Kýs frekar eina gæðaflík

Deila

- Auglýsing -

Valdís Dröfn Pálsdóttir, eigandi hárgreiðslustofunnar Rauðhetta & úlfurinn, segir stíl sinn einkennast af gallabuxum, skyrtu og flatbotna skóm. Hún kjósi þægindi fram yfir útlit og sér líði best í kósígallanum og ullarsokkum. Valdís Dröfn leyfði okkur að kíkja í fataskápinn sinn.

„Hér heima versla ég helst í Zara en erlendis kaupi ég það sem mér finnst fallegt hverju sinni. Ég kýs frekar eina gæðaflík en margar sem duga skemur,“ segir Valdís Dröfn. „Ég hef aldrei keypt flík á Netinu. Ég er frekar léleg í tækninni.“

Að hennar mati eru ullarsokkar skyldueign í fataskápnum. „Ég fer beint í kósígallann og ullarsokkana þegar ég kem heim úr vinnunni. Þannig líður mér best. Annars einkenna gallabuxur, skyrta og flatbotna skór minn stíl. Ég fell samt oftast fyrir samfestingum.“

Aðspurð hvað henni finnist skemmtilegast að kaupa svarar hún að sér finnist skemmtilegast að kaupa föt á börnin sín. Þegar blaðamaður spyr hvað sé leiðinlegast að máta segir Valdís Dröfn að það fari eftir hugarfarinu. „Það er gaman að máta allar flíkur þegar maður er í rétta gírnum. Og öfugt.“

Fullt nafn: Valdís Dröfn Pálsdóttir.

Starfsheiti: Hársnyrtir og förðunarfræðingur. Eigandi hárgreiðslustofunnar Rauðhetta & úlfurinn.

Aldur: 34 ára.

Áhugamál: Að ferðast, elda góðan mat og útivist.

Fallegasti fataliturinn? Rauður og gylltur.

Besta lykt í heimi? Rituals – Cherry Blossum.

Þægindi eða útlit? Þægindi allan daginn (eftir vinnu).

 

Nýjustu kaupin í fataskápnum? „Síðerma bolur sem ég keypti í Húrra.“

„Skórnir sem ég gifti mig í hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig. Fyrrverandi tengdamamma mín gaf mér þá en hún gifti sig líka í þeim.“

Uppáhalds fylgihluturinn: „Belti sem maðurinn minn keypti í New York og gaf mér.“

Flíkin með mesta tilfinningalega gildið: „Þennan kjól átti amma mín þegar hún var ung. Ég fékk oft að klæða mig upp á og máta kjólinn þegar ég var lítil. Í dag nota ég hann við sérstök tilefni.“

 

Uppáhalds flíkin: „Boss-skyrtukjóllinn minn.“

Myndir/Hallur Karlsson

- Advertisement -

Athugasemdir