Landsréttur hreinsar Lárus af ásökunum um brot á starfsskyldum: „Hafði mikil áhrif persónulega“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lárus Sigurður Lárusson lögmaður fagnar niðurstöðu úrskurðar Landsréttar í síðustu viku, en þar er hann hreinsaður af ásökunum fyrir brot á starfs- og trúnaðarskyldum sem skiptastjóri í þrotabúi fasteignafélagsins Þórodds ehf.  

„Málið hafði mikil áhrif á mig persónulega, þetta er högg sem maður fær á sig. Ég bjóst ekki við þessari niðurstöðu í héraði og kom mér mjög á óvart, maður varð fyrir hálfgerðu áfalli og beið álitshnekki. Það liggur við að ég segi að maður hafi misst æruna í þessu máli,“ segir Lárus.

„Alls staðar þar sem ég fór var ég spurður út í málið og hvað hefði eiginlega gerst og ég þurfti að svara fyrir önnur störf sem ég var í og maður mætti tortryggni. Þannig að þetta mál tók heilmikið á.“

Í haust kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð um að Lárusi yrði vikið úr starfi skiptastjóra þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf. Idac ehf. og Ríkisútvarpið ehf. kærðu Lárus og snerist málið um sölu á Þóroddsstöðum í Reykjavík, sem var verðmætasta eign þrotabúsins. Kæran var annars vegar reist á því Sævar Þór Jónsson lögmaður, löggiltur fasteignasali, eiginmaður og samstarfsmaður Lárusar, hefði séð um sölu eignarinnar, og hins vegar um það að Sævar Þór hefði hlotið of háa söluþóknum fyrir eða 2,5%. Einnig var talið að eignin hefði verið seld of lágu verði.

Í ítarlegum úrskurði hafnar Landsréttur í öllum meginatriðum kröfum Ríkisútvarpsins ehf. en vísar kröfum Idac ehf. frá.

„Mér fannst kannski vert í þessu að eftir að úrskurðurinn féll í héraðsdómi var málsmetandi fólk sem ég treysti, sem spurði mig hvort væru einhver illindi í gangi milli mín og dómarans sem kvað upp úrskurðinn. Ég gat engu svarað til um það. Fólki þótti nokkuð harkalegt orðalag í dómsúrskurðinum þar sem talað er um að ég hafi tekið eigin hagsmuni fram yfir aðra,“ segir Lárus.

Telur þú að niðurstaðan í héraðsdómi hefði orðið önnur en annar en Sævar Þór hefði selt eignina?

„Það hefur verið viðtekin venja lengi að skiptastjórar selji eignir þrotabúa í gegnum sínar lögmannsstofur. Nú starfa ég á stofu með manninum mínum, og ég spyr mig auðvitað hvort þetta hafi skipt máli. Mér finnst að þarna hafi mér verið refsað svolítið fyrir það sem aðrir lögmenn gera, en ég get ekkert fullyrt um það,“ segir Lárus. „Áður var það þannig að lögmenn þurftu ekki löggildingu til að starfa sem fasteignasalar og var það hugsað þannig að þeir gætu selt fasteignir í þrotabúum. Fyrir nokkrum árum var þessu breytt þannig að lögmenn eru ekki fasteignasalar, en Sævar er það aftur á móti. Þannig að lögmenn selja bara eignir á þeim lögmannsstofum sem þeir starfa á ef þar eru einnig fasteignasalar.“

Dómarinn í héraðsdómi fullyrti að sölulaunin hefðu verið of há, en það virðist bara byggja á því að hann hafi ályktað að þetta hafi átt að vera einkasala, sem það var ekki. Landsréttur fer yfir gögnin og sér að svo er ekki og tók sérstaklega fram að söluþóknunin væri í samræmi við það sem almennt tíðkast.

Svo hitt stóra atriðið sem deilt var mikið um, það er söluverðið og hvort það hafi verið of lágt. Landsréttur segir að ekki hafi verð sýnt fram á svo sé. Mikið var deilt um byggingarétt sem fylgir eigninni og hann virðist ekki vera jafn verðmætur og menn viltu láta. Og ég felst á það, ég tel að hann sé mun verðminni en menn ætla.“

„Úrskurður héraðsdóms hafði auðvitað mikil áhrif,“ segir Lárus. „Ég var með önnur þrotabú og menn í þeim búum fóru upp til handa og fóta og héldu að ég væri að gera eitthvað misjafnt í þeim. Ég þurfti allt í einu að fara að svara fyrir önnur störf og mætti tortryggni á öðrum stöðum,“ segir Lárus, en bætir við að margir viðskiptavina hans hafi þekkt hann lengi og því hafi úrskurðurinn ekki haft áhrif á þau mál.

Lárus var jafnframt formaður stjórnar Menntasjóðs námsmanna frá því síðasta sumar, og hafði áður verið varaformaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í tvö ár. Einnig var hann í nefnd um heiðurslaun listamanna. „Ég sagði mig úr þeim trúnaðarstörfum, ég óttaðist að kæmi óþarfa gagnrýni á þau störf og ég vildi alls ekki að það myndi gerast,“ segir Lárus.

Lárus hóf störf sem lögmaður 2013, eftir að hafa starfað í tíu ár hjá ríkinu sem lögmaður. Hefur hann sinnt störfum skiptastjóra frá 2013 og telur búin sem hann hefur sinnt skipta tugum. „Um leið og maður byrjar störf sem lögmaður fer maður að taka að sér þessi einfaldari þrotabú,“ segir Lárus, sem segist ómögulega hversu mörg þrotabúin eru sem hann hefur komið að þessi sjö ár, en þau skipti tugum. Þetta er í fyrsta sinn sem gerðar eru aðfinnslur við störf hans sem skiptastjóri.

„Ég upplifi að það er beinlínis verið að ráðast á persónu mína. Þarna er ég opinber sýslumaður í hlutverki skiptastjóra, en mín persóna verður undir,“ segir Lárus.

Sýndi hverjir eru vinir manns

Lárus segir marga kollega hans hafa lýst yfir furðu sinni á niðurstöðu héraðsdóms. „Þeir voru mér mjög vinveittir og veittu mér ráðgjöf og vildu stappa í mann stálinu,“ segir Lárus.

„Þetta mál sýndi mér alveg hverjir eru vinir manns og hverjir ekki, þetta er heilmikil reynsla og kannski ágætt fyrir lögmann að þurfa að sitja undir svona dómsniðurstöðu. Maður er bara með umbjóðendur, en á ekki persónulegra hagsmuna að gæta í þeim málum. Að reyna á eigin skinni hvernig er að vera fyrir dómi og fá ekki niðurstöðuna sem þú vilt fá.“

Ferlið þarf að vera formlegra

Kærendur Idac ehf. og Ríkisútvarpsins byggðu meðal annars á því fyrir Landsrétti að ekki hefði verið hægt að kæra úrskurð héraðsdóms, en Lárus skaut málinu til Landsréttar með kæru.

„Þegar ég kæri málið þá er uppi vafi um hvort sé hægt að kæra eða ekki. En núna er komið á hreint að Landsréttur lítur svo á að kæruleið sé til staðar,“ segir Lárus og gagnrýnir hversu óformlegt ferlið er þegar svona ágreiningsmál koma upp.

„Svona aðfinnslumál eins og þetta, þau byggja á 76. grein laga um gjaldþrotaskipti, og í lögunum er málsmeðferðin ekki skýr. Venjulega þegar maður fer í héraðsdóm þá er þingfest ágreiningsmál sem er tekið til úrlausnar. En eins og í þessu máli hjá mér þá voru þetta bara óformlegir fundir sem leiða svo til þessarar niðurstöðu hjá héraðsdómi. Manni finnst það ákveðin lausung að slíkir óformlegir fundir geti leitt til svona íþyngjandi úrskurðar,“ segir Lárus.

„Gagnaðilar vildu leiða fram vitni, en það fara ekki fram formlegar vitnaleiðslur líkt og fyrir dómi þar sem vitni eru áminnt um sannsögli og slíkt. Fólki er bara boðið að koma á þessa óformlegu fundi og segja frá. Svona eins og einhver spjallfundur,“ segir Lárus. Verklagsreglur hjá héraðsdómi valda því að eftir úrskurð dómsins þá var Lárus tekinn af lista yfir skiptastjóra þrotabúa og fær ekki þrotabú til meðferðar næstu tvö ár eftir úrskurð.

„Ég hélt þeim þrotabúum sem ég var þegar með og hefði þá bara þurft að klára þau lögum samkvæmt,“ segir Lárus. Eftir úrskurð Landsréttar er nafn hans hins vegar komið aftur á lista skiptastjóra hjá héraðsdómi. Lárus tekur þó ekki aftur við þrotabúi fasteignafélagsins Þórodds ehf. enda var því ráðstafað annað eftir úrskurð héraðsdóms. Telur Lárus það hafa verið eðlilega niðurstöðu. „Skiptastjóri þarf að vinna með kröfuhöfum og þegar allt er komið í hár saman þá er ekki hægt að halda því samstarfi áfram, og því eðlilegt og rétt að annar skiptastjóri taki við.“

Litið til baka telur Lárus að í grófum dráttum hafi meðferð á málinu verið eðlileg. „Það eru oftar en ekki einhver ósætti í þrotabúum. Það eru kröfuhafar og fyrirsvarsmenn þrorabúa sem eiga ólíkra hagsmuna að gæta. Skiptastjórar eru oft í erfiðri stöðu að vinna úr ólíkum hagsmunum. Þannig að þeir verða að passa upp á að lenda ekki í miðjunni.“

Lárus segir ekki gott að hafa verið með þetta mál hangandi yfir sér yfir jólin og áramótin. Niðurstaða Landsréttar sé góð byrjun á nýju ári.

Úrskurð Landsréttar má lesa í heild sinni hér. 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

­Ísold og Una Lind eiga von á barni

Parið Ísold Ugga­dóttir, kvik­mynda­gerðar­kona, og Una Lind Hauks­dóttir, mannfræðingur, eiga von á barni. Parið tilkynnti gleðitíðingin í...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -