Letihelgar – allra meina bót

Deila

- Auglýsing -

Það er líka mikilvægt að liggja í leti og gera það sem manni langar mest til.

Þú þarft alls ekki að vera í netsambandi alla tíð og tíma. Það er gríðarleg hvíld í að láta vera að skoða tölvupóst, tíst, Snapchat og Instagram í einn dag.

Tveggja daga frí hljómar dásamlega og þótt sumir kunni að benda á að helgarnar séu einmitt það, er vert að muna að hjá flestum tekur við annars konar vinna strax á laugardagsmorgni. En hvað ef maður gæti látið það vera að þrífa, þvo þvott, versla, skutla krökkunum, sinna garðinum og öllu hinu sem hefur verið vanrækt alla vikuna? Hvað ef þú gætir bara legið í leti eða notið þess að gera nákvæmlega það sem þig langar mest til?

Staðreyndin er sú að þú getur það og þarft meira að segja alls ekki að hafa neitt samviskubit yfir því. Vinnusálfræðingar hafa nefnilega komist að því að okkur er einfaldlega nauðsynlegt að stíga af og til út úr þaulskipulagðri dagskránni og láta ráðast hvað og hvort við gerum eitthvað. Næst þegar föstudagurinn nálgast og fram undan eru þessir verðmætu tveir sólarhringar, sem ávallt líða alltof fljótt, skaltu ákveða að ákveða ekkert og til að tryggja að það standist skaltu fara að eftirfarandi ráðum:

1. Leggðu algjörlega frá þér tölvuna, símann og annan tæknibúnað
Þú þarft alls ekki að vera í netsambandi alla tíð og tíma. Það er gríðarleg hvíld í að láta vera að skoða tölvupóst, tíst, Snapchat og Instagram í einn dag. Þetta verður allt þarna á morgun. Ákveddu til dæmis að tæknibannið standi frá fimm á föstudegi til fimm á laugardegi. Nýttu svo tímann til að rifja upp allt það sem veitti þér ánægju áður en Netið og tæknin komu til.

2. Talaðu við fólk
Manstu hvað innihaldsríkar samræður gátu verið skemmtilegar? Nei, þá er kominn tími til að rifja það upp. Farðu í heimsókn til vina eða bjóddu þeim til þín. Matarboð þar sem allir koma með eitthvað og leggja á borð er frábær leið til að tryggja að allir geti notið sín og vinnan lendi ekki öll á einhverjum einum. Að setjast á kaffihús og spjalla er líka frábært. Þemakvöld er önnur skemmtileg leið. Upphugsaðu eitthvert spennandi umræðuefni sem ekki er eldfimt og bjóddu til þín vinum til spjalla um það. Þá geta allir undirbúið sig og oft kvikna ótrúlegustu hugmyndir á svona kvöldum.

3. Gefðu af þér
Það er staðreynd að flestir njóta þess að gefa af sér, finna þakklæti og gleði annarra og vita að þeir hafi kveikt þær tilfinningar. Heimsæktu roskinn ættingja eða einhvern sem þú veist að þarf á hjálp að halda og bjóddu fram aðstoð. Sláðu garðinn fyrir gamla manninn í næsta húsi eða farðu út að ganga með gömlu frænku þinni. Kannaðu líka hvort þú getir lagt lið einhverju góðgerðarstarfi í þínu hverfi.

4. Leiktu þér
Fullorðið fólk hefur alveg jafnmikla þörf fyrir leiki og börn. Finndu út hvað veitir þér ánægju og taktu frá nokkrar klukkustundir til að sinna því. Farðu í golf, á hestbak, í fjallgöngu, út að hjóla eða sestu við og saumaðu út. Börn læra í gegnum leik og fullorðið fólk líka. Allar athafnir sem krefjast einhvers, bæði af huga og hönd, veita ánægju og hvíld.

Vissulega er gott að vera samviskusamur og skyldurækinn en stundum mega verkin bara bíða.

5. Geymdu skylduverkinu
Vissulega er gott að vera samviskusamur og skyldurækinn en stundum mega verkin bara bíða. Gerðu minna um helgar. Það er alls ekki nauðsynlegt að klára allt. Ekki einsetja þér að þrífa íbúðina á laugardegi, taka þvottinn á sunnudegi og svo framvegis. Láttu ráðast hversu miklu þú kemur í verk og gefðu þér frekar tíma til að njóta en pína þig til að klára skylduverkin.

6. Njóttu fegurðar
Allar manneskjur nærast á fegurð. Þótt smekkur okkar sé vissulega misjafn þá endurnærir það okkur að horfa á, heyra og snerta eitthvað sem er fallegt. Farðu á listasafn, í gönguferð í skrúðgarð eða út í náttúruna, sama hvað eða hvar finndu fegurð og njóttu hennar.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Advertisement -

Athugasemdir