Fimmtudagur 30. nóvember, 2023
0.1 C
Reykjavik

Kynlegar kastalaverur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Uppsetning Borgarleikhússins á söngleiknum Rocky Horror show hefur varla farið fram hjá neinum. Uppselt er á nær allar sýningar út leikárið svo óhætt er að fullyrða að Frank-N-Furter og fjölskylda muni öðlast framhaldslíf á fjölunum næsta leikár.

Fyrir þá sem ekki þekkja til greinir sagan frá turtildúfunum Brad og Janet sem villast af leið og enda fyrir tilviljun í dularfullum kastala. Atburðarásin vindur fljótt upp á sig og áhorfendur verða strax sólgnir í að komast í kynni við kynjaverur kastalans.

Þýðing Braga Valdimars Skúlasonar var eins og við var að búast bæði hnyttin og vel ígrunduð þó að vissulega sé erfitt að gleyma gömlu þýðingu Veturliða Guðnasonar.

Búningar Filippíu Elísdóttur voru framúrskarandi og þá sérstaklega klæði Kólumbíu og geimgallar systkinanna Riff Raff og Magnetu. Flestir dansaranna fengu sömuleiðis að glitra í glæsilegum glimmerklæðum.

Dansatriðin voru heldur færri en í fyrri stórsýningum Borgarleikhússins en danshöfundinum Lee Proud tókst að galdra fram stórskemmtileg atriði eins og honum einum er lagið.

Óhætt að segja að leikur Björns Stefánssonar, í hlutverki Riff Raff, hafi verið framúrskarandi. Vala Kristín Eiríksdóttir var jafnframt nístandi og sannfærandi sem Kólumbía.

Brynhildur Guðjónsdóttir var lágstemmd í hlutverki Magnetu en hún opnaði og lokaði þessu „sjabbí“ sjóvi á karnivalískan máta.

Arnar Dan Kristjánsson smellpassaði í hlutverk vöðvatröllsins Rocky, sköpunarverks Frank-N-Furters, bæði í söng og líkamlegum styrkleika.

- Auglýsing -

Haraldur Ari Stefánsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttur blésu lífi í lykilpersónurnar tvær sem glata sakleysi sínu innan kastalaveggjanna. Haraldur Ari var einkar sannfærandi sem Brad en Þórunn Arna hefði mátt vera djarfari Janet.

Valdimar Guðmundsson á stutta en eftirminnilega innkomu þegar hinn meingallaði Eddi mætti örlögum sínum. Sú lausn að rúlla honum inn á börum í stað þess að láta hann þeysast um sviðið á mótorhjóli dró verulega úr þeim ótta sem átti að stafa af persónunni sem Frank-N-Furter hafði mistekst að skapa.

Það leikur enginn vafi á því hvers vegna áhorfendur flykkjast á sýninguna, þeir eru komnir til að berja stjörnuna augum. Páll Óskar er elskaðasta óskabarn þjóðarinnar og skín hér eins og perlan sem hann er.

Boðskapur verksins er að blása von í hjörtu fólks sem hefur upplifað sig utangarðs eða útskúfað og sýna því að allir hafa tilgang. Heimurinn er stærri en við höldum og það er nóg pláss fyrir alla, Lifðu – ekki leynast.

- Auglýsing -

Fáir hafa haldið kyndli þessarar baráttu hærra á lofti en Páll Óskar sem virðist klæðskerasniðinn í hlutverk Frank-N-Furter. Á köflum er eins og kynsnillingurinn vakni til lífs á sviðinu en öðrum stundum er eins og hann skipti um ham og breytist í Grinch með trúðslegu yfirbragði.

Leikstjóri sýningarinnar, Marta Nordal, hefði mátt draga úr þessum töktum.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur var hönnuð að miklu leyti í kringum hugarheim Páls og var hreint út sagt stórkostleg, rétt eins og tónlistin í höndum Jóns Ólafssonar svo óhætt að fullyrða að enginn verði svikinn af því að sjá Rocky Horror Show.

 

Umfjöllunina er að finna í 15.tbl Vikunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -