2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Leiðtoginn vísar veginn

  Um árabil hefur mönnum verið ljóst mikilvægi góðra stjórnenda í fyrirtækjum. Leiðtogi sem blæs undirmönnum sínum í brjóst áhuga á starfinu og skapar ánægjulegt vinnuumhverfi nær ævinlega eftirtektarverðum árangri.

  Hulda Jóhannsdóttir, leikskólastjóri á Króki í Grindavík, er í hópi þeirra er athygli hafa vakið fyrir afburðastjórnun. Hún vinnur mikið með hugmyndir úr grasrótinni og virkjar starfsfólkið í að móta framkvæmd þeirra. „Ég held verði að nefna að frá því ég opnaði leikskólann fyrir sautján árum hef ég haft eina ákveðna sýn og verið fylgin henni. Um leið og ég sá að hún virkaði efldist ég í mínu. Það þýðir ekki að ég hafi aldrei tekið inn eitthvað nýtt, við gerum það reglulega og um leið ég sé að það gefur góða raun geri ég allt hvað ég get til að þjálfa kennarana í þeim þáttum. Þegar gera á breytingar kem ég ekki inn á starfsmannafund og segi: „Svona ætlum við að gera þetta.ׅ“ Ég nota kaffihúsaðferðina en hún felst í því að unnið er hópi og málin rædd. Ég kem með einhverja innlögn og spyr: „Hvernig ætlum við að gera þetta?“ Starfsfólkið svarar og leggur línurnar um hvernig við ætlum að gera þetta.“

  Hulda ræktar einnig eigin vellíðan og segir það mikilvægan þátt í að vera góður stjórnandi og samstarfsmaður. „Hver og einn ber ábyrgð á því hvernig hann er og hvernig hann kemur fram inni á vinnustaðnum,“ segir hún. „Ég áttaði mig á því fyrir löngu að ég get aðeins borið ábyrgð á eigin hegðun en ekki annarra og það allra mikilvægasta í skólastarfi er að skapa kærleiksríka menningu. Svo er ég auðvitað með dásamlegan aðstoðarleikskólastjóra. Við erum ólíkar en bætum hvor aðra upp á mjög góðan hátt. Lykillinn þar er samræðan. Leikskólar eru oft hannaðir þannig að lítið pláss er ætlað fyrir starfsmannaaðstöðu. Við enduðum því báðar í sama herbergi. Við erum saman í pínulitlu herbergi og það var heppilegt. Við notum tímann milli átta og níu til að ræða hvað gerðist í gær, hvernig var tekið á því og hvað mætti gera betur. Ég heyri oft að stundum vanti að aðstoðarskólastjórar í leikskólum nýti sér þann stjórnunartíma sem þeim er ætlaður. Við nýtum þann tíma til fulls og uppskerum samkvæmt því.“

  Nú er Hulda á leið í jógakennaranám. Það gerir hún vegna þess að samskiptastefnuna hefur hún sagt byggða á jógafræðum og nú vill hún fullvissa sig um að það sé rétt fullyrðing. Þetta er einnig liður í viðleitni hennar til að bæta stöðugt sjálfa sig og passa upp á starfsfólkið sitt. „Ég vil passa upp á að okkur líði vel saman. Það er algjörlega mitt hlutverk og ég tel að ég geti fundið svör og leiðir í jógafræðunum. Þegar feilspor eru stigin er það bara í mannlegu eðli að fara fyrst í neikvæðan gír og kenna öðrum um. Þetta var það sem ég lenti í og sem betur fer áttaði ég mig á að þarna var eitthvað að gerast og ég komin á stað sem ég vildi ekki vera á vegna þess að leikskólakennarastarfið er merkilegt starf, ábyrgðarmikið starf og vellaunað,“ segir Hulda að lokum með auðmýkt og sýn afburðastjórnandans inn í eigin bresti.

  Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is