Kynlífslöngun sveiflast í takt við breytingarnar

Deila

- Auglýsing -

Kynlíf skapar stóran og mikilvægan sess í lífi flestra. Það styrkir náin tengsl og er uppspretta nándar sem er öllum eðlislæg og allir einstaklingar hafa þörf fyrir. Kynlíf er líka nauðsynlegur þáttur til að viðhalda mannkyninu, þótt auðvitað séu fleiri leiðir í boði í dag til að eignast barn heldur en voru hér áður fyrr. Og sé fjölgun í vændum er ástæðulaust að hætta að stunda kynlíf. Margir, sérstaklega konur, finna fyrir aukinni þörf fyrir kossa, faðmlög, hlýju og ástúð á meðgöngu.

 

Vinkona mín, þá komin á fullorðinsaldur, sagði eitt sinn að það sem sér hefði þótt erfiðast við að tilkynna að hún ætti von á barni var að allir vissu þá að hún og maðurinn hennar stunduðu kynlíf. Hún uppskar hlátrasköll í hópnum en það var auðséð að henni var fyllsta alvara. Út frá þessu spruttu áhugaverðar umræður um kynlíf á meðgöngu og eftir fæðingu, hvernig sumar í hópnum hefðu misst alla kynlöngun í langan tíma á meðan aðrar hefðu aldrei verið jafnmikið til í tuskið og einmitt á þessum tíma.

Kynlíf ætti ekki að vera feimnismál, flestir stunda það, með sjálfum sér eða öðrum, og opinská umræða er nauðsynleg svo allir séu á sömu blaðsíðu. Þótt par sé jafnvel búið að vera lengi saman hefur hinn aðilinn fullan rétt á að segja stopp eða láta sína skoðun í ljós. Og fyrir því verður að ríkja virðing. Það getur verið gott að ræða þessa hluti við maka sinn og jafnvel ljósmóður eða lækni ef eitthvað veldur áhyggjum eða sársauka.

Sveiflur í kynlífslöngun

Kynlífslöngun og -ánægja minnkar eftir því sem líður á meðgönguna enda eiga sér stað margar líkamlegar og sálfræðilegar breytingar á þessum tíma. Kynlífslöngunin sveiflast því oft í takt við breytingarnar. Hún minnkar til dæmis oft á fyrstu þremur mánuðunum vegna ógleði, þreytu, ótta við fósturlát eða að skaða barnið í móðurkviði, áhugaleysis og almennra óþæginda. Sumar konur finna hins vegar fyrir aukinni kynlöngun á fyrstu þremur mánuðunum. Hormónabreytingar sem eiga sér stað í líkama konunnar á þessum tíma leiða til meiri slímmyndunar í leggöngum svo hún finnur meiri viðbrögð. Einnig eykst blóðflæði og þrýstingur í grindarholi verður meiri sem getur aukið líkurnar á fullnægingu. Þar að auki þurfa konur ekki að hafa áhyggjur af getnaðarvörnum á meðgöngunni en aukaverkanir þeirra geta meðal annars verið minni kynlöngun.

Frá um það bil fjórða til sjötta mánuði meðgöngunnar fara breytingar á líkama hinnar verðandi móður að sjást. Það getur haft hamlandi áhrif á kynlífið ef tilfinningin er sú að konunni finnist hún hafa fitnað og hún er óörugg með líkama sinn vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað. Auknum hormónabúskap fylgja líka skapsveiflur sem hafa áhrif á allt og alla, þar með talið kynlífið. En löngun í kynlíf getur líka aukist á þessum tíma þar sem ógleðin er orðin minni og kúlan ekki orðin svo stór að hún hafi áhrif á kynlífið.

Þegar kúlan orðin stór getur hún vissulega haft truflandi áhrif á samfarir

Á síðustu þremur mánuðum meðgöngunnar er kúlan orðin það stór að hún getur haft truflandi áhrif á samfarir. Þá getur konan fundið fyrir ýmsum óþægindum sem geta truflað, eins og til dæmis brjóstsviði, eða það er erfitt að finna stellingu sem henni líður vel í. Á þessu tímabili blæðir auðveldlega frá leghálsinum sem er orðinn mjög blóðríkur og óþéttur og blóðugt slím getur valdið hræðslu, þótt blæðingin sé algeng og skaðlaus. Einnig geta báðir verðandi foreldrar haft áhyggjur af því að samfarir komi fæðingu af stað fyrir tímann en þegar líður að lokum meðgöngunnar geta hormón í sæði og samdrættir í leginu við fullnæginu hjálpað til við að koma fæðingu af stað. Þó geta samfarir einar og sér ekki framkallað fæðingu þar sem fleiri þættir þurfa að vera til staðar.

Ekki læsast í hliðarlegunni

Hræðsla við fósturlát getur haft áhrif á kynlífið á meðgöngu en ekki hefur verið sýnt fram á að tengsl séu milli samfara og fósturláts. Þá óttast margir að barnið skaðist en það er ástæðulaus ótti. Barnið er vel varið fyrir hamaganginum og lætur kynlíf foreldranna ekkert á sig fá heldur nýtur rólegheitanna vel verndað í móðurkviði. Það er því engin ástæða til að fara í kynlífsbindindi þótt fjölgun sé í vændum. Hins vegar getur læknir fyrirskipað kynlífsbindindi á meðgöngu, til dæmis ef saga er um fósturlát eða vegna blæðingar eða sýkingar. Svo má ekki gleyma því að hægt er að njóta kynlífs á ýmsa vegu þótt ekki sé um samfarir í leggöng að ræða. Kossar, faðmlög, munnmök eða gagnkvæm fróun eru allt dæmi um leiðir til að njóta kynlífs án samfara í leggöng.

Eftir því sem líður á meðgönguna og kúlan stækkar og líkaminn þyngist verður erfiðara fyrir konuna að liggja á bakinu. Jafnvel með öllu ómögulegt. Þá verður að setja trúboðastellinguna til hliðar og velta sér til dæmis yfir á hliðina. Ein kunningjakona mín sagði að sú stelling hefði hentað sér mjög vel á síðustu mánuðum meðgöngunnar. Versta var að sambýlismaður hennar varð afar hrifinn af þeirri stellingu og bað hana alltaf um að leggjast á hliðina, jafnvel löngu eftir að barnið var komið í heiminn. Hliðarlegan endaði með því að hún varð öll skökk og slæm í baki. Það er hægt að breyta til með því að konan sé til dæmis ofan á. Það sem skiptir mestu máli er að öllum líði vel og því er um að gera að prófa sig áfram og finna hvað hentar hverju sinni.

Kynlíf eftir fæðingu

Ekkert mælir gegn því að stunda kynlíf fljótlega eftir fæðingu en það er mikilvægt að huga að líðan og löngun. Þótt líðan kvenna eftir fæðingu sé misjöfn er algengt að konur hafi minni kynlífslöngun fyrst eftir hana. Þar spilar fæðingin sjálf stóran þátt; hafi hún verið erfið getur verið undirliggjandi hræðsla við að verða ólétt strax aftur. Einnig þarf að hafa í huga hvort konan hafi verið saumuð og hvort sárin grói fljótt og vel. Fyrstu tvær til þrjár vikurnar stendur úthreinsun yfir og þá er mest hætta á sýkingu og því ráðlegt að nota smokk til að draga úr sýkingarhættu.

Mikill tími fer í að sinna nýfædda barninu og svefnleysi getur tekið toll sem veldur þreytu og minni áhuga á kynlífi. Andleg vanlíðan og viðkvæmni getur einnig dregið úr kynlífslöngun. Líkaminn hefur auðvitað tekið miklum breytingum og þótt sumar konur sjái aukakíló og slit sem jákvæðar breytingar eftir það kraftaverk að koma barni í heiminn getur öðrum konum fundist þær óaðlaðandi.

Rétt er að fara rólega af stað og leyfa konunni að ráða ferðinni. Brjóstin eru oft viðkvæm á þessum tíma, enda yfirleitt full af mjólk sem lekur gjarnan meira við kynferðislega örvun. Það getur því verið gott að vera búin að gefa barninu að drekka áður en parið stundar kynlíf. Eins getur verið gott að hafa sleipiefni við höndina þar sem hormónabreytingar valda oft þurrki í leggöngum fyrstu þrjá mánuðina eftir fæðingu.

Allar þær breytingar sem fylgja meðgöngu og fæðingu geta líka haft áhrif á kynlöngun karla, bæði aukið hana og minnkað. Mismunandi kynferðislegur áhugi getur reynt á báða aðila og getur leitt til spennu og togstreitu í sambandinu. En þetta er eins og með allt annað í samböndum; það þarf að ríkja gagnkvæmur skilningur og báðir aðilar þurfa að sýna þolinmæði og tillitssemi. Þetta snýst jú um að báðir aðilar fái að njóta, ekki satt?

- Advertisement -

Athugasemdir