• Orðrómur

Kynþokkafullir og hæfileikaríkir bræður

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Dönsku bræðurnir Lars og Mads Mikkelsen eiga það sameiginlegt fyrir utan foreldrana og kvenhyllina að vera leikarar. Mads hefur margoft verið kosinn kynþokkafyllsti maður Danmerkur og utan heimalandsins hefur hann einnig komist á slíka lista. Hann hefur verið kallaður danska kvikmyndaundrið svo vinsæll er hann í Hollywood en eldri bróðirinn Lars er tekinn að sækja á einkum eftir leik sinn í Borgen og Herrens veje. 

Þeir virðast hafa ólíka skapgerð en Lars er mun rólegri og heimakærari en yngri bróðirinn. Hann er hins vegar mikill tungumálamaður og talar fjögur tungumál reiprennandi auk þess að vera þekktur fyrir að eiga auðvelt með að tileinka sér hver konar hreim þegar hann talar ensku og þýsku. Mads sló fyrr í gegn á alþjóðavísu en eftir að Lars lék á móti Benedict Cumberbatch í þáttunum um Sherlock Holmes vakti það áhuga Hollywood-framleiðenda á honum. Mads er aftur á móti velþekktur bæði fyrir leik sinn í James Bond-myndinni Casino Royale og hlutverk Tristans í King Arthur. Lars hefur oft lýst því yfir í viðtölum að hann öfundi ekki bróður sinn af velgengninni, hann viti hve mikil vinna liggi að baki. Nú lítur hins vegar út fyrir að hann muni sjálfur fá að kynnast frægðinni og kannski eiga þeir bræður eftir að ganga rauða dregilinn saman.

Áttu góða æsku

- Auglýsing -

Lars er einu og hálfu ári eldri en Mads, fæddur 6. maí 1964 en Mads 22. nóvember 1965. Þeir bræður ólust upp á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Pabbi þeirra Henning Mikkelsen var bankamaður en móðirin sjúkraliði. Þau studdu vel við strákana sína og þeir segjast hafa fengið gott uppeldi þótt móðurafa þeirra hafi stundum fundist aginn næsta lítill á heimilinu. Lars hefur sjálfur sagt að hann hafi verið uppátektarsamur strákur og sumt af því sem hann tók sér fyrir hendur á mörkunum. Hann fór þó aldrei alveg yfir strikið en daðraði við vafasaman félagsskap annarra stráka á tímabili.

 „Lars veit einnig að hann getur ekki hugsað sér að gerast pólitíkus, eins og Troels Hartman í Forbrydelsen.“

Að synir þeirra legðu fyrir sig sviðslistir var ekki draumaframtíðin að mati foreldranna. Mads hóf ungur að dansa en leikferillinn hjá Lars kom síðar. Hann var tuttugu og sex ára þegar hann komst inn í leiklistarskóla, Statens Theatreskole. Ástæðan fyrir því að hann hóf námið svo seint var að hann gegndi herþjónustu, reyndi fyrir sér í bankabransanum og las líffræði í háskóla um tíma. Ekkert af þessu höfðaði þó til hans og að lokum fann hann sína réttu hillu og hóf leiklistarnám. Pabba þeirra leist ekki á blikuna, enda sagðist hann ekki sjá hvernig danskir leikarar gætu lifað af listinni. En viðhorf þeirra breyttist fljótt og þau eru bæði mjög hreykin af sonunum.

Lars veit einnig að hann getur ekki hugsað sér að gerast pólitíkus, eins og Troels Hartman í Forbrydelsen. Hann segist upplifa marga stjórnmálamenn sem atvinnulygara og ekki hafa áhuga á að taka þátt í slíku. Hann er kvæntur Anette Støvelbæk leikkonu og þau eiga tvo syni, Thor og Lue. Þegar Lars þarf á slökun að halda ekur hann til Gilleje rær út á skektu og rennir fyrir fisk.

- Auglýsing -

Keðjureykjandi pókerspilari

Mads sækir meira í spennu en bróðir hans því póker er hans slökun og þrátt fyrir að vera fyrrum íþróttamaður reykir hann eins og strompur. Árum saman hefur hann spilað póker við vini sína og meðan á tökum á Casino Royale stóð segist hann stundum hafa átt erfitt með að slíta sig frá pókerspili við samstarfsmenn sína til að leika fyrir framan kvikmyndavélarnar. Hann var ekkert sérlega hrifinn af Bond sem drengur en heillaðist af Bruce Lee og vildi líkjast honum á allan hátt. Ástæða þess að Mads endaði sem Bond-leikari er hins vegar vinsældir þáttaraðarinnar Rejseholdet.

Íslendingar þekkja vel Rejseholdet en þetta voru sérlega velskrifaðir spennuþættir. Árið 2002 fengu þeir Emmy-verðlaun og það var í fyrsta sinn sem framhaldsþættir á öðru tungumáli en ensku hlutu slík verðlaun. Örninn var næstur  og fékk Emmy-verðlaun árið 2005. Þættirnir fóru víða og vöktu geysilega athygli og meðal þeirra sem sáu þá var Antoine Fuqua leikstjóri King Arthur. Hann fékk Mads til að leika fálkatemjarann Tristan. Það varð svo til þess að hann kom fyrir augu Barböru Broccoli sem framleiðir Bond-myndirnar.

- Auglýsing -

Enginn dogmaaðdáandi

Líkt og Lars byrjaði Mads seint í leiklistarnámi. Hann var fimleikamaður og dansari í níu ár en þegar honum var boðið smáhlutverk í leikriti komst hann að því að hann kunni ansi vel við sig í sviðsljósinu. Í kjölfarið hóf hann nám í Århus Teaterskole en á þriðja ári var honum boðið hlutverk Tonnys í Pusher. Hann ákvað að taka því þótt það þýddi brottrekstur úr skólanum. Pusher var dogma-mynd og það voru Elsker deg for evigt og Blinkende lygter líka en myndin Adams Æbler er það hins vegar ekki. Mads er ekkert sérstaklega hrifinn af dogma-hugmyndafræðinni sem gekk út á að beita sem fæstum brellum við kvikmyndatökur og allt ætti að vera eins eðlilegt og mögulegt væri. Þannig mátti ekki festa myndavélarnar á fætur eða tæki, ljósið átti að vera náttúrulegt og umhverfið ekki stílíserað.

„Ef þig vantar ljós hvers vegna að sóa þremur klukkustundum í að bíða eftir sólinni?“ Segir hann. „Í guðs bænum náðu einfaldlega í ljós – svindlaðu, svindlaðu, svindlaðu. Ég svindlaði eins mikið og ég gat og það var betra fyrir myndina. Dogma varð hins vegar til þess að Danmörk komst í eitt skipti fyrir öll á kortið í kvikmyndagerð.“

„Líkt og Lars byrjaði Mads seint í leiklistarnámi. Hann var fimleikamaður og dansari í níu ár en þegar honum var boðið smáhlutverk í leikriti komst hann að því að hann kunni ansi vel við sig í sviðsljósinu.“

Mads hefur hvað eftir annað verið kosinn kynþokkafyllsti karlmaður Danmerkur, af hlustendum útvarpsstöðva, lesendum blaða og álitsgjöfum tímarita. Hann kippir sér ekki mikið upp við það og segir:

„Ég vildi frekar vera kosinn kynþokkafyllsti maðurinn en sá ljótasti.“

Hann drekkur bjór fremur en nokkuð annað en segist geta smakkað viskí ef ekki sé annað á boðstólum. Honum finnst lyktin af því hins vegar ekki góð og heldur sig því frekar við ölið. Hann er kvæntur danshöfundinum Hanne Jacobsen og þau eiga tvö börn, Violu og Carl. Þrátt fyrir velgegni á alþjóðvettvangi segist hann ekki vera á leið til Hollywood.

„Danmörk er heimaland mitt, þar er tunga mín töluð og mínar sögur sagðar,“ segir hann um þetta í viðtali við tímaritið Esquire.

Það er hins vegar óumdeilt að hann hefur náð einna bestum árangri allra danskra leikara í Hollywood og miðað við vinsældir nýjustu Bond-myndarinnar er hann líklegur til frekari afreka. Hann á það þó sameiginlegt með bróður sínum að kjósa fremur að leika í minni, listrænni verkefnum en þeim stærri og léttvægari. Mörgum þykir þeir bræður líkir í útliti þrátt fyrir umtalsverðan hæðarmun en Lars er 192 cm á hæð en Mads 182 cm. En þeir eru hins vegar góðir vinir og hafa stutt hvorn annan dyggilega bæði í starfi og einkalífi. Meðan á tökum þáttaraðarinnar Hannibal stóð yfir flutti fjölskylda Mads til Kanada til að Hanne og börnin gætu verið nær Mads. Eiginkona Lars er Annette Støvelbæk en þau eiga tvo syni og búa í Kaupmannahöfn.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Sigurjón og skyr slá í gegn í nýrri herferð

Sigurjón Kjartansson framleiðandi með meiru fer með aðalhlutverkið í nýrri auglýsingu bandaríska skyrframleiðandans Icelandic Provisions. Aug­lýs­ing­in er...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -