2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Kvenskörungur sem gaf skít í samfélagsvenjur  

  Hvern hefði órað fyrir því að fyrsta kirkjubrúðkaup samkynhneigðra hefði farið fram á Bretlandi árið 1834? Þá gengu þær Anne Lister og Ann Walker saman til altaris og hétu hvor annarri ævarandi tryggð. Athöfnin var umdeild eins og raunar allt sem Anne Lister tók sér fyrir hendur. Stórskemmtilegir þættir um ævi hennar voru sýndir nýlega á Stöð 2.

  Hin frábæra breska leikkona Suranne Jones fer með hlutverk Anne en ástkonu hennar leikur Sophie Rundle. Þær eru báðar frábærar þótt vissulega fái Suranne mun flóknari og bitastæðari karakter að spila úr. Þegar sagnfræðingar tóku að rýna í dagbækur Anne Lister kom þeim á óvart að hluti þeirra var á dulmáli. Þeir höfðu nefnilega talið að hér væri ekkert merkilegra á ferðinni en orð og hugsanir konu og landeiganda. Þeir lögðust yfir að ráða það árið 1930 en það tók ekki mjög langan tíma. Anne hafði þetta ekkert sérstaklega flókið því henni var ekki mjög annt um að leyna því er þar stóð eða nákvæmum lýsingum á ástarævintýrum hennar við konur. Dulmálið var saman sett úr algebrutáknum og forngrísku en það segir okkur að Anne hafði hlotið betri menntun en almennt gekk og gerðist með konur á þessum tíma.

  Anne þessi var landeigandi, dagbókarritari, fjallakona, áhugasamur ferðalangur og snjöll viðskiptakona. Hún fæddist 3. apríl árið 1791 í Halifax í West Yorkshire. Hún erfði óðalssetrið Shibden Hall eftir föðurbróður sinn og bjó þar á fullorðins árum. Dagbækur hennar eru mjög nákvæmar og spanna alla ævi hennar. Þar segir hún frá daglegu lífi sínu í smáatriðum og tiltekur allt frá viðskiptasamningum og vinnu á setrinu til ástaratlota í svefnherberginu á kvöldin. Henni var annt um heimili sitt og vildi bæta bæði nýtingu landsins og líðan smábændanna sem leigðu af henni jarðarskika.

  Leyndi aldrei kynhneigð sinni

  Hún hefur oft verið kölluð fyrsta nútímalesbían því hún gerði ekkert til að leyna kynhneigð sinni og var fullkomlega meðvituð um eigin tilfinningar. Það kemur vel fram í þáttunum að Anne upplifir sig aldrei hornreku eða olnbogabarn, heldur þvert á móti. Hún virðist skynja að það er samfélagið sem er sjúkt vegna þess að það getur ekki tekið fagnandi á móti fjölbreytileikanum.

  AUGLÝSING


  Þegar þær nöfnurnar kynnast er Ann Walker einangruð, þunglynd og veik. Hún þjáist af alls konar kvillum sem hugsanlega hafa stafað af andlegri vanlíðan. Anne kemur eins og ferskur vindblær inn í líf hennar og rífur hana upp úr doðanum. Eftir að þær gifta sig í Holy Trinity Church í York kallaði Ann eiginkonu sína Fred en fólkið í sveitinni og í Halifax kölluðu hana Gentleman Jack og þaðan er nafn þáttanna dregið. Í kirkjunni er nú málmplatti þar sem þessa atburðar er minnst, enda merkilegur áfangi í réttindabaráttu samkynhneigðra í Bretlandi. En auðvitað voru þær ekki látnar í friði og þær urðu fyrir margskonar áreitni og baknagi. Anne virðist hins vegar hafa verið svo sterkur persónuleiki að þær standa allt af sér. Óhætt er að segja að þessi merkilega saga varpi nýju og fersku ljósi á nítjándu aldar efri stéttar konur og kynlíf þeirra sem menn hafa hingað til talið fremur óspennandi.

   „Hún hefur oft verið kölluð fyrsta nútímalesbían því hún gerði ekkert til að leyna kynhneigð sinni og var fullkomlega meðvituð um eigin tilfinningar. Það kemur vel fram í þáttunum að Anne upplifir sig aldrei hornreku eða olnbogabarn, heldur þvert á móti.“

  Anne Lister beygði sig heldur ekki undir reglur og siði samfélagsins á mörgum öðrum sviðum. Hún klæddi sig á mjög karlmannlegan hátt, sá sjálf um eigin fjármál og tók virkan þátt í pólitík. Frá unga aldri sýndi hún mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum og hún var virk í breska íhaldsflokknum alla ævi, þ.e.a.s Tory-flokknum. Auðvitað var hún svo heppin að njóta fjárhagslegs sjálfstæðis, sú staðreynd að hún erfði Shibden Hall gaf henni völd og áhrif langt umfram það sem aðrar konur nutu. Margar erfðu peninga og eignir en þær voru í flestum tilfellum bundnar stjórn fjárhaldsmanns eða -manna.

  Óvenjulegt hugrekki

  Shibden Hall fylgdi mikið land og Anne naut leigutekna af því en leiguliðar höfðu afnot af litlum býlum í hennar eigu og erjuðu jörðina og hún fékk hluta af ágóða þeirra. Auk þessa átti hún eignir inn í Halifax sem hún leigði út, hlutabréf í fljótaflutningafyrirtæki, járnbrautariðnfyrirtækjum, kola- og steinnámur. Allt þetta gerði henni kleift að iðka öll þau margvíslegu mál sem hún hafði ástríðu fyrir meðal annars ferðalög og pólitík.

  Anne var barn síns tíma að því leyti að hún taldi sig eiga rétt á að heimta allt af leiguliðum sínum. Hún hikaði þess vegna ekki við að hóta þeim brottrekstri af jörðum sínum ef þeir ekki kysu íhaldið. Smátt og smátt varð þetta til þess að hún rak frá sér alla sem voru á öndverðum meiði við hana í pólitík og leigði eingöngu þeim sem voru sömu skoðunar. Hún átti jafnvel til að lækka leiguna ef viðkomandi gat tryggt henni atkvæði allra kosningabærra heimilismanna. Þessi framganga hennar sýnir sannarlega engan mannúð eða miskunnsemi, hvað þá virðingu fyrir undirsátum sínum. Það undrar því engan að þetta endaði með uppþoti árið 1835 þar sem miklar skemmdir voru unnar í Halifax.

  Næsta dag gekk Anne inn í bæinn og hópur kvenna og ungra drengja gerði hróp að henni. Þau spurðu hvort hún klæddist svörtu vegna þess skaða sem hún hefði ollið samfélaginu en Anne svaraði: „Nei, ég syrgi skaðann sem þeir ollu,“ og vísaði þar til uppreisnarmannanna. Þetta er lýsandi fyrir hugrekki hennar á öllum sviðum. Hún neitar að bakka, gefur hvorki eftir hvað varðar lífsstíl sinn né skoðanir, og horfir hiklaust í augun á æstum múg.

  Fjörugt ástarlíf  

  Líkt og tíðkaðist á þessum tíma var Anne kennt heima. Fjölskyldan bjó í Skefler og þá var kennarinn hennar George Skelding, prestur í Market Weighton. Sjö ára gömul var hún send í heimavistarskóla Mrs Hagues og Mrs Chettle í Agnesgate en einnig fékk hún handleiðslu kennslukonu, Misses Mellin, þegar hún var í heimsókn hjá föðurbróður sínum og konu hans í Shibden Hall. Þegar hún var unglingur fór hún í Manor House School í York og þar kynntist hún fyrstu ástinni sinni, Elizu Raine.

  Eliza og Jane, systir hennar, voru dætur ríks læknis sem vann fyrir Austur-Indíafélagið. Hún og Anne deildu herbergi í heimavistarskólanum þrettán ára gamlar. Kennslukonurnar voru fljótar að taka eftir að eitthvað meira en vinátta átti sér stað milli þeirra því Anne var beðin að yfirgefa skólann en fékk að koma aftur og klára eftir að Eliza var farin. Hún hafði alls ekki látið segjast og hóf ástarsambönd við Isabellu Norciffe og Mariönu Belcombe en þær voru báðar nemendur sem bjuggu heima hjá sér en ekki á vistinni.

  „Anne Lister beygði sig heldur ekki undir reglur og siði samfélagsins á mörgum öðrum sviðum. Hún klæddi sig á mjög karlmannlegan hátt, sá sjálf um eigin fjármál og tók virkan þátt í pólitík.“

  Þetta olli Elizu svo miklum harmi að hún lagðist inn á geðsjúkrahúsið Clifton Asylum en það var rekið af pabba Mariönu dr. Belcombe. Mariana og Anne héldu sambandi lengi, jafnvel eftir að sú fyrrnefnda giftist en ástarfundir hennar og Anne voru með fullu leyfi eiginmannsins. En þrátt fyrir fjörugt ástarlíf náði Anne að tileinka sér alla þá menntun sem bauðst. Hún las alla tíð gífurlega mikið, hafði mikinn áhuga á klassískum bókmenntum og stúderaði gríska sögu og forngrísku.

  Dagbækurnar benda eindregið til þess að Anne hafi þráð langtímasamband og heita ást konu sem hefði hugrekki til að standa með sjálfri sér og þeim tilfinningum sem hún bæri til hennar. Hún fann hana í Ann Walker og konurnar tvær bjuggu saman í Shibden Hall þar til Anne lést árið 1840. Þær ferðuðust einnig mikið og Anne var fyrst kvenna til að ganga á Monte Perdido í Pýreneafjöllum en það gerði hún tvisvar, fyrst árið 1830 og svo aftur 1838 til að fá það opinberlega skráð. Fjallið er 3.298 m. Þær voru einmitt á öðru ævintýraferðlagi þegar Anne veiktist af hitasótt í Kutaisi í Georgíu. Ann var viti sínu fjær af sorg en lét smyrja líkið og flutti það með sér heim til greftrunar. Hún bjó upp frá því á æskuheimili sínu Cliff Hill en hún lést árið 1854.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is