún var geysilega valdamikil og þegar hún dó á tíræðisaldri áttu hún og börn hennar nánast allt Norðurland.

  Solveig var tengdadóttir Grundar-Helgu sem stjórnaði aðförinni gegn Smið Andréssyni hirðstjóra. Hirðstjórinn fór um landið með miklu ofríki og yfirgangi og kom að Grund í Eyjafirði þegar aðeins voru konur, börn og gamalmenni heima við. Helga sló upp veislu fyrir hirðstjórann og menn hans og veitti vel. Á laun hafði hún hins vegar sent mann af stað til að ná í eiginmann sinn og sveina hans og þegar þeir komu til baka um nóttina gengu þeir að mönnum hirðstjórans ofurölvi í rúmunum og drápu þá, enda var lítið um varnir af þeirra hálfu.

  Vildi frekar vera mannlaus en sætta sig við dusilmenni

  AUGLÝSING


  Konur á fimmtándu öld virðast ekki hafa sætt sig við hjónaband með hverjum sem var og voru hjónaskilnaðir augljóslega leyfðir af kaþólsku kirkjunni þá því Þorgerður nokkur Böðvarsdóttir náði því fram að Jón Vilhjálmsson Hólabiskup gaf út skilnaðarbréf hennar og manns hennar Þorleifs Þórðarsonar. Þorgerður kvaðst aldrei hafa viljað giftast Þorleifi og að frekar vildi hún vera mannlaus alla ævidaga en gift honum. Þorleifur maldaði í móinn og sagði hana hafa samþykkt að faðir hennar ætti að ráða giftingu hennar en hvort eitthvert sannleikskorn var í því eður ei þá lauk hjónabandi þeirra en engum sögum fer af því hvort Þorgerður var mannlaus upp frá því eða fann ástina í örmum annars manns.

  Þorgerður kvaðst aldrei hafa viljað giftast Þorleifi og að frekar vildi hún vera mannlaus alla ævidaga en gift honum.

  Klaustur voru víða á landinu á fimmtándu öld og abbadísirnar voru valdamiklar konur. Þær tóku meðal annars við börnum höfðingja og ábyrgðust menntun þeirra. Klaustrin tóku einnig við öldruðu ríku fólki sem var tilbúið að borga með sér. Gamla fólkið gaf klaustrinu þá gjarnan eignir sínar gegn því að hafa framfærslueyri til æviloka og um þetta voru gerðir flóknir samningar. Ekki ónýtt fyrir þá sem eiga enga afkomendur eða óttuðust að börnin þeirra myndu ekki reynast þeim örlát þegar aldurinn fór að færast yfir.

  Ólöf ríka naut kynlífs

  Að öðrum ólöstuðum er Ólöf ríka Loftsdóttir á Skarði þó áreiðanlega kvenskörungur aldarinnar. Hún og maður hennar, Björn Þorleifsson hirðstjóri, réðu Vesturlandi og áttu það nánast allt. Ólöf var dóttir Lofts Guðmundssonar ríka á Möðruvöllum og því af ríkustu og valdamestu ætt landsins. Hún vissi vel hvað auður og völd voru mikilvæg og meðal þess sem hún barðist hatrammlega fyrir var að gera Solveigu Guðmundsdóttur frænku sína arflausa eftir föður sinn sem var bróðir Ólafar. Þetta var gert í þeim tilgangi að sölsa undir sig enn frekari eignir en Ólöf hélt því fram að Solveig væri ekki dóttir Guðmundar heldur hefði hún komið undir meðan faðir hennar var í burtu.

  Ólöf og maður hennar, Björn hirðstjóri, voru fyrirfólk þessa tíma. Þau ferðuðust út til Englands og gerði Björn samning við Englandskonung um að versla við enska kaupmenn er hingað sigldu. Konungur sló hann til riddara að launum. Vinskapur Björns og enskra varði þó ekki lengi og þeir enduðu með að drepa hann. Þegar Ólöf frétti látið segir sagan að hún hafi sagt: „Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði.“ Og víst er að Ólöf safnaði liði og lét drepa þónokkra Englendinga en hluta þeirra hélt hún föngnum og lét vinna fyrir sig heilan vetur.

  Ólöf stjórnaði upp frá láti Björns eignum þeirra hjóna og börnum sínum harðri hendi þar til hún lést árið 1467. Lengi voru skriftamál frá þeim tíma kennd henni og sagt að þar væri um að ræða syndajátningar hennar. Meðal þess sem þar er játað er kynlífsnautn og löngun til kynlífs. Kirkjan leit svo á að kynlíf skyldi aðeins stundað til getnaðar og dyggðugar konur sváfu jafnvel í náttkjólum sem voru með gati á hernaðarlega mikilvægum stað til að hindra að hold snerti hold.

  Dónalega skjalið

  Ef þetta eru í raun skrif Ólafar kveðst hún hafa notið kynlífs með bónda sínum í öðrum stellingum en hinni viðurkenndu postulastellingu og hún hafi átt frumkvæði að holdlegu samræði. Hún játar einnig daður við aðra menn, kjass, kossa og faðmlög og segir að þótt um eiginlegar samfarir hafi ekki verið að ræða hafi farið nærri. Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, og Ólöf líta greinilega sömu augum silfrið því hún vill ekki telja þetta kynlíf í eiginlegum skilningi. Handritið með skriftamálunum var geymt í Danmörku ásamt öðrum fornum íslenskum skjölum og lengi létu fræðimenn ekki á því bera að þeir sæktu skjalið eða læsu það. Það var kallað dónalega skjalið og lítið fór fyrir opinberum rannsóknum á því. Síðari tíma fræðimenn hafa ekki verið jafnviðkvæmir og fyrirrennarar þeirra og telja margir að skjalið sé alls ekki skrifað af konu heldur af munkum sem með þessu hafi fengið útrás fyrir ímyndunaraflið og væntanlega aðrar hvatir líka. En sé skjalið raunverulega skrifað af konu er það merkileg heimild um að kvenlegt eðli hefur lítið breyst í aldanna rás.

  Þetta er nokkuð langt frá þeirri ímynd sem flestir hafa af formæðrum sínum og konum fyrri tíma. Flestir sjá líklega fyrir sér auðmjúkar og hlýðnar heimasætur, iðnar og leiknar með nál og prjóna en gersneyddar kynvitund og viljastyrk. Íslenskar hefðarkonur hafa allavega ekki passað í það mót. Og vissulega er gaman að ímynda sér að Ólöf Loftsdóttir hafi verið frjálslynd í hugsun, jafnvel hippaleg hvað varðar afstöðuna til ástamála og kannski má meira læra af sögunni en menn grunaði. Í það minnsta er gaman að kíkja á Íslendingabók og athuga hvort einhver þessara skörunga teljist til formæðra manns.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is